Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:15:29 (7984)

2001-05-17 12:15:29# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta samgn. um frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Herra forseti. Ég mun í þessari ræðu minni fyrst og fremst gera grein fyrir nefndarálitinu og helstu atriðum tengdum því. En í ræðu síðar í dag mun ég fara nánar í einstök atriði sem snerta málið, einstakar umsagnir og ítarlegri skýringar og umfjöllun um málið.

Herra forseti. Með frumvarpi þessu er ríkisstjórninni veitt heimild til að selja allt hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. Í athugasemdum með frumvarpinu er jafnframt greint frá þeirri tilhögun sem áformað er að hafa við sölu hlutafjárins og frá ýmsum skilyrðum sem Landssímanum hf. eru sett. Samhliða þessu frumvarpi flytur ríkisstjórnin frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 107/1999, sem kveður á um skýrari heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að gera ríkari kröfur en lögin nú heimila til fyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild. Nefndarálit þetta mun taka til beggja þessara frumvarpa.

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er andvígur sölu Landssíma Íslands hf. Fjarskiptaþjónusta er ein af grunnstoðum almannaþjónustu í landinu. Þessi þjónusta má ekki lúta þeim lögmálum markaðarins að arðsemiskrafa eiganda ein sé drifkraftur reksturs og þjónustu. Sjálfsagt er að gæta allra almennra hagkvæmni- og rekstrarsjónarmiða og gera kröfur um aukna þjónustu. Landssími Íslands á áfram að vera sameign þjóðarinnar og styrk hans á að nýta til hins ýtrasta til að byggja upp gott fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna án mismununar í verði eða gæðum. Fari svo sem horfir og fyrirtækið verður selt er sú hætta yfirvofandi að þessi mikilvæga almannaþjónusta verði ofurseld einkareknu einokunarfyrirtæki, jafnvel í meirihlutaeign útlendinga eins og að gæti verið stefnt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna til þess sem Einar Þveræingur sagði í Ólafs sögu helga þá er Þórarinn Nefjólfsson bar upp það erindi Ólafs Noregskonungs að Norðlendingar gæfu honum Grímsey. Þá sagði Einar Þveræingur:

,,,,Þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum.`` ... þá var öll alþýða snúin með einu samþykki að þetta skyldi eigi fást.``

Herra forseti. Fari svo að þessi grunnalmannaþjónusta okkar allra Íslendinga, Landssíminn, verði seldur, og eins og hugur stendur til, erlendis og jafnvel meiri hlutinn, þá óttast ég að mörgum íbúum landsins muni finnast þröngt fyrir dyrum þegar hann fer að banka á með þjónustu og verð á sínum gæðum.

Herra forseti. Forsendur þessarar sölu eru gefnar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hefur haft það á stefnuskrá sinni að selja allt sem hún getur selt, selja almannaþjónustu hverja af annarri og nú stendur fyrir dyrum að selja Landssímann.

Ríkisstjórnin hefur einnig sett sér almenn markmið með einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum og komu þau fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 23. apríl 1995. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum eru forsendur framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis.``

Þetta er sett fram sem meginmarkmið. Eftir þessari einkavæðingarstefnu hefur verið unnið skyldum við halda. Við erum svo hjartanlega sammála um það, herra forseti, að efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum séu mikilvæg og að það séu forsendur framfara, lágra vaxta og öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis. En hvað hefur einkennt þessa ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. meira en einmitt einkavæðing á almannaþjónustu, einkavæðing á fyrirtækjum sem hafa verið mikilvæg fyrir þjónustu alls almennings, skilað góðri þjónustu, þjónustuöryggi og jafnframt tekjum í ríkissjóð?

En hvernig hefur þessi sala, þessi einkavæðing og sala hlutafjár verið framkvæmd? Við skyldum halda, herra forseti, að hún hafi verið framkvæmd með það að leiðarljósi að ná þeim markmiðum sem þarna eru sett, ná því markmiði að hér væri jafnvægi í ríkisfjármálum og lágir vextir.

