Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:22:27 (6675)

2001-04-23 18:22:27# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitthvað hefur athygli hv. þm. verið misjöfn undir ræðu minni áðan. Í fyrsta lagi liggur fyrir að allar notaðar vélar, hvort sem það eru hestakerrur, kerrur eða vinnuvélar til landbúnaðar, eru ekki fluttar til landsins nema með fullkomin vottorð og fullhreinsaðar. Það var eitt af því sem ég gat áðan um að ég hefði tekið á.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi, að ferðamenn komi með allan sinn mat til landsins, þá þarf enginn að reka upp ramakvein. Hafi það verið svo í gegnum tíðina þá er það lögbrot í þessu landi. Fólk hefur ekki heimild til þess. Það þarf náttúrlega að vera alveg skýrt þegar Norræna kemur að bryggju, að fólk kemur ekki hingað með hrá matvæli. Það er lögbrot og það verður að tilkynna að allur slíkur farangur verði gerður upptækur og honum eytt því að það er lögbrot. Þannig á það ekki að vera og ég kvíði því ekki, á því ber að taka.

Hins vegar kann ég illa við þegar gripið er niður í hálfa ræðu manns. Ég sagðist ekki verja fjarveru stjórnarliða í landbn. hér. Ég sagði hins vegar að hún benti kannski til stuðnings þeirra. Ég svaraði og sagði við hæstv. forseta að ég væri þeirrar skoðunar að þeir sem sitja í nefnd, þegar verið er að fjalla um mál sem á að fara til viðkomandi nefndar, eigi að vera við umræðuna, fylgjast með henni, taka þátt í henni. Þeim ber að vera við umræður. Ég gat þess áðan og þarf ekki að snúa út úr ummælum mínum hvað það varðar. Ég var ekki að verja fjarveru þeirra.