Verðmyndun á grænmeti

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 10:38:56 (7955)

2001-05-17 10:38:56# 126. lþ. 127.91 fundur 561#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það hefur komið skýrt fram í umræðu af hálfu stjórnarandstöðunnar í tengslum við grænmetismálið að stjórnarandstaðan er þar fyrst og fremst að ganga erinda neytenda. Hér erum við að ræða um störf þingsins og það hefur komið skýrt fram að stjórnarandstaðan er reiðubúin að haga störfum sínum þannig að hagsmunir þeirra ná fram að ganga.

Það mál sem er gert hér að umtalsefni --- og kom það skýrt fram í viðtali hæstv. landbrh. í Morgunblaðinu í morgun --- er að þegar fram kemur skýrsla sem sýnir að tollar hæstv. ríkisstjórnar eru ein aðalorsökin fyrir hinu háa grænmetisverði þá neitar hæstv. ráðherra að taka mark á þeim staðreyndum, snýr út úr málinu og neitar að viðurkenna undirrót hins háa grænmetisverðs sem er hin ranga stefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist strax þegar GATT-samningurinn var lögleiddur á sínum tíma.

Þetta er ástæðan fyrir því að matarverð er 30--40% hærra hér en í Evrópu. Þetta er ástæðan fyrir því að verndarumhverfi íslensks landbúnaðar er meira en innan Evrópusambandsins og þetta er líka ástæðan fyrir því, herra forseti, að bændur eru fátækasta stétt landsins. Það er þetta kerfi sem hæstv. ráðherra er að verja eina ferðina enn sem við erum að gagnrýna og gagnrýnum það undir dagskrárliðnum um störf þingsins vegna þess að við viljum, herra forseti, að þessi mál sem eru neytendum til hagsbóta hafi forgang hér í störfum á þeim dögum sem eftir eru.