Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:14:03 (6674)

2001-04-23 18:14:03# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrr á þessum fundi var vikið að því að ekki væri mikil mæting við þessa umræðu um málefni hæstv. landbrh. Hér hafa lengst af umræðunnar verið tveir stjórnarandstöðuþingmenn úr hv. landbn. og einn áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins úr sömu nefnd. Aðrir, þ.e. sjö meðlimir hv. nefndar, hafa ekki látið sjá sig í þingsalnum. Þetta er ekkert einsdæmi. Svona er þetta dag eftir dag, álíka slök mæting við umræður í þingsal.

Hæstv. ráðherra afsakaði þetta með því að stjórnarþingmenn hefðu þurft að ræða þessi frumvörp í þingflokkum sínum og þess vegna hefðu þeir ekki áhuga á að ræða þau hér. Ég verð að segja að þetta þykir mér afskaplega léleg afsökun. (Gripið fram í.) Okkur sem erum kosin á Alþingi er auðvitað ætlað að standa vörð um þingræðið og lýðræði í landinu. Við höfum hér skyldum að gegna.

[18:15]

Ég á sæti í Norðurlandaráði. Um daginn spurði ég einn þingmann í norska þinginu, þar sem við vorum í þeim stóra þingsal við umræður: Hvernig er mætingin hérna? Mér fannst þetta svo gríðarlega mörg sæti. Þá segir hann: ,,Það mæta náttúrlega alltaf þeir sem eru í viðkomandi nefnd en kannski ekki svo margir þar fram yfir.`` Það virtist sem sagt sjálfsagt að allir mættu úr viðkomandi nefnd. (Gripið fram í.) Þetta er kannski ekki málefni dagsins en þetta er málefni þingsins og á því verður að taka á Alþingi Íslendinga. Þetta gengur ekki svona lengur.

Varðandi þáltill. þá sem hér liggur frammi, um hertar aðgerðir á sviði smitsjúkdómavarna og aukið eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum, þá vil ég auðvitað taka undir efni hennar. Hún ber þess merki að hún er fyrst tekin til umræðu löngu eftir að hún er lögð fram. Þegar hefur verið gripið til margra þeirra ráðstafana sem hér eru lagðar til og eftir því sem hæstv. landbrh. segir hafði mörgum þeirra verið hrint í framkvæmd þegar tillagan var lögð fram. Þá var ýmislegt að gerast í ríkisstjórn og sjálfsagt í þingflokkum stjórnarflokkanna sem við hin vissum ekkert um, ýmislegt í sama dúr eins og hann hefur greint frá.

Ég tek heils hugar undir það að við eigum að viðhafa hér ströngustu varúðarráðstafanir, ekki bara núna heldur ávallt og auðvitað höfum við Íslendingar á mörgum sviðum staðið okkur býsna vel í þessum málum. Ég veit og hef orðið vör við það, t.d. á Norðurlöndum, að við erum öfunduð vegna þess hve ströng við höfum verið og fyrir það hve litlu við þurfum að breyta og bæta við varnir okkar meðan þeir hafa staðið í mjög miklu stríði í sóttvarnaaðgerðum sínum. Ég get upplýst það að á síðasta fundi í Norðurlandaráði var það heitasta mál þingsins, milli Norðurlandanna sjálfra, t.d. að Norðmenn höfðu alfarið bannað allan matvælainnflutning inn í land sitt, m.a. var tekið af einum nefndarmanni úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs lítið oststykki sem hún hafði í föggum sínum, innpakkað auðvitað í loftþéttar umbúðir. Það mátti ekki hafa með sér nein matvæli þá dagana og voru engar undantekningar leyfðar. Eitthvað svipað var það í Svíþjóð, þó ekki alveg eins strangt. Þetta áttu Finnarnir ákaflega erfitt með að þola vegna þess, eins og þeir sögðu: Hjá okkur hefur aldrei greinst kúariða. Hjá okkur hefur aldrei greinst gin- og klaufaveiki. Hvers eigum við að gjalda?

Ég verð að segja að ég tók undir með Norðmönnunum varðandi aðgerð þeirra. Það var svo sem ekki auðvelt því að andrúmsloftið þarna var verulega heitt. Ég var á tímabili farin að halda að þetta mundi kannski verða erfiðast í norrænu samstarfi á þessu ári, þ.e. þessar hertu aðgerðir. Hið sama gildir ekki um okkur Íslendinga. Við höfum svo lengi verið svo ströng að þær ráðstafanir sem nú hefur verið gripið til þykja ekki breyta svo miklu frá því sem alltaf hefur verið, sem betur fer.

Ég verð að segja að ég óttast svolítið sumarið, eins og hér hefur komið fram að fleiri gera, sérstaklega farþega sem hingað koma og taka oft og tíðum með sér býsnin öll af mat. Ég hef heyrt fleiri en einn og fleiri en tvo hrósa sér af því að þeir komi með allan þann mat sem þeir ætla að borða í ferðalaginu og hafi skipulagt ferð sína dag fyrir dag svo þeir þurfi ekkert að kaupa hér, rétt að taka vatn og búið. Hvernig er hægt að koma þeim skilaboðum til þessa hóps farþega að þetta verði ekki lengur liðið? Það verði ekki lengur liðinn neinn innflutningur á matvælum, t.d. hjá farþegum ferjunnar Norrænu. Ég er voðalega hrædd um að rekið verði upp mikið ramakvein því að það verður erfitt að koma þessu til skila. Fólkið sem þarna kemur er alls staðar að úr Evrópu, ekki bara frá Norðurlöndunum.

Nú hefur hæstv. landbrh. upplýst að reglur hafi verið hertar varðandi innflutning á tækjum til nota í landbúnaði. Í umræðum um daginn var vakin athygli á því að mikið hefði verið flutt inn af jarðvinnslutækjum hvers konar. Sá sem gerst ætti að vita og hér talaði í því máli taldi að ekkert væri fylgst með þessu og engum sóttvörnum beitt. Ég vona að varnaðarorð hans í þeirri umræðu hafi orðið til þess að (Forseti hringir.) menn hafi tekið við sér en ég verð að segja að við verðum að hafa augu á hverjum fingri í þessum málum til að sporna við því að hingað berist smit. Við erum í mikilli hættu.