En hver er staðan, herra forseti? Við höfum aldrei, ekki svo ég muni eftir, búið við hærri vexti í þjóðfélaginu en nú. Það er meira að segja sagt að vaxtastigið sé svo hátt og það sé að sliga atvinnulíf þjóðarinnar, það sé að sliga heimilin í landinu, það sé að sliga fjárhag einstaklinganna, þetta háa vaxtastig sem einmitt átti að vera lágt í kjölfar og á forsendum einkavæðingarinnar.

Herra forseti. Þessi einkavæðing sem við höfum nú upplifað á síðustu árum hjá hæstv. ríkisstjórn hefur svo gjörsamlega mistekist hvað varðar þetta meginmarkmið sitt. Og meira að segja eru leiddar að því líkur og reyndar nokkuð öruggar vísbendingar að einmitt þessi hömlulausa einkavæðing, einkavæðing á bönkum, það að gefa ríkisbönkum heimild til þess að auka hlutafé sitt, setja á almennan markað, sala á ríkisfyrirtækjum með þeim hætti sem hún hefur verið framkvæmd, sé einmitt ein af ástæðunum fyrir þeim háu vöxtum sem við nú búum við og hún sé jafnframt ein af ástæðunum fyrir viðskiptahallanum, vegna þess að hlutafélagavæðingin og sala hlutabréfa með þessum hætti hafi einmitt stuðlað að ójafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar því fólk, einstaklingar, félög, fyrirtæki, hafi tekið erlend lán til þess jafnvel að fjármagna hlutabréfakaup. Sá hrunadans er ekki afstaðinn. Og einkavæðingin sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur staðið að á síðustu árum hefur einmitt verið meginástæða viðskiptahallans og óstöðugleikans í efnahagslífinu sem við nú búum við.

Herra forseti. Meginforsenda einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar hefur því brugðist í öllum meginatriðum. Ætla menn ekki að draga lærdóm af því? Því miður, herra forseti, virðist svo ekki vera.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 segir um einkavæðingu ríkisfyrirtækja:

,,Við sölu hlutabréfa ríkisins verði jafnframt hugað að því að salan hafi í för með sér aukinn sparnað almennings.

Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila.``

Hefur þetta leitt til sparnaðar? Ef við lítum á skuldastöðu heimilanna, hver er hún? Hún hefur hraðvaxið á liðnum árum og það er fjarri því að tala um að þetta hafi leitt til sparnaðar. Alla vega er erfitt að sjá hvernig hægt er að finna það út.

Þá er og lögð áhersla á, herra forseti, að við sölu á ríkisfyrirtækjum verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum, því þá voru bankarnir til sölu. Sala Landssímans var þá ekki að fullu komin í umræðuna.

Herra forseti. Ég efast um að reynslan hafi sýnt að það sé tryggt. En það að reka ríkissjóð á þann hátt að sala eigna eigi að standa undir rekstri hans, þ.e. að með sölu ríkiseigna sé hægt að sýna fram á tekjuafgang, það er bókhald sem ég ekki kann. Ég kann ekki það bókhald í rekstri að menn geti selt eignir til þess að sýna góða rekstrarafkomu. Eignirnar er ekki hægt að selja oftar en einu sinni, herra forseti. Þegar maður selur eignir er í fyrsta lagi eitthvað mjög alvarlegt í húfi ef það á að fara að ganga til þess að rétta af rekstrarstöðu eins og hér er einmitt verið að gera.

Í hinum almennu forsendum um einkavæðingu stendur á bls. 18 í frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., með leyfi forseta:

,,Auk þeirrar almennu stefnumörkunar sem fram kemur í þessari yfirlýsingu hafa í tengslum við einstök verkefni á sviði einkavæðingar verið sett viðbótarmarkmið. Hafa þau ýmist komið fram í sérstakri lagasetningu, umfjöllun á Alþingi, í ákvörðunum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra. Jafnframt hafa verið sett fram almenn markmið með einkavæðingarstarfinu af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Helstu markmið af þessum toga eru:

1. Að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu.``

Þær kringumstæður geta vel verið að ýmiss konar fyrirtæki séu betur komin í samkeppnisumhverfi en að ríkið sé að reka þau --- það er alveg hárrétt --- margs konar atvinnurekstur. Og ríkið á ekki að standa í almennum atvinnurekstri. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum ekki hlynnt því að það eigi að vera algild regla eða algilt verkefni ríkissjóðs. Hlutverk ríkissjóðs og Alþingis er að skapa umgjörð um gott atvinnulíf og sterkt hvar sem er á landinu.

