Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:06:19 (7575)

2001-05-11 17:06:19# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur á köflum verið mjög málefnaleg og upplýsandi um stöðu grænmetisframleiðslu, grænmetisinnflutnings og þetta mál almennt.

Herra forseti. Það sem ég vildi sagt hafa í upphafi máls míns er að upplýsingar í máli hæstv. landbrh. virðast gefa til kynna að kannski þurfi menn ekki að verja jafnmiklum fjárhæðum til stuðnings við innlenda framleiðendur og nauðsynlegt hefur verið talið. Hæstv. landbrh. greindi frá því að þær aðgerðir sem hann hyggst grípa til í framhaldi af samþykkt þess frv. sem hér liggur fyrir muni kosta ríkissjóð fast að 100 millj. Það liggur jafnframt fyrir að heildartekjur ríkissjóðs vegna innflutningstolla á grænmeti eru um það bil 140--160 millj. kr. Það sem út af stendur, sem er vernd vegna hinnar innlendu framleiðslu, er ekki nema 40--60 millj. kr. Þá erum við að tala um allt aðrar upphæðir en áður.

Varla ætlast hæstv. landbrh. eða hv. þm. Vinstri grænna til þess, ef menn fara þá leið að afnema með öllu innflutningstollana, að framleiðendum verði bætt upp nema í hæsta lagi það sem tengist innlendu framleiðslunni. Varla ætlast þeir þrír hv. þm. sem hér hafa talað í dag og eru allir í salnum til að menn fari að greiða niður innlenda framleiðslu sem nemur tekjum ríkissjóðs af innflutningstollum af tegundum sem ekki eru framleiddar í landinu. Það væri óðs manns æði, herra forseti. Ég tel að samkvæmt þessu séu menn að tala um vernd sem væri ígildi 40--60 millj. Hér byggi ég á tölum hæstv. landbrh. Þá er dæmið allt öðruvísi en það leit út áður.

Það kann að vera, herra forseti, að hæstv. landbrh. hafi gefið upp rangar tölur. Ég hygg varla. Hann hefur sagt að sú aðgerð sem liggur fyrir í dag muni kosta fast að 100 millj. kr. og hún varðar einungis grænmeti sem ekki er framleitt innan lands. (Gripið fram í.) Það er nánast það.

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem upp hófst milli hæstv. landbrh. og hv. þm. Péturs H. Blöndals um verð á landbúnaðarframleiðslu innan lands og erlendis þá þótti mér sem hæstv. landbrh. hefði ekki alveg kynnt sér muninn á því. Hann setti fram ákveðna staðhæfingu en mig langar til þess að greina frá þeim mikla mun sem þar er á, herra forseti. Ég styðst þar við skýrslu Samkeppnisstofnunar sem hæstv. landbrh. kallaði fyrr í dag stóru skýrsluna.

Í skýrslunni kemur fram að t.d. nautakjöt er 40--50% dýrara í Reykjavík en í viðmiðunarborgunum í nágrannalöndunum, svínakjöt 30--70% dýrara, kjúklingakjöt 70--130%, grænmeti 40--170%, ostur og smjör 15--20%, brauðostur að vísu 50% dýrari, mjólk 10--30% dýrari og rjóminn fast að 100% dýrari. Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að verðlag á íslenskri landbúnaðarframleiðslu sem neytendur kaupa í smásölu hér í Reykjavík og á Íslandi sé sambærilegt við það sem er erlendis. Eftir því sem hv. þm. Þuríður Backman upplýsti fyrr í dag er munurinn stundum verulegur á Reykjavík og dreifbýlinu þannig að ekki skánar myndin við það, herra forseti.

Ég vildi líka leyfa mér, herra forseti, að lesa upp úr blaði sem hæstv. ráðherra hefur notað sem haldreipi sitt í dag. Hæstv. landbrh. hefur margítrekað gripið til þess að vísa í Morgunblaðið. Það er rétt hjá honum að Morgunblaðið hefur staðið sig ákaflega vel við að upplýsa stöðuna á markaðnum. Morgunblaðið hefur í reynd sýnt rannsóknarblaðamennsku sem enginn íslenskur fjölmiðill hefur áður gert. Með vissum hætti má segja að það hafi svipt hulunni af stöðunni á markaðnum með talsvert gleggri hætti en er að finna í skýrslu Samkeppnisstofnunar frá því í síðustu viku.

