Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:06:50 (7099)

2001-05-02 11:06:50# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var frekar ósannfærandi varnarræða. Mig grunar að ég hafi komið við snöggan blett í brjósti hæstv. ráðherra og ástæðan sé einmitt sú að þrátt fyrir alla óvissuna og vandræðaganginn í þessu máli og þrátt fyrir linnulausar deilur innan og milli stjórnarflokkanna um þetta mál hafi menn núna undir vorið verið farnir svo á taugum í sambandi við efnahagsmálin að það hafi nægt til þess að lemja þessa niðurstöðu í gegn, að nú skuli a.m.k. taka helminginn af silfrinu, 49% af Landssímanum, og reyna að framlengja veisluhöldin eitthvað með því í von um að krónan hangi kannski eitthvað frekar uppi og þess vegna sé óðagotið eins og raun ber vitni.

Staðreyndin er nefnilega sú að þróunin hefur nánast að öllu leyti undanfarna mánuði, eða segjum eitt til tvö missiri, mælt gegn því að flýta sér nú við breytingar á stöðu Landssímans. Óvissan sem hefur skapast að ýmsu leyti í fjarskiptamálum og margir aðrir þættir mæla frekar með hinu þannig að það er afar ósannfærandi málflutningur sem hér kom upp, að öðru leyti en þessu. Maður skilur kannski óðagotið ef þetta er ástæðan.