Síðan kemur órökstudd fullyrðing, herra forseti:

,,Markaðsöflin eru allajafna betri trygging fyrir skynsamlegri nýtingu framleiðsluþáttanna en ríkisafskipti.``

Þetta er bara fullyrðing út í loftið. Í sumum tilfellum getur það átt við, herra forseti, en það er barnaskapur að setja þetta fram sem algilt markmið. Þetta er alveg fráleitt og furðulegt að ríkisstjórn sem telur sig vinna með ábyrgum hætti geri það. Það er alveg fráleitt að setja fram algild markmið með þessum hætti sem eru ekki sönn, eru röng.

Og áfram eru sett almenn markmið, með leyfi forseta:

,,2. Að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum. Reynslan sýnir að meiri faglegar kröfur eru gerðar til stjórnenda og þeir fá meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðingu.``

Þetta er fullyrðing, fullyrðing út í loftið. Vafalaust í einhverjum tilvikum og þeim kannski allmörgum getur þetta átt við. En í öðrum á það bara alls ekki við. Og er þá eitthvað að rekstrarforminu? Nei, það er bara um að ræða hinn mannlega breyskleika og hann er til staðar alls staðar, hvort heldur í einkarekstri eða ríkisrekstri. Þessi staðhæfing sem hér er lögð fram er því út í loftið og órökstudd.

[12:30]

Einnig er stuðst við þau rök að salan muni bæta stöðu ríkissjóðs. Það geta verið rök, að selja fyrirtæki til að bæta stöðu ríkissjóðs. Það er alveg hárrétt. Það má vel vera að svo illa hafi verið haldið um ríkissjóð á undanförnum árum að brýn ástæða sé til að selja Landssímann. Réttast væri að hæstv. fjmrh. rökstyddi þá fjármálapólitík sína, að staðan í ríkisfjármálum sé svo bág undir hans stjórn að það þurfi að selja ríkisfyrirtæki til að rétta af ríkissjóð. Ég vona reyndar að svo sé ekki. Réttast væri að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessum lið í upptalningunni á forsendunum fyrir einkavæðingu og sölu hlutafjár í eigu ríkisins, að bæta stöðu ríkissjóðs. Það væri gott ef hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þeirri bágu stöðu sem gerir það að verkum að leita þarf að bestu mjólkurkúnum og selja þær til að bæta hag ríkissjóðs.

Og áfram segir, herra forseti:

,,Með sölu á hlutabréfum ríkisins er unnt að greiða niður um talsvert af skuldum ríkissjóðs.``

Það er alveg hárrétt. Það er unnt að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs með sölu á eignum. Það er alveg hárrétt. En hvernig er þeim rekstri komið sem grípa þarf til þess að selja bestu eignir sínar til að standa undir skuldum ríkissjóðs, skuldum sem þess vegna geta verið til komnar af almennum rekstri og rekstrarkostnaði? Eru það fjármálvísindi, herra forseti?

Látum svo vera, að það sé nauðsynlegt að selja Landssímann til að grynnka á skuldum ríkissjóðs, eins og þarna er talið upp í þeim röksemdum sem lagðar eru fram fyrir sölu á Landssímanum. En þegar maður selur eitthvað þá vill maður þó vita hvers virði það er. Hvað er maður að selja? Hver er ávinningurinn? Hversu mikið lækka skuldir ríkissjóðs með sölunni? Hve mikið batnar rekstrarstaða ríkissjóðs með sölunni?

Herra forseti. Við meðhöndlun málsins liggur ekkert fyrir um söluverðið á Landssímanum. Það liggur ekkert fyrir um það. Menn eru að skoða málið. Það er í einhverjum farvegi. Þannig eru svörin sem þjóðin sem á Landssíma Íslands fær um fyrir hvað eigi að selja. Síðan eru ástæðurnar fyrir sölunni taldar upp. Það þarf að bæta bága stöðu ríkissjóðs, bæta skuldastöðu hans, er almenningi sagt á bls. 18 í frv., og til þess sé nauðsynlegt að selja Landssímann. En þjóðin vill fá að vita hvaða verðmiði er settur á hann. Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir að það verði upplýst við umræðuna áður en þetta mál verður afgreitt, hvaða verðmiða á að setja á Landssímann. Það er grundvallarkrafa að málið verði ekki afgreitt á Alþingi fyrr en það liggur fyrir.

