Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:31:42 (7162)

2001-05-02 16:31:42# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessum tveimur frv. sem hér eru lögð fram. Ég lýsi yfir mikilli ánægju minni með þá vinnu sem hæstv. samgrh. hefur lagt í þau. Mér finnst sú gagnrýni minni hlutans að málið hafi ekki verið vel unnið bæði óskýr og úr takti við raunveruleikann.

Undirbúningur fyrir þetta mál hefur verið mjög langur. Ég minni á ferð þingmanna með samgn. fyrir fimm árum til Norðurlanda að frumkvæði þáv. samgrh. Halldórs Blöndals þar sem skoðuð voru símafyrirtæki, bæði í Danmörku og í Noregi. Sú ferð var fyrst og fremst farin til að við gætum lært af því hvernig aðrar þjóðir hefðu skipt upp þessum fyrirtækjum og gert að hlutafélögum, eins og þáv. samgrh. Halldór Blöndal stefndi að að gera hér á landi.

Erlendis hefur þróunin á þessu sviði verið mun hraðari en hér. Í Danmörku og í Noregi, sérstaklega í Noregi, fóru menn fljótlegri leiðir og buðu fyrirtækin út á mörkuðum, t.d. í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim sem við töluðum við úti í Danmörku reyndist það mjög vel og verðið sem fékkst var gríðarlegt.

Kostir þess að við bjóðum þetta út finnast mér nokkuð augljósir. Það losnar t.d. heilmikið fé við að selja þetta fyrirtæki sem nýta má til uppbyggingar og niðurgreiðslu skulda sem að sjálfsögðu er markmið með sölu fyrirtækja í eigu ríkisins.

Í öðru lagi losnar fyrirtækið náttúrlega úr viðjum ríkisforsjár sem eru því augljóslega til trafala. Í umræðum um þetta mál hafa margoft komið fram þau sjónarmið að til að ná verulega góðum tökum á nútímarekstri þurfi frjálsræði þar sem fjölþætt eignaraðild er grunneiningin. Ég tel því mjög eðlilegt að við förum sömu leið og reynum að nýta okkur þá reynslu sem erlendis hefur fengist í þessum málum.

Erlendis hefur vöxtur og viðgangur þessara fyrirtækja verið mikill. Við að hlutafjárvæða og selja aðgang að þeim hafa skapast möguleikar sem ríkisfyrirtæki höfðu ekki, þ.e. að tengjast öðrum fyrirtækjum í öðrum löndum. Eins hefur þróunin verið hraðari en ella hefði orðið.

Ég álít, herra forseti, að með þessari breytingu muni þjónusta við neytendur batna og þeir muni sjá það fljótlega, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í frv. að þjónustan aukist samfara breytingunni. Við sjáum það t.d. í athugasemd við 2. gr. frv. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssímanum. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til að tryggja að markmiðum stjórnvalda um aðgang allra landsmanna að nútímafjarskiptaþjónustu verði náð hefur samgönguráðherra gert samkomulag við Landssíma Íslands hf. um að Landssímanum verði gert skylt að veita tiltekna fjarskiptaþjónustu umfram það sem mælt er fyrir um í fjarskiptalögum, reglugerð um alþjónustu og rekstrarleyfi Landssímans. Í samkomulaginu skuldbindur Landssíminn sig til að byggja upp ATM-þjónustu og ADSL-gagnaflutningsþjónustu á talsímanetinu umfram það sem heimilt er að krefjast af fyrirtækinu samkvæmt gildandi lögum.``

Hér segir svo, með leyfi forseta, til viðbótar:

,,Verð skal vera það sama um allt land fyrir tengingu innan sama svæðis.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt samkomulaginu áformar Landssími Íslands einnig að uppbygging á svonefndri ADSL-þjónustu í öllum stærri þéttbýliskjörnum muni fara fram á næstu tveimur árum nái framangreind þjónusta, eða önnur jafngild þjónusta, til 75--80% þjóðarinnar.``

Til þess að menn átti sig á því hver munurinn er á ISDN- og ADSL-þjónustu þá er hraðinn á gagnaflutningum nærri 10 þúsund sinnum meiri með svokallaðri ADSL-þjónustu en í ISDN-tengingu, sem flestallir þingmenn keyptu sér fyrir um tveimur árum. Ég held að menn geti út frá því áttað sig á því hve örar breytingarnar eru. Þessa þjónustu á að veita um allt land. Hana á að tryggja með ákveðnum hætti og að sjálfsögðu hlýtur það að koma landsbyggðinni jafnmikið að gagni og þéttbýlinu eins og gert er ráð fyrir í frv.

