Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 23:30:52 (7455)

2001-05-10 23:30:52# 126. lþ. 119.7 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[23:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég lýsti nokkuð ítarlega viðhorfum mínum til þessa máls við 1. umr. og hef í sjálfu sér ekki ýkja miklu við það að bæta og þarf þar af leiðandi ekki að halda langa tölu.

Í máli mínu kom skýrt fram að það væri að sjálfsögðu ekki ástæða til að leggjast gegn því að stofnfjáreigendur í þeim sparisjóðum sem það kysu, að vandlega athuguðu máli og með lýðræðislega tekinni ákvörðun aukins meiri hluta atkvæða á fundi, að breyta stofnun sinni í hlutafélag, fengju til þess heimildir. Sú afstaða mín er að sjálfsögðu óbreytt og okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.

Það breytir ekki hinu að ýmis álitamál koma við sögu þegar slíkar breytingar eru á dagskrá. Ég óskaði sérstaklega eftir því að það yrði kannað hvort ekki væri mögulegt að hafa þann möguleika jafnframt opinn að sparisjóðir gætu gert tilteknar breytingar á starfsemi sinni og sótt sér aukið fjármagn með fleiri leiðum, svo sem eins og þeim að gefa út sérstök B-deildar skírteini eða bréf, sem lytu settum reglum og væru hins vegar ekki venjuleg framseljanleg hlutabréf á markaði, sambærilegar leiðir og farnar hafa verið í Noregi og víðar.

Mér urðu nokkur vonbrigði að sjá að þetta hefur ekki hlotið náð fyrir augum ráðuneytis eða fleiri manna. Ég kaupi ekki alveg þau rök jafnvel þó það sé skoðun viðskrn. að þetta væri ekki vænlegur kostur fyrir sparisjóðina. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hver hefur umboð til að tala fyrir þá alla, þá kaupi ég ekki alveg að þar með sé eitthvað að því í sjálfu sér, þar með sé slæmt að þessi möguleiki væri fyrir hendi, ef einhverjir vildu láta á það reyna, hvort þeir gætu þannig styrkt stöðu sína, en án þess að breyta sér í hlutafélag. Þetta gæti t.d. helgast af því að menn í ákveðnum sparisjóði í tilteknu byggðarlagi, sem væri mjög annt um að varðveita sjálfstæði fjármálastofnunar sinnar, standa vörð um hana, vildu láta á það reyna t.d. hvort væri stuðningur við það á heimamarkaði í því formi að stofnunin gæti sótt sér aukið eigið fé á slíkum grundvelli.

Það kann vel að vera að það sé ríkjandi skoðun meðal þeirra talsmanna sparisjóða sem komu á fund nefndarinnar. Ég veit vel að það er svo meðal forsvarsmanna stærri sparisjóðanna að þetta sé ekki eins vænlegur kostur og fara út í hreina breytingu yfir í hlutafélög. Þá er það nýtt fyrir mér ef þessi leið á ekki líka ákveðinn hljómgrunn, sú sem ég hef mælt fyrir, það væri a.m.k. líka mögulegt, því ég hef átt samtöl við marga forsvarsmenn sparisjóða á umliðnum mánuðum og missirum sem hafa verið að velta þessum málum fyrir sér og einmitt verið talsvert uppteknir af því að bera saman ólíkar leiðir sem farnar hafa verið, t.d. í nágrannalöndunum og reynsluna af því, annars vegar í Danmörku svo dæmi sé tekið og hins vegar í Noregi.

Ég hef ekki sannfærst um að það hafi gert nokkurn skapaðan hlut til að leyfa þessum möguleika að vera þarna fyrir hendi. Ef menn telja það flókið, þá held ég að menn hafi séð annað eins í lagasetningu og að settar væru um það reglur að menn gætu farið hvora leiðina sem þeir vildu.

En það er kannski sú oftrú manna á það að hlutafélög og hlutafélagavæðing sé það eina sem gildi í heiminum sem veldur því að menn eru ekki til viðtals um það að svo mikið sem leyfa öðrum möguleikum að standa opnum.

Þó er þetta allt gert undir þeim formerkjum að mikilvægt sé að virða sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði sparisjóðanna og leyfa þeim að ráða málum sínum sjálfum. Ég er auðvitað talsmaður og stuðningsmaður þess og sé þar af leiðandi ekki hvernig það samrýmist svo hinu að ekki mætti þá líka verið opið fyrir þá að gera þetta.

