Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:09:03 (7777)

2001-05-15 10:09:03# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:09]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að hæpið sé að kalla það eðlileg vinnubrögð þegar hv. sjútvn. er kölluð saman til að vinna yfir blánóttina og undir svo mikilli tímapressu að þegar nefndarmenn mættu þá var þegar búið að setja niður til hverra yrði kallað. Þó svo að við sem skipum minni hluta nefndarinnar teldum ærna ástæðu til að kalla fleiri inn þá fékkst það ekki. Þetta kalla ég ekki eðlileg vinnubrögð, herra forseti, og ég veit að þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Hraðinn var slíkur á málinu að ekki fékkst sú skoðun á því sem vissulega þarf.

Herra forseti. Það hefði þurft að skoða fleiri atriði en þessa 3. gr. vegna þess að hér er verið að breyta starfsumhverfi í sjávarútvegi án þess að það fái þó þá umfjöllun og skoðun sem við hefðum talið eðlilega.

Eftir umræðuna í gær, eftir að gagnrýni hafði komið fram og eftir að bæði hæstv. félmrh. og hæstv. sjútvrh. höfðu sagt að þeir vildu að nefndin framkvæmdi gagnrýna og vandaða skoðun á málinu átti ég satt að segja von á öðru, enda mættum við fulltrúar minni hlutans nestuð til þessa fundar. Við vorum búin að velta vöngum yfir því hverja væri rétt að kalla til svo skoðun málsins mætti verða sem vönduðust og best. En því var öllu hafnað, herra forseti, nema, eins og kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar, að til var kallaður fulltrúi úr félmn. Ég verð að segja, herra forseti, að miðað við það hve viljugur hæstv. félmrh. var til þess í gær að nefndin fengi allan þann liðsstyrk sem hún þyrfti úr félmrn. þá þótti mér þetta framlag heldur rýrt. Við óskuðum eftir frekari skoðun. En hún fékkst ekki.