Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:37:52 (7412)

2001-05-10 18:37:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Ég mun koma inn á nokkur atriði varðandi þetta lagafrv. og þá lagaumgjörð sem þessum peningamálum er búin.

Í fyrsta lagi langar mig að fá upplýsingar. Ég fagna því að hæstv. viðskrh. er hér til staðar og getur veitt mér upplýsingar um þær reglur sem gilda hjá bankastofnunum eins og þeim sem við fjöllum hér um, Búnaðarbanka, Landsbanka og slíkar bankastofnanir, um hvernig þær megi fjárfesta, eiga hlut í öðrum fyrirtækjum, fjárfesta í áhætturekstri og öðrum fyrirtækjum en sjálfum sér.

Síðan vildi ég, herra forseti, ef hæstv. viðskrh. gæti líka frætt mig um það, fá upplýsingar um hvort til séu reglur sem banni fyrirtækjum í samkeppnisrekstri að kaupa hlut í banka.

Í þriðja lagi, herra forseti. Ef fyrirtæki má eiga hlut í banka og banki má eiga hlut í fyrirtæki, eru þá til reglur sem takmarka eða banna að banki eigi viðskipti við eða sé þjónustustofnun fyrirtækis sem á hlut í bankanum?

Ég spyr vegna þess að mig langar til að fá vitneskju um þetta og hvernig þetta er í öðrum löndum. Eftir því sem ég veit best ríkja í Bandaríkjunum afar ströng lög hvað þetta varðar. Þar er skýrt kveðið á um, að ég held og hæstv. viðskrh. getur þá leiðrétt mig fari ég villur vegar, að bankastofnanir megi ekki fjárfesta í öðrum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki eiga hlut í banka þá mega þau ekki eiga innbyrðis viðskipti.

Ég tel afar mikilvægt að við höfum á hreinu viðskiptaumhverfi bankanna. Ég minnist umræðu í fréttum frá því fyrir ári eða einu og hálfu ári, umræðu frá Þýskalandi um að bankar hefðu hömlulaust leyfi til að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum, fjárfesta í áhættufyrirtækjum og jafnframt standa í viðskiptum við þau. Viðkomandi fyrirtæki gat svo fjárfest í bankanum eða öðru fyrirtæki bankans og þau fyrirtæki aftur fjárfest í banka og fyrirtæki. Þar var sem sagt hægt að búa til endalausa keðju, endalausa fléttu þar sem hver átti hlut í öðrum. Í þessari umfjöllun er einmitt rakið að þessi flétta, þessir möguleikar á slíkum viðskiptaháttum í Þýskalandi, stæði í veginum fyrir framförum og eðlilegum hagvexti, stæði í vegi fyrir því að atvinnulífið gæti þróast eðlilega. Allt var orðið svo samtvinnað. Þess vegna var reynt að finna leiðir til að bankarnir kæmust úr slíkum rekstri og gætu helgað sig bankastarfseminni einni.

Ég tel, herra forseti, afar mikilvægt að fá upplýsingar um hvaða umhverfi bönkunum verður búið hér á landi. Ég leyni ekki þeirri skoðun minni að bankar séu mikilvægar þjónustustofnanir fyrir atvinnulífið, fyrir fyrirtækin, fyrir einstaklinga. Ég tel mikilvægt að peningastofnanir sem slíkar taki ákvarðanir algjörlega hlutlaust og þurfi ekki að taka það tillit viðskiptalegra hagsmuna eða tengsla við önnur fyrirtæki í annarri starfsemi. Ég tel að þess vegna eigi bankar að halda sig eingöngu við sína starfsemi og þeim eigi að vera óheimilt að fjárfesta í áhættufyrirtækjum. Jafnframt væri þeim óheimilt að vera þjónustubanki fyrir fyrirtæki sem þeir eru í eignarlegum tengslum við. Þetta vil ég fá á hreint, herra forseti, því ég tel þetta afar mikilvægt.

[18:45]

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um hlutverk bankastofnana, hlutverk peningastofnana. Og hér hefur verið rætt og um það verið skiptar skoðanir hvort bankar séu fyrirtæki sem eigi aðeins að hugsa um arð til eigenda sinna eða hvort þeir eigi jafnframt að vera þjónustustofnanir sem eiga að stuðla að samkeppnishæfu umhverfi í kringum sig, eiga að veita þjónustu til að aðrar greinar atvinnulífs og einstaklingar geti búið við samkeppnishæft umhverfi. Um þetta er deilt. Um þetta eru skiptar skoðanir, þeirra sem vilja líta á þetta frá félagslegu sjónarmiði og hinna sem vilja líta á þetta eingöngu út frá sjónarmiði arðsemi fjárins og arðsemi peninganna eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ítarlega gert grein fyrir í dag.

