Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 18:39:41 (7198)

2001-05-02 18:39:41# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í beinu framhaldi af ræðu þess hv. þm. sem talaði á undan mér og orðaði það svo að hann teldi að ríkið ætti ekki að vera að vasast í samkeppnisrekstri þá held ég að við í Samfylkingunni og hv. þm. séum nokkurn veginn sammála um það enda erum við þá að tala um rekstur sem hægt er að hafa af hagnað. Við erum ekki að tala um rekstur eins og í heilbrigðisþjónustunni þar sem á ákveðnum sviðum er komin á samkeppni en hún er öll undir því fororði að ríkið borgar. Þar erum við að tala um aðra hluti. Ef við erum að tala um fyrirtæki sem hægt er að hafa af hagnað, þá erum við sammála því að hlutverk ríkisins hlýtur að vera annað.

Það er nákvæmlega eftir þessum brautum, herra forseti, sem Samfylkingin hefur hugsað sig inn í þá niðurstöðu sem hún kynnir hér sem skoðun sína, þ.e. að það sé eðlilegt og við styðjum það að þeir hlutar Landssímans sem eru í samkeppni séu seldir. Kannski hefði, herra forseti, átt að selja þá fyrir löngu. Kannski hefði verið eðlilegt að komast hjá þeim núningi sem hefur verið á milli Landssímans annars vegar og hins vegar þeirra fyrirtækja sem hafa verið að reyna að hasla sér völl hér á markaðnum ef Landssíminn hefði haft sömu heimildir til að selja frá sér samkeppnisrekstur, eins og hann virðist hafa haft til að ríkisvæða allan þann fjölda fyrirtækja sem Síminn hefur verið að kaupa eða kaupa hlut í á undanförnum árum.

Það liggur þá væntanlega nokkuð skýrt fyrir hver skoðun okkar er. Hún hefur verið margskýrð í dag. En að sama skapi liggur ljóst fyrir að við teljum ekki að það eigi að selja þá hluta fyrirtækisins sem eru ekki í samkeppni og þar með vil ég nefna grunnnetið.

Hv. þm. Magnús Stefánsson, sem hefur verið nokkuð í andsvörum í dag og er kannski einhvers staðar í húsinu, stjórnarmaður í Landssímanum hf., hefur kallað mjög eftir skilgreiningu á því hvað grunnnetið væri. Hv. þm. hefur væntanlega sjálfur, af því að hann gegnir þessum mörgu hlutverkum og hefur auk þess sem framsóknarmaður væntanlega átt aðild að mótun þeirrar stefnu Framsfl. sem var að skilja bæri grunnnetið frá og selja sérstaklega eða hafa í öðru félagi, haft þessa skilgreiningu nokkuð á hraðbergi og hefur væntanlega vitað að slíka skilgreiningu er að finna í skýrslu einkavæðingarnefndar.

Í því plaggi sem menn hafa lagt til grundvallar í umræðunni, sem er þá ekki bara frv. sem er eins og menn vita einungis þrjár greinar og greinargerðin ekki sérlega ítarleg, heldur er bókin að uppistöðu til skýrsla einkavæðingarnefndar. Þar hefur þessi skilgreining auðvitað legið fyrir.

Ég hef reyndar lesið aðrar skilgreiningar, eftir aðra aðila, á því hvað grunnnetið sé, m.a. þá skilgreiningu að grunnnetið væri sá hluti netkerfis Landssímans sem byggður hefur verið upp á undanförnum áratugum samkvæmt hefðbundnum aðferðum og ætlað sem flutningskerfi annarra þjónustukerfa. Þá hefur verið talað um ljósleiðarahringinn kringum Ísland, SDH-fjölrásakerfið sem tengist ljósleiðaranum í símstöðvarhúsum og koparheimtaugakerfið, þ.e. þetta kerfi sem myndar leigulínukerfið sem 19. gr. fjarskiptalaganna fjallar um.

Mér finnst það hins vegar ekki vera stórmál nákvæmlega á þessari stundu hvernig menn skilgreina. Skilgreiningin liggur nokkurn veginn fyrir. Það getur líka, sem menn átta sig ekki á núna, verið samkomulagsatriði. Það sem er númer eitt, herra forseti, er að menn taki ákvörðun um að samkeppnisvæða þetta umhverfi. Að samkeppnisvæða fjarskiptaumhverfið á Íslandi.

