Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:42:00 (7566)

2001-05-11 16:42:00# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samfylkingin er merkilegur flokkur sem er í mótun og ég heyri að þeir sem tala við þessa umræðu, hv. þm. og foringi Samfylkingarinnar, eru þeirrar skoðunar að tollarnir eigi bara að fara í burt. Það er þó sú vörn sem er samkvæmt alþjóðasamningum og er viðurkennd á alþjóðavísu. Ég hef að vísu talað um að lækka tolla og hér er verið að stuðla að því. Ég spyr hv. þm.: Er samstaða um það í Samfylkingunni? Eru alþýðubandalagsmennirnir sem þarna fóru inn orðnir að þessum krötum einnig?

Hvað varðar síðan hitt sem hv. þm. spyr um, þá sakna ég þess auðvitað að Samkeppnisstofnun skuli ekki enn hafa skilað mér þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana um verðmyndunina. Ég mun ganga eftir því að þeim svörum verði skilað nú strax eftir helgina og ég vona að það geti komið nefndinni að gagni, því að það eru orðnar æðimargar vikur síðan ég skrifaði þetta bréf.

Hvað varðar verðmerkingar í búðum, skilaverð til grænmetisbænda eða að flokka það algerlega niður, þá get ég alveg viðurkennt eftir þessa úttekt og umfjöllun að þó að það sé flókið mál og kannski dýrt þá hneigist ég til þeirrar áttar að huga að því. Ég hef að vísu ekkert vald á því sjálfur, ég tek það ekki fyrir. Það verður auðvitað löggjafinn að gera og þeir sem fara með samkeppnismál í landinu. En ég fer að halda að það verði hollt miðað við þá úttekt sem Morgunblaðið hefur gert á þessum málum að fara þá leið.

Grænmetisneysla stendur í stað frá 1995. Ég kann engar skýringar á því. Ég hef þó rakið hér ýmsar skýringar á því af hverju við borðum minna grænmeti en aðrir. Við erum að sumu leyti öðruvísi hvort sem það er veðráttan í landinu eða venjurnar sem þar ráða. Svo höfum við kannski tekið upp mjög óholla matarsiði. Unga fólkið borðar mikið af ýmsu úr hveiti og það hefur kannski breytt neysluvenjum líka og dregið úr grænmetisneyslu.