Í upptalningunni á markmiðunum með sölu Landssímans segir í fimmta lagi, með leyfi forseta:

,,Að bæta hag neytenda. Með þeirri hagræðingu sem hlýst af einkavæðingu eru líkur á því að samkeppni á markaði aukist sem skilar sér í bættum hag neytenda.``

Vissulega getur hagur neytenda batnað í sumum tilvikum þegar um virka samkeppni í atvinnurekstri er að ræða. En er einhver trygging fyrir því? Því fer fjarri, herra forseti, að hægt sé að setja þetta fram sem algilda reglu. Hvað höfum við upplifað, t.d. á matvörumarkaðnum? Upplifum við að frjáls samkeppni tryggi þar neytendum lægsta verð? Nei, herra forseti, nú eru menn sveittir við að reyna að finna leiðir til að koma að strangari lagaramma um þennan frjálsa matvörumarkað, frjálsan markað sem er að verða einokunarmarkaður en var lofaður og prísaður sem hluti af hinu almenna viðskiptafrelsi.

Ekki ætla ég að óska eftir því að komið verði á ríkisstýringu á matvörumarkaðnum. En það er fráleitt að gera ráð fyrir því að einkavæðing sé eitthvað sem tryggi bara í sjálfu sér hag neytenda. Hvað höfum við heyrt um Landssímann? Nánast allir sem komu á fund samgn. óttuðust að hagur neytenda um allt land væri ekki tryggður, hann væri ekki tryggður sem stendur en þó væri líklegra að hægt yrði að ná tökum á Landssímanum meðan hann væri í ríkiseigu og gera kröfur til hans. Langflestir sem komu á fund nefndarinnar efuðust um að auðvelt yrði að gera til hans kröfur eftir að hann væri seldur. Fulltrúar neytenda á fundi nefndarinnar voru alls ekki vissir um að sala Landssímans mundi bæta hag þeirra.

Sjötta markmiðið, herra forseti, sem rakið er sem forsenda fyrir sölu Landssímans er:

,,Að styrkja stöðu starfsmanna. Einkavædd fyrirtæki hafa meiri möguleika en ríkisfyrirtæki til að greiða góðu starfsfólki há laun, m.a. með árangurstengdum launakerfum ásamt því að tryggja atvinnu til langframa.``

Á að selja fyrirtækið til að styrkja stöðu starfsmanna? Ekki veit ég, herra forseti, hvort þessar áætlanir hafi verið ítarlega kynntar fyrir starfsmönnum Landssímans hf. um allt land, og þeim gerð grein fyrir því hvernig staða þeirra eigi að batna þegar búið er að selja Landssímann. Mér er ekki ljóst hvernig velja á það góða starfsfólk sem á að fá hærri laun eftir að búið er að selja Landssímann. Væri ekki ágætt, áður en þessu er slegið fram sem fullyrðingu, sem rökum fyrir að selja Landssímann, að eiga fundi með starfsfólki og gera því grein fyrir því hvað það á í vændum? Þetta er talið upp sem afleiðing þess að selja Landssímann. Ég tel reyndar að þetta sé köld kveðja til starfsfólks sem hefur unnið á Landssímanum í áratugi, hefur unnið þar af miklum þegnskap, jafnvel verið tjáð að þetta væri samfélagsþjónusta og yrði því að stilla launakröfum í hóf, að hærri launagreiðslur mundu draga úr möguleikum á uppbyggingu og þjónustu um allt land. Hér eru gefin þau fyrirheit að með sölu fyrirtækisins þá verði unnt, með leyfi forseta:

,,Að styrkja stöðu starfsmanna. Einkavædd fyrirtæki hafa meiri möguleika en ríkisfyrirtæki til að greiða góðu starfsfólki há laun, m.a. með árangurstengdum launakerfum ásamt því að tryggja atvinnu til langframa.``

Herra forseti. Er ekki miklu líklegra að hitt gerist, að í stað þess að sala Landssímans verði til þess að tryggja starfsfólkinu atvinnu til langframa þá verði það fyrsta sem stór hluti starfsfólksins fær að heyra, að því verði sagt upp? Það kæmi mér ekki á óvart.

