Verðmyndun á grænmeti

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 10:41:05 (7957)

2001-05-17 10:41:05# 126. lþ. 127.91 fundur 561#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er gaman að hv. þm. Ágúst Einarsson er kominn hér inn. Hann er gúrú og guðfaðir Samfylkingarinnar í allri ráðagerð eins og Njáll var Gunnari forðum. Þar er kominn maður sem er alvörumaður. En hann er bara frjálshyggjumaður í öllu sem snýr að landbúnaði. Þess vegna er hann gamall krati í því sinni öllu. Hins vegar er hv. foringi Samfylkingarinnar alltaf í plati. Hann kann alls ekki að segja satt, hæstv. forseti, því miður. Hann snýr út úr öllum málflutningi manna.

Það sem ég var að deila um við smásöluna 15. mars, var að tollarnir hækkuðu verðið en þeir breyttu ekki verðinu á papriku úr 400 í 800 kr. Það staðfestir skýrslan. Ég bað Samkeppnisstofnun um að fara yfir hvað smásalan fær í sinn hlut og ekki spyrja þann grunaða heldur að rannsaka það. Þeir hafa öll völd í því máli. Hvað tekur heildsalan í sinn hlut? Hvað er ríkið að taka? Þetta áttu þeir að fara yfir. Þessi svör vil ég fá fram og vil hafa frið og tíma til þess að klára það. Menn mínir munu hitta starfsmenn Samkeppnisstofnunar og fara yfir þetta. Ég tel að Samkeppnisstofnun hafi ekki lokið við að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana.

Hvað varðar síðan stefnu ríkisstjórnarinnar þá er hún auðvitað að berjast fyrir hagsmunum neytenda. Við erum með frv. þar sem við erum að fella tollana af 30 tegundum þannig að gott er að eiga hv. þm. Ágúst Einarsson að til þess að styðja það góða mál síðar á lokadögum þingsins. Ég fagna slíkum alvörumanni Samfylkingarinnar hingað inn. Ég vann með honum í landbn. Alþingis í mörg ár. Þar var hann alltaf hinn frábæri félagi og ráðagóði þó að ég færi ekki eftir öllum hans ráðum. Hins vegar er hann dálítið öðruvísi í ræðustólnum, hæstv. forseti. Þá er persónan stundum dálítið breytileg.