Í þessu ljósi er afar fróðlegt að kíkja aðeins í orð ýmissa hv. þingmanna sem hafa einmitt verið að leggja áherslu á að það væri svo mikilvægt að ná fjármagni með sölu ríkisbankanna til þess að byggja upp nýja lánastofnun sem gæti þjónað fólkinu úti á landi.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna í viðtal við hæstv. viðskrh. í Morgunblaðinu 14. mars árið 2001. Eðlilega hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af stöðu byggðamála, eðlilega. Það hefur nú ekki gengið svo björgulega og hún er jú ráðherra byggðamála. Þar hefur ekkert gengið og heldur á aftur á bak. Eðlilega hefur hún áhyggjur af því. Því er ósköp eðlilegt að hæstv. ráðherra segi í þessu viðtali, með leyfi forseta:

,,Valgerður Sverrisdóttir segir að auka þurfi fjárveitingar til byggðamála og uppbyggingar atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og til greina komi að nýta hluta af söluhagnaði ríkisins vegna sölu á hlutafé ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbankanum í þessum efnum.

Valgerður lét þessi orð falla við umræðu um sölu á hlutafé ríkisins í bönkunum tveimur á Alþingi í gær. Segist hún ekki hafa mótað þessar hugmyndir en ljóst sé að auka þurfi fjármagn til byggðamála og þar með talin sé Byggðastofnun. Hún bendir á að jafnframt hafi verið nefnt að stórauka þurfi lánaþátt Byggðastofnunar, en það sé annað mál.``

,,Að stórauka þurfi lánaþátt Byggðastofnunar.`` Hvað þýðir þetta? Jú, Búnaðarbankinn og Landsbankinn eða bankarnir sem byggðir hafa verið upp til að þjónusta landið vítt og breitt, atvinnulífið vítt og breitt í landinu, hafa kannski ekki gert það neitt vel, en þeim er algjörlega vantreyst til þess að gera það áfram. Þess vegna þarf að stofna nýjan banka sem á að þjóna landsbyggðini. Og hann á að heita Byggðabankinn eða eitthvað þess háttar eins og orð virðast vilja lúta að. (HBl: Eða Hólabanki?) Já, eða Hólabanki. Og þá væri hann alvörubanki eins og var hér áður fyrr því Hólastóll var jú banki allra landsmanna, a.m.k. Norðlendinga þar sem stór hluti þjóðarinnar bjó á þeim tíma. Biskupsstólarnir gegndu þá einmitt bankahlutverki. Þangað var safnað auði. Þangað var safnað mat í harðærum sem síðan var deilt út.

Herra forseti. Ég mátti til með að koma þessu að eftir gott inngrip hæstv. forseta, hv. þm. Halldórs Blöndals.

En skýtur þetta ekki skökku við í þessari umræðu, þ.e. að alltaf þegar á að einkavæða fyrirtæki þá þurfi að gera eitthvað annað til þess að bjarga þjónustunni sem það var ábyrgt fyrir?

Ég vil líka, herra forseti, vitna í viðtal við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem jafnframt er stjórnarformaður Byggðastofnunar, um sama efni. Þar er hann sömu skoðunar og hæstv. ráðherrann, að lánsfé og lánsmöguleika skorti úti um landsbyggðina og lætur hann að því liggja að bankarnir hafi ekki staðið sig vel og þeim sé alls ekki treystandi til þess að sinna þessu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkeppni í útlánum á bankamarkaði er lítil úti á landi en mikil á höfuðborgarsvæðinu, segir Kristinn og þetta eykur þrýstinginn á Byggðastofnun.``

Og áfram, með leyfi forseta:

,,Kristinn vill auka getu Byggðastofnunar til að lána. Meðal annars verði stofnunin látin njóta þess þegar ríkisbankarnir verða seldir.``

Svo er, með leyfi forseta, vitnað í beint hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, stjórnarformann Byggðastofnunar:

,,Ég tel að það eigi að hugleiða það að hluti af söluandvirði bankanna renni inn í Byggðastofnun sem höfuðstóll, sem verði bakhjarl fyrir lánveitingar.``

Hvað er verið að gera þarna annað en að búa til nýjan banka, búa til nýjan banka sem á að þjóna því hlutverki sem við ætluðumst til að þessir bankar gerðu, Búnaðarbankinn og Landsbankinn? Og hafi þeir ekki gert það sómasamlega hingað til þá væri fyllilega ástæða fyrir meiri hluta eigenda bankans á hluthafafundi að ræða það, þ.e. hafi þeir ekki staðið sig í þeirri þjónustu sem af þeim var vænst. Og svo á að búa til nýjan banka, Byggðastofnun, Byggðabankann. (HBl: Hann er nú kominn í Skagafjörðinn.)