Í sjöunda lagi, herra forseti, eru þau rök færð fyrir því að selja Landssímann að með því verði unnt:

,,Að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr möguleikum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir.``

Það hefði svo sem verið ágætt að fá að heyra hjá hæstv. samgrh. í hverju þetta vandamál með Landssímann hafi verið fólgið, með þessa sérhagsmunahópa sem einkavæðingarnefnd þykir nauðsynlegt að draga fram sem eina af forsendum fyrir því að selja Landssímann. Hafa þeir verið svona mikið vandamál? Hæstv. samgrh. er einn með allt hlutaféð og ræður öllu. Hann er sá eini sem greiðir atkvæði á hluthafafundum. Það væri fróðlegt að vita hvaða sérhagsmunahópar hafa beitt hann þeim þrýstingi að nauðsynlegt þyki að selja Landssímann.

Ætli það sé ekki svo, herra forseti, að sérhagsmunahóparnir --- ekki er ég að mæla þeim bót hvort sem þeir beita hæstv. samgrh. þrýstingi eða aðra --- séu eðlilegir í lýðfrjálsu landi þar sem einstaklingar og hópar hafa rétt á að koma fram með sjónarmið sín, ábendingar og óskir? Ef við tökum sem dæmi matvörumarkaðinn hér á landi: Eru ekki neinir sérhagsmunahópar þar? Þetta er allt saman einkavætt. Eru ekki einmitt sérhagsmunahópar sem keyra upp verðið fyrir vörur og þjónustu á þeim markaði? Ekki er að sjá að þar sé leitast við að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Mér finnst dapurlegt til þess að vita, herra forseti, að þetta sé sett fram sem ein af rökunum fyrir nauðsyn þess að selja Landssímann.

Eitt hefði ég líka viljað fá á hreint, herra forseti, varðandi bætta stöðu ríkissjóðs með sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands. Það kom skýrt fram hjá þeim fáu aðilum úr viðskiptalífinu sem komu til fundar við nefndina að þeir töldu tímasetninguna á sölu hlutabréfa nú afar slæma. Þeir töldu að staðan væri með því versta sem hún hefði verið síðan hlutabréfamarkaðir tóku til starfa og þar þyrfti að fara með sérstakri gát. Þeir bentu á að miklu máli skipti hvernig bæri að túlka yfirlýsingu hæstv. utanrrh., formanns Framsóknarflokksins, um sölu á Landssímanum. Þeir bentu á að það skipti máli hversu lengi íslenska ríkið mundi halda þessum 51% sem það hefur sett sér að eiga í fyrstu tveimur áföngum sölunnar. Þeir töldu það skipta afar miklu máli. Fram kom það sjónarmið að óskynsamlegt væri að leita að fjárfestum, kaupendum, ég tala nú ekki um erlendis, fyrr en fyrir lægi skýr yfirlýsing um hvert ríkisstjórnin stefndi og hvað hún ætlaði að gera í þessum efnum. Hér er átt við yfirlýsingu sem hæstv. utanrrh. gaf í fjölmiðlum og ég vil vitna í það sem hann sagði í Ríkisútvarpinu klukkan átta hinn 26. apríl sl. Þá sagði hæstv. utanrrh. aðspurður, með leyfi forseta:

,,Við munum hins vegar á næstu mánuðum eða missirum ekki selja meiri hlutann í fyrirtækinu. Ég held að það sé skynsamlegt að byrja heldur smátt og sjá síðan hvernig þetta gengur.``

Það getur verið afgreiðsluatriði hvort það á að byrja smátt eða stórt, hvort dreifa eigi hlutabréfunum hratt eða hægt. Það getur verið tæknilegt atriði. Hitt er efnahagspólitískt atriði líka, gríðarlegt, hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þessum efnum.

