Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:43:22 (7500)

2001-05-11 11:43:22# 126. lþ. 120.22 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég kem hér aðallega í ræðustól til að þakka allshn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli og þá breiðu samstöðu sem náðst hefur um það, að gengið verði til þess verks af hálfu ríkisstjórnarinnar að móta heildarstefnu í málefnum barna og unglinga. Ég beitti mér fyrir því ásamt meðflutningsmönnum mínum, Drífu Hjartardóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni, Ólafi Erni Haraldssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur og Ögmundi Jónassyni, að þetta mál yrði flutt. Það var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga en það fær farsælar lyktir nú á þessu þingi.

Ég tel afar mikilvægt að farið verði í þessa stefnumótun. Hér er um að ræða stjórntæki sem stjórnvöld fá í hendur þegar þessi stefnumótun hefur verið unnin. Hún gefur möguleika á að fara í skipulega forgangsröðun að því er varðar aðgerðir í málefnum barna og unglinga. Og það sem er mikilvægt í tillögunni er að á grundvelli stefnumótunar, sem fram fer í samráði við aðila sem verða í þeirri nefnd sem skipuð verður þegar tillagan verður samþykkt, verður gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þar með talin félagasamtök unglinga og það er afar mikilvægt einmitt að unglingarnir fái sjálfir að koma að þessari stefnumótun.

[11:45]

Þessi leið hefur fyrir löngu verið farin hjá hinum Norðurlandaþjóðunum með mjög góðum og farsælum árangri. Ég vil geta þess að umboðsmaður barna hefur allt frá stofnun embættis umboðsmanns barna vakið athygli á því hve brýnt er að móta skýra opinbera heildarstefnu í málefnum unglinga og að aðgerðir verði samræmdar af hálfu stjórnvalda á ýmsum sviðum sem snerta hagi þeirra. Enda er gert ráð fyrir því í tillögunni að skipuð verði nefnd með aðild forsrn., félmrn., heilbrn.- og trmrn., dómsmrn., menntmrn., umhvrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Það lýsir einmitt hversu víðtækt sviðið er að málefni barna og unglinga snerta mörg ráðuneyti og hve brýnt er að fara í heildarsamræmingu, stefnumótun og forgangsröðun, og gera í framhaldi af því framkvæmdaáætlun í samráði við þá aðila sem ég nefndi.

Herra forseti. Nefndin hefur gert tillögu um eina breytingu á upphaflegu tillögunni. Hún er sú að þessi áætlun verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2002 þannig að framkvæmdaáætlunin sem gerð verður á grundvelli stefnumótunarinnar, þegar hún liggur fyrir, verði lögð fyrir Alþingi, sem ég tel afar mikilvægt, til að Alþingi fái að fjalla um málið, þ.e. eftir rúmlega ár eða svo.

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir til allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli, ekki síst formanni nefndarinnar sem hefur beitt sér fyrir framgangi málsins. Það er alltaf ánægjulegt þegar breið þverpólitísk samstaða myndast um svona mikilvæg mál sem eru til hagsbóta fyrir börn og unglinga í þessu landi.