Verð á grænmeti

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:15:55 (6621)

2001-04-23 15:15:55# 126. lþ. 109.1 fundur 467#B verð á grænmeti# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Afrek lífsins eru sjaldan eins manns og oft þarf að ná samstöðu og vinnu í gegn. Ég vil í upphafi lýsa því yfir að það er vilji ríkisstjórnarinnar að leita nýrra leiða til að lækka verð á grænmeti. Ég trúi því að á allra næstu vikum komi fram tillögur sem leiði til þess að svo verði.

Hins vegar er það afar billegt af hálfu hv. þm., og vitnar þar til Samkeppnisstofnunar, að tollarnir séu samsæri gegn neytendum. Ég hef óskað eftir því við Samkeppnisstofnun að hún skili af sér tillögum um verðmyndun á grænmeti þar sem sundurliðað verði hvað bóndinn fái í sinn hlut, hvað kaupmaðurinn fái, hvað heildsalan fái og hvað ríkið taki, til þess að hægt sé að marka stefnu um þetta. Ég bíð þeirrar niðurstöðu.

Ég vil segja að það var afrek hjá Morgunblaðinu í gegnum rannsóknarblaðamann að taka út þessi mál og komast að þeirri niðurstöðu þar sem því er haldið fram að stóru verslunarkeðjurnar taki 60--80% og stundum yfir 100% af verðmæti á viðkvæmu grænmeti. Þetta voru nýjar upplýsingar sem koma sjaldan fram í umræðunni og skýra kannski að hluta til þá hækkun sem hv. þm. hefur vitnað til og hefur sjálfur getið um í fjölmiðlum og vakið athygli á. Ég þakka honum nú fyrir þá sanngirni.

Ég vil segja: Þetta er ekkert skjótræði. Það er vilji þings og þjóðar að standa vörð um íslenska garðyrkju. Ég minni hv. þm. á og spyr eftir því: Er samstaða í Samfylkingunni um að fella tollana í burtu með einu handbragði? Varaformaður hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er Margrét Frímannsdóttir. Hún hefur oft staðið vörð um íslenska garðyrkju.

Ég trúi því að vilji sé til þess að gefa tíma til að finna þær leiðir sem nú er stefnt að og að menn fái svigrúm. Nú eru það, hæstv. forseti, aðilar vinnumarkaðarins sem sitja við það borð og þeim treysta allir.