[12:45]

Þess vegna fer ég þess eindregið á leit að hæstv. utanrrh. segi skýrt og skorinort í þingsal Alþingis hvað hann er að fara. Hver er ófrávíkjanleg afstaða hans í málinu? Hins sama krefst ég einnig af hæstv. samgrh., að hann gefi trúverðuga yfirlýsingu um hvaða ákvörðun liggur fyrir um hversu lengi ríkið muni eiga 51% í hlutafélaginu. Þetta skiptir kaupendur hlutafjárins miklu máli, herra forseti, en ekki síður neytendur. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá að vita hver sé hin staðfasta stefna ríkisstjórnarinnar í málinu, ekki bara viljayfirlýsingar eða hugmyndir. Þetta er miklu stærra mál en svo að hægt sé að skilja við það á Alþingi með öðrum hætti en þeim að fyrir liggi staðfest yfirlýsing um hvað þarna er átt við, hver verði framtíðin í þessari sölu. Bæði kaupendur og notendur Landssímans eiga kröfu til þess, herra forseti.

Í hv. samgn. var reyndar fyrst og fremst fjallað um hina tæknilegu hlið málsins. Ég gagnrýni þá meðferð sem málið hefur fengið á þinginu. Sala á Landssímanum er það mikið stórmál að hún krefst ítarlegrar meðferðar.

Frv. kom mjög seint fram eða nær sex vikum eftir að frestur var liðinn til að skila inn nýjum þingmálum og þurfti því að leita afbrigða til að það fengist tekið fyrir. Eru þetta furðuleg vinnubrögð í stórmáli sem snertir svo mjög alla landsmenn eins og nánar er gerð grein fyrir í nefndaráliti 2. minni hluta. Sala Landssímans var eitt af stefnumiðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Hefur hún nú þegar haft tvö ár til að undirbúa söluna og því óskiljanlegt að keyra þurfi málið í gegnum þingið með þeim hætti að ómögulegt er að fjalla um það á fullnægjandi hátt.

Annar minni hluti gagnrýnir vinnubrögð og framgöngu meiri hlutans við umfjöllun þessa máls. Ekki var einu sinni nýttur sem skyldi sá takmarkaði tími sem nefndin hafði þó til um ráða. Málinu var vísað til nefndar 2. maí sl., en fyrsti nefndarfundur, þar sem málið var á dagskrá, var boðaður föstudaginn 4. maí, án undirbúnings eða samráðs við minni hlutann, samkvæmt dagskrá sem hafði ekki verið borin undir nefndarmenn.

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frv. viðurkenndi hann að málið kæmi seint fram og harmaði það. Hann fór jafnframt þess á leit að reynt yrði að afgreiða máli á þessu þingi samt sem áður. Hann óskaði eindregið eftir því. Að sjálfsögðu reynir þingið og þingnefndir að vinna hratt og vel og verða við eðlilegum óskum ráðherra og annarra sem leggja hér mál fram. Það er a.m.k. afstaða mín til málsins.

Ég óskaði eftir skriflegum umsögnum frá ýmsum aðilum um málið og að þeir fengju eins rúman tíma og kostur væri til að skila inn umsögnum. Umsagnarbeiðnir voru sendar út eftir hádegið á föstudeginum og aðeins gefinn frestur til kl. 16 næsta mánudag. Því gafst aðeins helgin til að svara þessari beiðni. Fyrir fram var því ljóst að umsóknaraðilum mundi ekki gefast tími til að fjalla á neinn heildstæðan hátt um málin.

Veigamikill þáttur þessa máls er efnahags- og viðskiptalegs eðlis og lýtur fullt eins að stjórn peningamála í landinu og tæknilegri þjónustu. Því óskaði undirritaður eftir að nefndin færi fram á að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins veitti umsögn um þann þátt málsins. Eftir nokkurn undandrátt með svör var því hafnað af hálfu meiri hlutans og er þeirri neitun hér með mótmælt.

Ég tel að málið sé illa unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar og því hafi verið brýn þörf á að málið fengi vandaða umfjöllun í samgn. Að mínu mati hefur slík umfjöllun ekki farið fram og þess vegna var því mótmælt að málið skuli hafa verið afgreitt úr nefndinni til 2. umr.