Í fjarskiptalögum segir að það sé höfuðmarkmið þeirra laga að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Það hefur líka komið fram að eitt af markmiðum einkavæðingar sé að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu. Þess vegna, herra forseti, er dálítið sérkennilegt að þegar menn ráðast í að selja Landssímann skuli menn gera það með þeim hætti að vilja viðhalda markaðsráðandi stöðu þess fyrirtækis á fjarskiptamarkaði hér. Markmiðið er sem sagt ekki lengur að auka samkeppni heldur að viðhalda markaðsráðandi stöðu. Í ljósi þess hve mikilvægt það er að hér sé samkeppni á fjarskiptamarkaði og í ljósi þess hve menn treysta mjög á hana sem lausn í flestum þeim vanda og svar við flestum þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram þá er þetta sýnu merkilegra. Menn tala nefnilega eins og það sé samkeppni á fjarskiptamarkaði um allt land. Svo er ekki og það vita menn um leið og þeir fara aðeins að hugsa út í þessi mál.

[18:45]

Um tíma héldu menn því fram að af tæknilegum ástæðum væri ekki hægt að skilja grunnnetið frá öðrum rekstri Landssímans. Það er komið í ljós og lá kannski alltaf fyrir gagnvart þeim sem betur eða meira vissu að sú var aldrei raunin, enda kemur fram á bls. 84 í skýrslu einkavæðingarnefndar að skoðun nefndarinnar sé sú að ekki sé nauðsynlegt að skilja grunnnetið frá öðrum rekstri áður en til sölu kemur. Rökin sem þar eru færð fram eru að félag í eigu ríkisins, sem hefði það hlutverk að sjá um rekstur grunnnetsins, hefði ekki nægan hvata til tæknilegrar uppbyggingar og þróunar til að geta sinnt hlutverki sínu.

Þetta er svolítið sérkennilegt, herra forseti, vegna þess að væntanlega yrði slíkt fyrirtæki fyrir miklum þrýstingi frá þeim fyrirtækjum sem þurfa að nýta sér grunnnetið. Spurningin er hvort reginmunur yrði á grunnnetinu ef það þróaðist í sérstöku fyrirtæki, öðru en Landssímanum hf. Ég hef ekki látið sannfærast um að svo sé enda hafa fáir reynt að réttlæta það.

Það kemur jafnframt fram að fyrirtæki sem þetta gæti orðið baggi á ríkissjóði. Það yrði væntanlega baggi á ríkissjóði vegna þess að uppi yrðu kröfur um að þetta fyrirtæki veitti góða þjónustu og fylgdist með tækninni. En miðað við þau fyrirheit sem fyrir liggja í samkomulagi Símans og stjórnvalda, þ.e. samgrh., til fimm ára um ákveðna verðstöðvun á tiltekinni tækni eftir að ATM-tækni hefur verið komið á og menn geta farið að nýta sér ADSL-tengingar --- þetta á allt að vera orðið svo ljómandi gott á næstu tveimur árum --- þá sýnist mér að menn ætli ekki bara að gefa afslátt af raunverulegum kostnaði --- þvert á það sem okkur hefur ítrekað verið sagt að mætti ekki --- heldur sýnist mér að í fyrirheitum sem hér liggja fyrir um hvernig hinum dreifðari byggðum landsins verði þjónað þá séu menn alltaf að tala um ríkisstyrki af einhverju tagi. Menn eru alltaf að tala um að með einhverjum hætti þurfi að setja skattfé í þessa þjónustu til að hér geti verið sá jöfnuður og sú tæknilega uppbygging sem kallað verði eftir.

Ég held því, herra forseti, að munurinn felist ekki í þessu. Mér sýnist að það sem hér skiptir máli sé sú niðurstaða einkavæðingarnefndar sem fram kemur á bls. 84 og nú vitna ég beint:

,,Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að slíkt sé ekki hagkvæmt enda kynni þess háttar fyrirkomulag að hafa áhrif á heildarverðmæti fyrirtækisins ...``

Þar erum við náttúrlega komin að kjarna málsins. Þetta snýst ekki um að samkeppnisvæða. Landssíminn á áfram að vera markaðsráðandi fyrirtæki. Á þeim forsendum að það að skipta fyrirtækinu upp kynni að hafa áhrif á heildarverðmæti þess þá fórna menn samkeppnismarkmiðunum.