Hvað sagði Morgunblaðið um skýrsluna sem hæstv. landbrh. vill ekki ræða mikið í dag og helst láta liggja milli hluta, a.m.k. tiltekin ummæli sem þar eru? Í leiðara Morgunblaðsins sem nýlega birtist er fjallað um þau fyrirtæki sem fóru fram með ólögmætri háttsemi á markaðnum. Þar segir um landbrn., með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið virðist aldrei hafa spurt neinna spurninga um framferði þeirra eða gripið til aðgerða til að auka samkeppni á grænmetismarkaðnum, heldur látið hagsmunaaðila nota sig að vild til að viðhalda tollverndinni og skýla þeim þannig fyrir heilbrigðri samkeppni.``

Hvað segir hæstv. landbrh. um þessa einkunn stóru mömmu, Moggans? Einhver hefði sagt að þetta væri áfellisdómur yfir hæstv. landbrh. og því ráðuneyti sem hann stýrir að hagsmunaaðilar notfæri sér að vild tollverndina og hún skýli þeim fyrir heilbrigðri samkeppni. Þetta er mikill áfellisdómur, herra forseti.

Við umræðuna í dag höfum við nokkrum sinnum drepið á það hvernig aðstoða ætti innlenda framleiðendur við að fóta sig í samkeppninni. Ég tel, herra forseti, að við höfum tapað talsverðum tíma. Við hefðum átt að byrja strax árið 1995. Þá hefðum við átt að fylgja GATT/Úrúgvæ-samninginn með því að lækka hægt og bítandi innflutningstollana og knýja þar með innlendu framleiðendurna til að takast á við samkeppnina smám saman. Ég er þeirrar skoðunar að þeir hafi margt með sér.

Ég hef fyrr í umræðunni nefnt fjarlægðarverndina sem mér er sagt að sé ígildi 7--10% kostnaðarins við vöruna. Hv. þm. Vinstri grænna hafa réttilega bent á að innlenda framleiðslan sé að öllum líkindum snöggt um betri en sú erlenda. Þess hlýtur að sjálfsögðu að sjá stað í samkeppninni. Menn hljóta að vera reiðubúnari til að borga eitthvað og jafnvel töluvert meira fyrir framleiðslu sem er hollari og betri en innfluttar vörur. Það hjálpar þeim líka í samkeppninni. Ég er sannfærður um að ef komið væri á samkeppnisumhverfi þá mundu hinir dugmiklu íslensku framleiðendur fóta sig í þeirri samkeppni. Efalítið mundu einhverjir missa fótanna og einhverjir þeirra hætta framleiðslu. En þannig eru leikreglurnar einfaldlega á markaðnum. Ég tel, herra forseti, eigi að síður að við ættum að reyna að fikra okkur niður úr þeim háu tollum sem eru í dag og afnema þá að fullu að lokum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi tiltekna leið sem mér fannst nokkuð góð. Jafnframt hefur verið rætt um annars konar stuðning. Ég t.d. varpa því fram að menn ættu að velta fyrir sér hvort hægt væri að aðstoða innlenda framleiðendur með einhvers konar tímabundnum fjárfestingarstyrkjum í upphafi. Það mundi hjálpa þeim til að ráðast í hagræðingu og kaup á framleiðslutækjum sem mundu leiða til þess að þeir gætu framleitt meira magn á minna verði. Ef markaðurinn virkar þá ætti það að leiða til þess að þeir gætu selt framleiðsluna við lægra verði.

Samkvæmt lögmálum markaðarins mundi það gerast sem ég og hv. þm. Þuríður Backman viljum bæði. Neyslan á þessari hollustuvöru mundi aukast. Það er einfaldlega það sem þarf að gerast. Mér finnst að hv. þm. Vinstri grænna hafi ekki skýrt hvernig þeir vilja annars vegar ýta undir aukna neyslu á þessari hollustu og hins vegar draga úr tollverndinni. Hvernig ætla þeir að gera það? Ég spurði hvort hv. þm. Þuríður Backman væri fylgjandi beinum framleiðslustuðningi og hún sagði ærlega að það hefði hennar flokkur ekki rætt enn þá.

Herra forseti. Ég vildi spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða framleiðslustuðningur og hvers konar framleiðslustuðningur er heimill samkvæmt þeim alþjóðlegu samningum sem við erum aðilar að? Það skiptir miklu máli að það liggi fyrir skilningur á því í umræðunni.