Herra forseti. Landssíminn er hluti íslenskrar þjóðarsálar. Árið 1906 komst á ritsímasamband við umheiminn frá Seyðisfirði. Allar götur síðan hefur aukin og bætt fjarskiptaþjónusta verið hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og tengt þá saman sem eina þjóð. Örugg þjónusta á þessu sviði hefur tryggt góða samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja innan lands og þjóðarinnar allrar við útlönd. Í strjálbýlu landi sem Íslandi er öflug og góð fjarskiptaþjónusta ein af grunnstoðum almannaþjónustu og getur tryggt samkeppnishæfa búsetu, mannlíf og atvinnrekstur hvarvetna á landinu. Það var þjóðarmetnaðarmál að allir íbúar landsins tengdust gegnum símakerfið.

Áfram eru grundvöllur samkeppni og tækniframfara og þróun samskipta bundin fjarskiptum. Þau eru því ein af grunnforsendum almannaþjónustu sem er forsenda fyrir fjölbreyttu atvinnulífi, menningarstarfi og samskiptum fólks hvarvetna á landinu. Ákveðin grunnþjónusta af þessum toga verður að lúta kröfum um jafna þjónustu, en ekki lögmálum arðsemiskrafna til þess fjár sem eigendur telja sig hafa lagt í þessa starfsemi í sjálfu sér. Landssíminn er hluti af innbúi allrar þjóðarinnar, eins konar ,,fjölskyldusilfur`` allra heimila landsins. Sjálfsagt er að gæta eðlilegra rekstrar- og hagkvæmnisjónarmiða. Landssíminn á áfram að vera í þjóðareign. Hér skilur á milli sjónarmiða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og annarra stjórnmálaafla í landinu.

Ég minnist þess í barnæsku að þegar verið var að leggja símann um sveitirnar var sú kvöð á bændum og landeigendum að hver varð að sjá um dreifingu símastauranna þar sem línan fór í gegnum þeirra land. Var það gert á hestum þar sem dráttarvélum varð ekki við komið, staurarnir dregnir eða bornir á höndum þar sem verst var yfirferðar. Íbúar út um allt land tóku virkan þátt í uppbyggingu þessarar almannaþjónustu og töldu ekki eftir sér. Mér er einnig kunnugt um að þeim rökum var beitt í kjarasamningum við starfsmenn Landssímans á sínum tíma að því hærri laun sem starfsmenn fengju því minna yrði til að byggja upp og þjónusta alla landsmenn.

Landssíminn hefur verið eitt af sameiningartáknum þjóðarinnar sem hver og einn landsmaður hefur verið tengdur við og fundið að hann gat gert félagslegar kröfur til. Með sölu Landssímans verður þessi hluti þjóðarsálarinnar seldur.

Herra forseti. Verðmæti Landssímans er því ekki aðeins fólgið í tækjum og tólum, línum, húsum og þekkingu starfsfólks heldur er verðmæti hans ekki hvað síst sú staðreynd að hann hefur í nærri heila öld verið hluti af íslenskri þjóðarsál. Það er verið að selja áratugasamning við íslensk heimili.

Verði þessi sala almannaþjónustu landsmanna að veruleika mun það rista djúp sár í íslenska þjóðarsál. Enn dýpri verða sárin og örin stærri ef það verður skilyrt að stór hluti Landssímans, jafnvel meiri hluti eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, fari í hendur erlendra aðila.

Þegar stofnað var hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar 1996 var ítrekað að aðeins væri verið að breyta um rekstrarform, ,,aðlaga það nútímanum``. Hlutafélag ætti meiri möguleika að bregðast skjótt við nýjum þjónustukröfum. Ekki stæði til að selja fyrirtækið. Þetta sjónarmið var áréttað þegar fyrirtækinu var skipt í Landssímann hf. og Íslandspóst hf.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var sala Landssímans hluti af stefnuyfirlýsingu hennar. Síðan þá hefur farið fram málamyndareiptog milli stjórnarflokkanna um tilhögun á sölu Landssímans.