Svo maður haldi áfram að rekja þennan þráð, t.d. út frá því sem hæstv. ráðherra sagði hér í dag, þá stangast þetta einnig á við það sem hann sagði, þ.e. að ríkissjóður gæti ekki staðið í spákaupmennsku. Hann átti þar við athugasemdir þingmanna um að heppilegra hefði verið að selja fyrirtækið á öðrum tímum en núna miðað við það sem menn telja sig geta fengið fyrir það. Samt sem áður þykjast menn hafa komist að þessari niðurstöðu, að þess háttar fyrirkomulag kynni að hafa áhrif á heildarverðmæti fyrirtækisins. Það er ljóst að þar ræður mögulegt verð og umhyggja fyrir stöðu Landssímans í samkeppni við önnur fyrirtæki en ekki samkeppnisforsendur á fjarskiptamarkaði.

Fleira gerir það að verkum að maður trúir því ekki alveg að hæstv. ráðherra sé fjarri þeirri hugsun að velta fyrir sér verðinu og sé í obbolítilli spákaupmennsku, t.d. sú ákvörðun hans að birta þá niðurstöðu sína að fara ekki í uppboð á leyfum til þriðju kynslóðar farsíma. Það kemur fram að sú ákvörðun er talin hafa áhrif á verðmæti fyrirtækisins. Það er að sönnu rétt að slík ákvörðun getur haft áhrif á verðmæti fyrirtækisins. Ef ráðherrann ætlar að afhenda leyfin við einhverju verði sem ekki er markaðsverð þá má reikna með að það endurspeglist í verði fyrirtækisins. Væntanlega gæti þá ríkið tekið virði þriðju kynslóðar leyfisins inn í gegnum kaupverðið eða bara látið það eiga sig að innheimta nokkuð fyrir það. Mér heyrist líka að rökin fyrir því séu að ef menn borgi sannvirði fyrir leyfið þá hljóti það að koma niður á þjónustu, sem er reyndar ekki niðurstaða ýmissa þeirra sem hafa skoðað þessi mál sem segja að það komi niður á hagnaði hlutabréfaeigendanna. En ekki ætla ég að taka það mál upp hér, vegna þess að það er sérstakt mál og það tæki of langan tíma.

Herra forseti. Mér hefur fundist að mest ástæða væri til þess í þessari umræðu að ræða um mikilvægi þess að hafa samkeppni á þessum markaði. Það er alveg ljóst að það er ákveðin hætta á að Landssíminn, hið stóra markaðsráðandi fyrirtæki sem hefur haft heila öld til að koma sér fyrir á markaðnum, mun ekki njóta þess trausts sem þarf til að önnur fyrirtæki finni sig í þeirri samkeppni sem við viljum sjá.

Við vitum af þeim núningi sem verið hefur á milli Landssímans og annarra fyrirtækja á samkeppnismarkaði þar sem hið stóra markaðsráðandi fyrirtæki hefur beitt sér. Við vitum líka að menn gera sér grein fyrir þessari samkeppnishættu. Mikið af því sem fjallað er um í skýrslu einkavæðingarnefndar og fram kemur hér í máli stjórnarliða snýst um að reyna að afsanna það sem sagt er um þessa hættu, reyna að útskýra og greina hvernig hægt sé að minnka hana og þá vantrú eða tortryggni sem óhjákvæmilega ríkir gagnvart því að stóra fyrirtækið sé það fyrirtæki sem rekur grunnnetið og þarf að veita öðrum aðgang.

Það kemur fram að innan Símans er verið að setja upp múra, m.a. með því að starfsmenn undirriti trúnaðaryfirlýsingu í deildum sem hafa aðgang að uppgjörs- og umferðarupplýsingum um keppinauta, eða kaup þeirra á stofnlínukerfum. Menn eru alveg meðvitaðir um þetta. Þeir ætla samt að viðhalda hinni markaðsráðandi stöðu. Það er ansi hætt við því, herra forseti, að þarna séu menn að koma á fyrirkomulagi sem viðhaldi þeirri tortryggni að Síminn sinni sjálfum sér betur en öðrum fyrirtækjum, tortryggni sem skapast af því að eitt fyrirtæki hafi upplýsingar um hvað önnur eru að hugsa, jafnvel þó menn undirriti trúnaðaryfirlýsingar. Tortryggnin er til staðar og, herra forseti, þetta er samkeppnishamlandi.

