Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:23:45 (7141)

2001-05-02 14:23:45# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ímynd Landssímans hefði verið þannig að þar væri fremur stirðbusaleg ríkisstofnun. Ég held að ég hafi þar ekki sett fram neinn nýjan sannleika. Er þetta ekki það sem kom fram, t.d. í öllum könnunum á ímynd fyrirtækja, til að mynda í Frjálsri verslun? Landssíminn skoraði ekki mjög mörg mörk í slíkum könnunum. Þetta var ekki eitthvað sem ég var að finna upp. Það er fremur ómerkilegur útúrsnúningur manns sem kominn er algerlega í rökþrot að halda því fram að ég hafi verið að ráðast á starfsmenn Póst- og símamálastofnunar. Öðru nær. Ég sagði einfaldlega að þannig hefði þessi ímynd verið. Ég sagði einnig að fyrirtækið hefði verið í mikilli sókn, m.a. vegna þess að samkeppnin hefði gert það að verkum að fyrirtækið hafi orðið að breytast.

Menn hljóta að hafa tekið eftir því að Landssíminn hefur t.d. opnað sölubúðir fyrir þjónustu sína úti um landið sem ekki voru til staðar áður. Þær voru ekki til staðar áður. Það var meiri háttar mál ef menn ætluðu að kaupa símtæki hér áður og fyrr. Þetta hefur auðvitað breyst vegna þess að samkeppnin er til staðar. Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, þó að ég viti að afturhaldssjónarmiðin vaði uppi hjá vinstri grænum, að hv. þm. ætli að verða sérstakur talsmaður einokunar gegn samkeppni. Eða er það lærdómurinn sem hv. þm. hefur dregið af umræðum síðustu vikna, að einokun sé betri en samkeppni? Ég trúi því varla.

Hv. þm. spurði líka hvort ég teldi að þetta yrði til bóta fyrir landsbyggðina. Já, ég er alveg sannfærður um að þetta verður til bóta fyrir landsbyggðina. Ég held að aukin samkeppni á þessu sviði verði til bóta fyrir landsbyggðina og það sé vel hægt að tryggja ákveðna grunnþjónustu. Hv. þm. spurði, og hlakkaði í honum, hvort ég héldi að menn mundu bíða í biðröðum, þ.e. þjónustufyrirtæki á fjarskiptasviðinu, til að veita Vestfirðingum þjónustu. Ég geri ráð fyrir því, já. Ég geri ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtækin muni nýta þá möguleika sem þau hafa til að flytja þjónustu sína eftir grunnnetinu með þeim aðgangi sem lögin heimila og sinni íbúum Vestfjarða ekkert síður en öðrum á landinu, alveg eins og gerist þar sem samkeppnin er, eins og gerst hefur t.d. á sviði GSM-símans og núna síðast talsímaþjónustunnar með samkeppni frá Íslandssíma.