Ríkisstjórnarflokkarnir og einkavæðingarnefnd lítur fyrst og fremst á Landssímann sem fyrirtæki í samkeppnisatvinnurekstri. Samkeppnin eigi að tryggja framboð og gæði þjónustunnar. Nú sé komin svo mikil samkeppni í þessa þjónustu að óhætt sé að sleppa henni lausri á markaðstorg mammons. Lög um fjarskipti, lög um Póst- og fjarskiptastofnun og samkeppnislög búi þá umgjörð sem eigi að tryggja að svo verði. Landssíminn hafi nú þegar starfað eftir þessum lögum um tíma og ekki sé þar nein meginbreyting á þótt hann verði seldur.

Fram kom hjá öllum þeim aðilum sem koma að fjarskiptum og mættu hjá nefndinni eða skiluðu áliti að því færi víðs fjarri að raunveruleg samkeppni væri á fjarskiptamarkaði og ætti það langt í land. Gríðarmikið misræmi væri milli fyrirtækja og íbúa landsins eftir búsetu hvað varðar aðgengi að fjarskiptum, tengimöguleika, gagnaflutning og verð á þjónustunni. Kom rækilega fram það sjónarmið að fullkomlega ótímabært væri að selja Landssímann í heilu lagi með öllum deildum sínum, þar á meðal grunnnetið, sleppa af þessari þjónustu hendinni og varpa henni á torg markaðarins og óheftra arðsemiskrafna. Allir þeir sem komu af landsbyggðinni til fundar við nefndina lýstu yfir þungum áhyggjum, fyrst og fremst af stöðu mála nú og skertri samkeppnisstöðu vegna búsetu en einnig af þeirri óvissu sem skapaðist til framtíðar við sölu Landssímans. Óttuðust margir að erfitt mundi að setja auknar alþjónustukvaðir eftir á þegar fyrirtækið hefði verið selt. Að sjálfsögðu lægju verðmæti þess ekki hvað síst í yfirburðamarkaðsstöðu sem það samkvæmt arðsemiskröfu eigenda sinna mundi beita til hins ýtrasta.

Ísland er lítill markaður en þar eru miklar vegalengdir. Einungis hér á suðvesturhorninu og ef til vill á Akureyri er hægt að vænta samkeppnismöguleika þar sem örfá fyrirtæki geta fleytt rjómann af fjarskiptaþjónustu landsmanna. Verði Landssíminn seldur er langlíklegast að innan skamms tíma verði hér fullkomlega einkavædd einokun á fjarskiptamarkaði.

Sala Landssímans í hlutum eða heilu lagi er því fullkomlega ótímabær hvort sem litið er á tæknilegar eða samkeppnislegar forsendur. Kröfur og væntingar til þjónustu hvarvetna á landinu mæla alfarið gegn því.

Önnur rök fyrir sölu Landssímans eru þau að ríkið vanti fjármagn og helst þurfi að selja a.m.k. hluta af honum úr landi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að fá hámarksverð fyrir ríkiseignir.

Fram kom hjá öllum þeim fulltrúum fjármálastofnana sem komu til fundar við nefndina að eins og staðan væri nú væri þetta einn allra versti tíminn til að selja hlutabréf í ríkisfyrirtækjum. Jafnframt væri staðan sú að hlutabréfamarkaðurinn væri afar horaður og illa fram genginn nú á vordögum. Hann þyrfti ,,innspýtingu`` af bréfum á lágu verði sem gæti hækkað verulega á eftirmarkaði. Þar gæti Landssíminn gegnt lykilhlutverki, að vera eins konar fóður fyrir hlutabréfamarkaðinn. Hlutverk ríkisins væri þá að halda eins konar ,,tombólu`` á hlutabréfunum til að örva markaðinn.

Einnig kom fram, herra forseti, að sala Landssímans gæti torveldað sölu hlutabréfa í bönkunum ef tekin væri sú ákvörðun að selja þau samtímis. Það er því alveg ljóst að af efnahags- og viðskiptalegum ástæðum orkar mjög tvímælis að selja Landssímann eins og staðan er. Reyndar væri afar óviturlegt að gera það. Eðlilegt hefði verið að efh.- og viðskn. hefði fjallað um þennan hluta frv. en því var hafnað af meiri hluta samgn.