Réttur til fiskveiða á eigin bát minni en 30 brl.

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 16:43:04 (7035)

2001-04-27 16:43:04# 126. lþ. 114.22 fundur 349. mál: #A réttur til fiskveiða á eigin bát minni en 30 brl.# frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir er í rauninni mjög einfalt í sniðum. Það kveður á um að eftir ákveðinn starfsaldur eigi sjómenn rétt til þess að stunda takmarkaðar fiskveiðar tímabundið með þeirri takmörkun að stunda eingöngu handfæraveiðar á skipi undir ákveðinni stærð og til þess öðlist þeir rétt eftir að hafa starfað a.m.k. fimm ár til sjós.

2. gr. er um það að þeir menn sem starfað hafa átta ár til sjós eða lengur eigi örlítið víðtækari rétt og einnig að þeir sem hafa 25 ára starfsreynslu eigi þennan rétt sjálfkrafa.

Eingöngu er um það að ræða að rétturinn tilheyri viðkomandi manni og hann verði ekki framseldur til annarra eða nýttur af öðrum, þ.e. einstaklingsbundinn réttur manna til þess að stunda fiskveiðar sem byggist á rétti eða hefð þeirra sem hafa lagt þá atvinnugrein fyrir sig.

Að öðru leyti skýrir frv. sig algerlega sjálft. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. sjútvn.