Á borð okkar þingmanna var í dag dreift frv. til raforkulaga, mikilli bók sem lýtur að því að umbreyta gjörsamlega öllu því umhverfi sem raforkufyrirtækin í landinu hafa búið við. Hún gjörbreytir því umhverfi svo gjörsamlega að menn tala um að það verði allt önnur veröld. Hluti af því, herra forseti, er samkeppni sem á að innleiða á þann markað. Til þess að sú samkeppni geti verið sannfærandi þá telja menn nauðsynlegt að flutningskerfið sé sjálfstæður lög- og skattaðili og megi ekki stunda aðra starfsemi en nauðsynleg er til að það geti rækt skyldur sínar samkvæmt þessum lögum. Þetta segir í 8. gr. Til frekari skýringar, herra forseti, segir í 8. gr.:

,,Þess er krafist að flutningsfyrirtækið gæti fyllsta hlutleysis og jafnræðis við starfsemi sína. Í því ljósi er gerð krafa um að viðkomandi aðili stundi enga aðra starfsemi en nauðsynleg er til að hann geti sinnt hlutverki sínu.``

Og hvert er hlutverkið? Jú, hlutverkið er að sjá um dreifingu orkunnar. Ekki að afla orkunnar, ekki að vinna orkuna og ekki að selja hana í smásölu, heldur bara dreifa.

Herra forseti. Ég held að það sé varla hægt að lýsa betur tillögum Samfylkingarinnar í þessu máli en gert er í 8. gr. frv. til raforkulaga. Það er merkilegt að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarþingmenn sem hafa talað hér í dag skuli á sama tíma og þeir samþykkja að leggja þetta frv. fyrir Alþingi, þar sem svo skýrt er hvernig menn sjá forsendur samkeppninnar fyrir sér, en mæla því bót í leiðinni að markaðsráðandi fyrirtæki, Landssíminn hf., verði selt með dreifikerfinu. Þar gildir öðru máli og þar þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af samkeppninni.

Ég hef hlustað á ræður sem hér hafa verið haldnar um það hversu mikilvæg fjarskiptalögin og þau úrræði sem Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun eiga að hafa til að sjá til þess að jafnræðis sé gætt á markaðnum. En, herra forseti, það mun ekki nægja, vegna þess að eins og ég sagði áðan ríkir ákveðin tortryggni sem mun ekki breytast þó svo menn bendi á þau úrræði sem Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun hafa.

Ljóst er að fyrirtækin á markaðnum hafa ekki alltaf verið sátt við framgöngu Landssímans hf. Það hefur líka komið fram að Félag íslenskra netverja, sem stundum hefur haft áhrif til til lækkunar á verði og breytinga varðandi gjald á geisladiska nýverið eins og menn muna, leggst gegn sölu grunnnetsins með Landssímanum. Það kemur fram í ályktun þessara aðila frá því í febrúar sl. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna í þessa ályktun:

,,Þar sem til stendur að selja Landssíma Íslands vill Félag netverja koma á framfæri áhyggjum og efasemdum vegna hugmynda um sölu grunnnetsins sem hluta af Landssímanum.

Hugmyndin ber vott um skilningsleysi á hagsmunum allra aðila sem málið varðar. Þær tillögur sem fram hafa komið geta því tæpast orðið niðurstaða þessa máls.``

Síðar segir:

,,Við viljum ekki sérstaka, afmarkaða fyrirgreiðslu, heldur viðskiptaumhverfi sem gefur möguleika á sem mestri grósku á þessu sviði.``

Herra forseti. Það kemur fram í þessari ályktun að þessi hópur fólks, fólks sem hefur verið hvað virkast við að þróa nýjar hugmyndir og innleiða, hefur ekki síður áhyggjur af stöðu Landssímans en annarra fyrirtækja ef af þessari niðurstöðu yrði.