Já. Hv. þm. Halldór Blöndal grípur mjög skemmtilega fram í. En hvenær megum við Skagfirðingar þá eiga von á því eða óttast það að þessi nýi banki sem þeir ætla að byggja upp --- ég mundi taka heils hugar undir það eða vilja skoða það, þegar út í slíka vitleysu er komið, að selja bankana, að taka þá á móti fénu og setja það í banka í Skagafirði. Það væri kannski smárétting á kúrsnum í þeirri vitleysu sem á ferðinni er. En hvenær ættum við þá á hættu að sá banki yrði bara seldur frá okkur? (HBl: Það er búið að leggja niður fjárhúsin á Hólum og einhvers staðar verður féð að vera.)

Já, það er hörmulegt og það er líka búið að leggja þar niður stöðu fjárhirðisins sem var ríkisfjárhirðir á Hólum og það segir einkum sögu þess hvernig einmitt er staðið að góðri og traustri starfsemi úti á landi og ég óttast að það sama muni gerast með Byggðastofnunina og Byggðastofnunarbankann. Gert var ráð fyrir því þegar hann fluttist til Sauðárkróks og því hafði verið lýst yfir að hið fyrsta sem þessi nýi banki, væntanlegi banki mundi gera, væri að kaupa sér húsnæði, festa sig í sessi, eignast hús. En hvað gerist? Nei, þegar til kastanna kom átti þessi nýi væntanlegi banki, sem á að byggjast upp á fé úr þessum bönkum, að fara í leiguhúsnæði því framtíðin var svo ótrygg. Skýringin getur ekki verið önnur.

Herra forseti. Við höfum banka sem eru með þjónustustofnanir vítt og breitt um landið þar sem mikil staðbundin þekking er á atvinnulífi, á menningarlífi, þjóðlífi og þær eru hluti af því samfélagi þar sem þær eru staðsettar. En samt kemur stjórnarformaður Byggðastofnunar fram og óttast að með sölu bankanna muni þessi þjónusta ekki batna, hún muni ekki styrkjast og því sé nauðsynlegt að taka þetta fé og leggja það í nýjan banka sem hafi þetta hlutverk sem við héldum að þessum bönkum væri ætlað. Við trúðum því meira að segja að sparisjóðunum sé líka ætlað þetta hlutverk. En í frv. sem verður rætt hér síðar í kvöld er einmitt verið að gera tillögu um að svo geti farið að þeir hafi ekki heldur það hlutverk.

Herra forseti. Ég tel því að við séum hér á kolrangri braut. Við tökum alltaf einn bút í efnahagslífi þjóðarinnar og veltum honum upp í staðinn fyrir að horfa á hagsmunina heildstætt. Við eigum að horfa á hagsmunina heildstætt en ekki með svona bútasaumi og verða síðan alltaf að koma eftir á og reyna að bæta úr þar sem miður hefur farið.

Herra forseti. Það er þessi þjónustukvöð, þessi þjónustukrafa, þessi tilgangur með að reka banka og bankaþjónustu sem ég vil hér ítreka sjónarmið mín á. Þetta eru þjónustustofnanir sem eiga að stunda þjónustu og skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir fyrirtæki, fyrir stofnanir og fyrir einstaklinga hvar sem er á landinu, en eiga ekki alfarið að vera til þess að skaffa einungis eigendum sínum arð fyrir það fjármagn sem þeir hafa lagt í þær eða með einhverjum hætti komist yfir og þessi skammtímagróðasjónarmið þar sem hver hugsar í sínum ævitíma eiga væntanlega ekki að vera hin eina driffjöður.

Herra forseti. Ég ítreka það hér að dapurlegt er til þess að vita ef við erum segja það hér að við þurfum að selja bankana okkar, bankana sem hafa byggt upp þjónustu, byggt upp útibú víðs vegar um landið, og leggja síðan andvirðið í nýjan banka til að taka upp þá þjónustu sem þessir bankar skilja þá eftir, fylla upp í þau skörð sem þessir bankar munu skilja eftir sig í þjónustu við landið allt hvarvetna þar sem byggð er. Það er dapurlegt til þess að vita að sú stefna skuli vera hér uppi að þessi umræða skuli vera vera nauðsynleg.