Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 13:48:19 (7685)

2001-05-14 13:48:19# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi í sporum hv. þm. Kristjáns Pálssonar frekar fela mig í skúmaskotum en að koma hingað með málflutning af þessu tagi, að koma hingað og halda því fram að frv. sem hér liggur fyrir rústi þessum samtökum, þ.e. samtökum sjómanna, í öðru orðinu og halda því síðan fram að þau hafi veitt sér þetta banasár með eigin hendi, það er hneyksli, herra forseti.

Hvers hönd heldur á hnífnum? Meðal annars sú hin sama hönd og styður á hnappinn, hægri hönd hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Það er hann sem hefur lýst því yfir í þessari ræðu að hann ætli að greiða þessum skelfilegu ólögum atkvæði sitt.

Herra forseti. Er ekki hér í rauninni um að ræða tangarsókn á sjómannasamtökin? Tangarsókn hverra? Annars vegar ríkisstjórnarinnar sem ræðst að þeim á annan vænginn og hins vegar útgerðarmanna. Það hefur komið fram í yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. fyrr í dag að hann veit vel til þess að jafnvel þótt sjómenn mundu taka þá ákvörðun að fresta verkfalli mundi það ekki duga vegna þess að hann hefur það á hreinu að útgerðarmenn mundu ekki gera það.

Þar með er alveg ljóst, herra forseti, að þarna er um að ræða tangarsókn hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar á annan kantinn og hins vegar útgerðarmanna á hinn vænginn. Ég veit að þó að hæstv. sjútvrh. klaki eins og dúfa í eyru hv. þm. Kristjáns Pálssonar þá dugar það skammt. Þetta er einfaldlega staðreyndin, herra forseti. Þegar hv. þm. kemur hingað og kveinkar sér undan því að verið sé að tala um að það sé verið að svíkja sjómenn hlýtur hann að skilja að þetta eru fullkomin svik við sjómenn. Einn af þeim sem tekur þátt í svikunum er fyrrverandi sjómaður og það er hv. þm. Kristján Pálsson.