Ég er trúaður á að einhverjir af miðlungs stórum sparisjóðum eða minni sparisjóðunum hefðu jafnvel byrjað á því að láta reyna á slíka leið áður en þeir hefðu tekið það skref að fara út í hlutafélagavæðingu, einfaldlega vegna þess að ég veit að um það eru skiptar skoðanir og verulegir fyrirvarar á því víða hjá mönnum. Þetta hefur verið rætt á aðalfundum margra sparisjóða á undanförnum vikum og mér er vel kunnugt að víða hefur andinn verið sá að menn hyggjast ekki, a.m.k. að svo stöddu, fara út í að gera breytingar á sparisjóðum sínum, sjá ekki sérstaka ástæðu til þess, enda hefur þeim yfirleitt vegnað vel, hafa aukið markaðshlutdeild sína og styrkt verulega eiginfjárstöðu sína á undanförnum árum, eins og kemur reyndar fram í fylgiskjölum málsins.

Herra forseti. Eins og ég sagði áður við 1. umr. velti ég upp ýmsum álitamálum sem þessu væru tengd. Það var reyndar svolítið fjaðrafok út af því og ég fékk allmiklar gusur af andsvörum á mig, þar á meðal frá þingmönnum Samfylkingarinnar, sem töldu undarlegt að ég skyldi ekki telja einboðið að styðja þetta frv. Ég rifjaði þetta upp vegna þess að nú sé ég það sem er hið besta mál, að fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. hafa greinilega lagt vinnu í að skoða þetta frv. og flytja við það allmiklar breytingartillögur. Þeir telja frumvarpið það gallað að ef ekki náist fram á því þessar lagfæringar, ef ég skildi framsögumanninn rétt, þá vísi þeir allri ábyrgð á hendur stjórnarinnar og afgreiðslu málsins.

Það hefur þá verið þannig eins og ég taldi að það væri ástæða til að skoða ýmislegt í þessu máli og það væri kannski ekki eins einboðið og rakið að styðja það fyrirvaralaust og menn vildu vera láta, sumir hverjir, hér við 1. umr. málsins þegar þeir gerðu miklar athugasemdir við þá ræðu sem ég hafði flutt. Það eru þau álitamál sem ég hafði þar tínt til sögunnar.

En þetta er allt gott og blessað, herra forseti, og ég hygg að um það sé í sjálfu sér ekki djúptækur ágreiningur að ef þetta er það sem forsvarsmenn sparisjóðanna vilja þá sé rétt að þeir fái til þess heimildir. Við verðum einfaldlega að vona að þær heimildir verði skynsamlega nýttar. Ég leyni því a.m.k. ekki að ósk mín er sú að sparisjóðirnir, helst allir eða sem allra flestir, verði áfram sparisjóðir og ég vildi ógjarnan sjá þá þróun sem varð því miður t.d. að hluta til í Danmörku, að stærstu sparisjóðirnir, burðarásarnir í sparisjóðakeðjunni þar, runnu mjög fljótt inn í aðra banka og hurfu af sjónarsviðinu og eftir stóð þessi ágæta keðja sparisjóða þar, veikari en áður.

Ég held nefnilega að það sé mjög gott, það sé mjög þarft og hollt fyrir bankakerfið og fjármálastofnanirnar hér, að þessi valkostur sé til staðar og sé á því formi sem hann er. Hann sé þjónustusækinn, almenningsþjónustustofnun og sinni sérstaklega þörfum almennings og minni fyrirtækja og veiti stærri bönkum aðhald og keppi við þá í þeim efnum. Það held ég að sé ákaflega hollt og gott, a.m.k. tvímælalaust í þágu hagsmuna hins almenna neytenda í þessum efnum.

Ég leyfi mér því að láta þá ósk mína í ljósi að þó svo að einhverjir af sparisjóðunum og þá væntanlega þeir stærri fari þá leið að stofna hlutafélög og auka eigið fé sitt með því að sækja sér nýtt fé á markaði, þá verði ekki í kjölfarið sú þróun að þeir hverfi af sjónarsviðinu og renni inn í aðra banka. Það held ég væri ósköp einfaldlega ekki góð þróun á þessum litla markaði þar sem samkeppnin er takmörkuð eins og allir vita og hefur heldur þróast í þá átt á undanförnum árum með fækkun eininga o.s.frv.

Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það er aðeins atriði sem hefur verið rætt hér og er gert sérstaklega að umfjöllunarefni í nál. minni hluta efh.- og viðskn. og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi áðan.

Það sem ég er ekki endilega sammála hv. þm. er um stöðu núverandi stofnfjáreigenda í þessum sparisjóðum. Ég er ekkert endilega sammála því að það sé á einhvern hátt óeðlilegt eða þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til að minnka vægi þess hóps þegar e.t.v. verða teknar á næstu missirum eða árum ákvarðanir um framtíð þeirra stofnana sem þarna eru vegna þess að hverjir eru í sjálfu sér bærari til að gera það en það bakland sem þessir sparisjóðir hafa átt og þeir sem hafa staðið vörð um þær og byggt þær upp?

