Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:31:02 (6724)

2001-04-24 16:31:02# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki lagt lykkju á leið mína og tekið þátt í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um þetta álitamál um samskipti fjölmiðlamanna við viðmælendur sína, hvorki á fyrri stigum máls né síðari.

Ég vildi bara hafa það ,,on record`` en ekki ,,off`` að ég er þeirrar skoðunar að þetta heyri fyrst og síðast undir blaðamennina og fréttamennina sjálfa og að þeir finni það hjá sér, samtök þeirra, einstakir fjölmiðlar, að þessi samskipti séu eðlileg. Og þegar ég segi eðlileg, rifjast það upp fyrir mér, hafandi starfað við þennan geira á árum áður, að auðvitað lét maður vita af því í hvert eitt og einasta skipti um leið og segulband var sett í gang þegar maður átti orðræðu við mann um viðkvæm málefni. Það gaf augaleið og það var bara hluti af eðlilegum samskiptum við viðmælandann. Mig hefði sennilega aldrei dreymt um það á þeim tíma að setja þyrfti lög eða lagareglur um hvernig þau samskipti þyrftu að fara fram. Að því leyti til tek ég einlæglega undir með hv. þm. Árna Johnsen, að hér eru menn kannski fyrst og síðast að tala um kurteisi og eðlileg samskipti og undir þeim formerkjum ætti í rauninni ekki að þurfa að fjalla um þetta eins og hér er gert á hinu háa Alþingi.

Ég vek til að mynda athygli á því sem er auðvitað algilt og alvanalegt í samskiptum fréttamanna við viðmælendur sína að þar geta samtöl hlaupið á örskömmum tíma úr því að vera ,,on record`` og ,,off the record`` og ég hygg að viðmælendum sem ræða ,,off the record`` sé lítið um það gefið að allt sé til á bandi sem er þess eðlis. Hafi viðkomandi fjölmiðill auglýst fyrir fram að hann taki samtöl upp á band sem hina almennu gullnu reglu, er það þá innifalið í þessu frv. að slökkt skuli á bandinu þegar samtalið hleypur í það ferli að vera ,,off the record``? Mér er það ekki alveg ljóst í þessu sambandi.

Ég vildi bara hafa sagt það við þessa umræðu að ég trúi því að mínir gömlu kollegar séu langflestir þannig úr garði gerðir að þeir telji það eðlilegan samskiptamáta að láta viðmælanda sinn vita af þessu. Þetta hefur svo sem aldrei truflað mig til eða frá í samskiptum við fjölmiðla. Yfirleitt hafa þau samskipti gengið prýðilega fyrir sig með eða án segulbands og vafalaust hef ég ekki haft hugmynd um það í langflestum tilfellum, og raunar er það svo, hvort viðkomandi samtal hafi verið hljóðritað eður ei. Þó eru enn þá undantekningar á því og einstaka fjölmiðlamenn hafa látið vita af því.

Af því menn ræða hér, og ég heyrði það sem ég hafði ekki haft hugarflug til að ímynda mér, hvort þær breytingar sem hér er gerð tillaga um leyfðu eða bönnuðu það að samtöl fréttamanna á ljósvakamiðlum, þ.e. útvarpi, væru send beint út án vitundar viðmælanda, þá hafði ég ekki hugarflug til að ímynda mér að slíkur möguleiki væri til staðar. En af því að á það var bent og það rifjað hér upp, þá hefur maður heyrt dæmi þess. Það er náttúrlega algerlega fyrir neðan allar hellur og ég satt að segja skil ekki að dagskrárgerðarmaður eða fréttamaður geti talist vandur virðingar sinnar að viðhafa slík vinnubrögð. Ég vil trúa því að þetta sé algjör undantekning og að þeir menn sem einu sinni gera slíkt snúi sér að öðrum störfum. Það er nú bara þannig.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vildi bara hafa sagt það við þessa umræðu að ég get vel fellt mig við þá niðurstöðu sem nefndin kemst hér að út af fyrir sig þó að ég endurtaki það sem ég sagði áðan að ég hefði talið nóg að siðareglur Blaðamannafélags Íslands tækju á þessum álitamálum og þær væru undir þeim merkjum að það væri hin almenna, gullna regla að í tveggja manna tali væri mönnum ljóst hvort hljóðritun væri í gangi eður ei.

Ef menn vilja hafa annan hátt á og einstakir fjölmiðlar vilja auglýsa það fyrir fram að þeir hljóðriti allt hvaðeina sem í millum fer, þá þeir um það og þá vita menn það fyrir fram. Að því marki geri ég ekki athugasemdir við þetta. Ég rifja upp að einu sinni var sá sem hér stendur og raunar tveir hv. síðustu ræðumenn, hv. þm. Árni Johnsen og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að sýsla við blaðamennsku í fullu starfi. Og því vil ég trúa að jafnvandaðir menn og þeir voru og eru hafi viðhaft þá gullnu reglu að láta menn vita, en halda viðmælendunum ekki í óvissu um hvernig vinnubrögð þeir viðhefðu. Blaðamennska er þannig að hlutir eiga að vera uppi á borðum en ekki undir þeim.