Ég held, herra forseti, að menn geti eytt öllum efasemdum um að grunnnetið hefði þurft að fylgja með þessari sölu. Eina leiðin til þess að tryggja þjónustuna er að þetta sé á sömu hendi. Ég hef aldrei áttað mig á gagnrýni minni hlutans á Alþingi á þessa sölu, þ.e. á þeirri forsendu að ef grunnnetið fylgi fyrirtækinu þá sé síður tryggt að landsbyggðin fái eðlilega þjónustu. Ég hef í raun aldrei fengið neina skýringu á því hvers vegna þetta á að vera svo hættulegt ... (Gripið fram í.) Ég hef oft heyrt þær ræður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég hef líka sagt það í þessum ræðustól að það að skilja grunnnetið eftir og selja Símann án þess væri eins og að selja vélarlausan bíl. (Gripið fram í: Eru hinir allir vélarlausir?)

Ég held að þegar menn eru að hugsa um að selja alvörufyrirtæki, eins og Síminn er, þá geti þeir ekki gert ráð fyrir því að sú sala skili nokkru, ætli þeir að brytja fyrirtækið niður og selja í pörtum en ætlast samt sem áður til þess að þjónustan sé sú sama og áður. Það er nánast útilokað. Eftir því sem sundurgreiningin verður meiri þeim mun erfiðara verður að skikka aðila til þess að halda uppi þjónustu.

Með þessari sölu, herra forseti, er tryggð ákveðin dreifing eignaraðildar en að samt séu nokkuð sterkir grunnaðilar. Segja má að með því að tryggja starfsmönnum ákveðna aðild verði starfsmenn tryggari með sinn hlut, þ.e. með beinni aðild að rekstri fyrirtækisins. Eftirlitið með fyrirtækinu er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar og annarra eftirlitsaðila samkvæmt lögum. Ég held að það sé full ástæða til að treysta því að eftirlitið verði tryggt. Eins og ég las upp áðan þá er tryggt með þessu frv., ef að lögum verður, að landið allt muni njóta þjónustunnar. Að mínu áliti munum við um leið tryggja og bæta þjónustu við landsbyggðina en ekki öfugt.

Ég verð því að lýsa yfir furðu minni á þeirri gagnrýni, sérstaklega frá vinstri grænum sem hafa, að mér finnst, látið vaðið á súðum og haldið því fram, að verið sé að draga úr styrk landsbyggðarinnar og þjónustu við hana með frv. Þar er talað þvert á staðreyndir. Ég veit ekki af hverju vinstri grænir hafa komist upp með slíkan málflutning og ég tel alveg tímabært að fara að reyna að leiðrétta slíkar rangfærslur.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta mikið lengra mál. Ég álít að fyrir ríkissjóð og þjóðina sé þetta mjög mikilvægt mál. Ég tel að það komi til með að styrkja krónuna þegar þessi sala hefur náð fram að ganga. Ég tel að fyrirtækið styrkist einnig við að fá til samstarfs við sig erlenda eignaraðila. Ég lít svo á að það sé mjög mikilvægt. Við erum um leið að skapa ný fjárfestingartækifæri bæði fyrir Íslendinga og aðra sem eru mjög mikilvæg. Við sem fylgjumst með hlutabréfamarkaðnum á Íslandi sjáum að hann er vægast sagt mjög veikur í dag. Það er áhyggjuefni og tækifærið til að koma nýju lífi í þann markað með slíku útboði er að sjálfsögðu kærkomið.

Ég vona að útboðið njóti trausts. Ég held að fyrirtækið hafi sem slíkt sýnt að það er mjög vel uppbyggt. Það er kannski það eina sem mér fannst rétt í ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar áðan. Fyrirtækið er traust, gott og mjög söluhæft. Það er að sjálfsögðu ástæðan fyrir því að til stendur að setja þetta fyrirtæki á markað. Það er mjög söluhæft. Þess vegna á það að geta gengið á erlendum mörkuðum sem innlendum.

Ég get tekið undir það að þessi sala hefði gjarnan mátt vera fyrr á ferðinni. Það náðist ekki en auðvitað er heilmikið til í því hjá hæstv. ráðherra að það hefði verið leiðinlegt, ef fyrirtækið hefði verið selt þegar verð á hlutabréfum voru í skýjunum, ef svo má að orði komast, að standa frammi fyrir því að menn hefðu keypt fyrirtæki sem hefði fallið mikið í verði. Ég er samt ekki viss um að það hefði gerst með Símann, að hann hefði lækkað svo mjög í verði. (Gripið fram í.) Ég hef ekki hugmynd um hlutafélagaskrána í Thermo Plus, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég tel því ekki saman að jafna enda lít ég svo á að Síminn sé eitt traustasta fyrirtæki sem Íslendingar eiga. Ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson er að jafna því við Thermo Plus þá veit ég ekki hvar hv. þm. er í umræðunni. Ég held að hv. þm. sé í rauninni ekki hér á landi ef hann er farinn að jafna þessu tvennu saman. Ef þetta er eitthvert grín þá getur hv. þm. leiðrétt það hér á eftir en mér finnst þetta mjög ábyrgðarlaust.

Ég vil að endingu lýsa yfir miklum áhuga mínum á því að þetta mál nái fram að ganga og vonast til að það gerist sem fyrst.