Ég gef ekki mikið fyrir vangaveltur um að þarna sé á ferðinni einhver óeðlileg ítök þessa hóps í fjármálalegu valdi sem þeir ekki eigi. Það finnst mér vera eigendahugsun sem ekki eigi erindi inn í umræður um sjálfseignarstofnun eins og sparisjóðirnir eru auðvitað. Fyrir mér hafa það aldrei verið neinar fréttir. Af því menn eru dálítið í því að upplýsa hlutabréfaeign sína þá held ég að rétt sé að upplýsa að sá sem hér talar er vissulega eigandi að stofnfjárbréfi í sparisjóði.

Ég held að það hafi ekki verið neitt leyndarmál fyrir þeim sem þannig háttar til um að þetta væru sjálfseignarstofnanir. Litið hefur verið á þetta í raun og veru sem félagslegt hlutverk þeirra sem hafa komið að þessum stofnunum, að vera hið félagslega bakland þeirra í viðkomandi byggðarlögum. Ég held að flestir hafi verið ánægðir með það og viljað leggja sitt af mörkum til þess að byggja þarna upp öflugar og myndarlegar stofnanir sem veittu góða þjónustu og hefðu þetta eðli, að eiga sig sjálfar og ráðstafa arði af starfseminni, að svo miklu leyti sem hann félli til, til að byggja upp stofnunina, efla hana og styrkja, gera hana betur í stakk búna til að veita góða þjónustu og það eina sem umfram væri væri það sem rynni til líknarmála og menningarstarfsemi. Þannig hefur þetta verið rekið. Ég sé ekki mikið að því. Ég sé ekki stórfelldar hættur í því að þeir hópar sem þannig hafa staðið á bak við stofnanirnar séu þá jafnframt þeir sem taka eðli málsins samkvæmt ákvarðanir um hvort þær verða reknar áfram í óbreyttu formi eða einhverjar breytingar gerðar.

Vissulega er þetta mismunandi eftir aðstæðum. Það er alveg hárrétt að í sumum sparisjóðunum eru stofnfjáreigendur mjög fáir. Í undantekningartilvikum eins og þegar sveitarfélög eru þar, eins og í tilviki a.m.k. eins sparisjóðs, þá er staðan auðvitað önnur.

En ég held að menn verði og eigi fyrst og fremst að horfa á þetta grundvallareðli sparisjóðanna og blanda því ekkert saman við spurninguna um það t.d. hvort einhverjir fáeinir einstaklingar ráði miklu fjármálalegu valdi í hlutafélagi eða stofnun af því tagi sem er bara allt annað mál. Menn eru sér þess væntanlega meðvitaðir að þeir eru ekkert að fara með sitt eigið fé eða ráðstafa því, þetta er stofnun á þessum grunni og hvað sem menn segja, þá held ég að því verði ekki á móti mælt að margar ágætar stofnanir hafa þjónað vel hlutverki sínu þó að þetta hafi verið rekstrarformið.

Ég vona að ég æsi ekki upp langar ræður um fé án hirðis og annað því um líkt, sem gæti auðvitað viljað til, vegna þess að hér er meðal annarra í salnum hv. 10. þm. Reykv. Það var ekki ætlun mín með þessum orðum, heldur fyrst og fremst það að vegna þess að það hefur komið upp í umræðunni að lýsa þeim viðhorfum af minni hálfu, að ég sé þetta í sjálfu sér ekki sem neitt sérstakt vandamál þó að ákvarðanirnar verði teknar á þeim grunni sem frv. gerir ráð fyrir því ég er ekkert endilega viss um að aðrir séu til þess bærir eða það sé endilega eðlilegra að aðrir kæmu að því.

Maður getur alveg séð fyrir sér ýmis vandamál sem sköpuðust líka af því ef skyndilega ætti að tvöfalda fjölda stofnfjáreigenda og það væri gert gagngert í aðdraganda þess að síðan ætti að taka ákvörðun um hvort sparisjóðnum yrði breytt í hlutafé. Gæti þá ekki sá hópurinn sem það vildi einmitt drifið í því að safna nýjum félögum til þess að valda slíka ákvörðun? Er það þá þannig sem menn telja eðlilegt að hún yrði tekin? Er það lýðræðislegra, félagslega séð eða hvernig sem menn vilja nálgast það, en að hafa þetta í höndum þeirra sem fram að þessu hafa gætt hagsmuna sparisjóðanna og gert það bara ágætlega, held ég?