Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 15:03:52 (7991)

2001-05-17 15:03:52# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni áðan var hv. þm. Hjálmari Árnasyni, þegar hann var að ræða um þá möguleika sem munu skapast og verða í framtíðinni fyrir samkeppni á netinu --- framsóknarmenn eru að reyna að rökstyðja það hvers vegna þeir hurfu frá hugmynd sinni sem þeir höfðu fyrir hálfu, einu ári eða eitthvað þar um bil --- tíðrætt um höfuðborgarsvæðið og samkeppni á grunnnetinu hér. Ég vil spyrja hann út í hver samkeppnin á Norðausturlandi sé í grunnneti. Tökum dæmi: Til þess að kaupa sér kvikmynd yfir netið eða flytja stóra gagnagrunna þarf vitanlega mikla flutningsgetu. Það er hægt að ná í hreyfimynd í fullum gæðum sem þarf 45 megabita hraða á sekúndu. Það tekur átta klukkustundir að sækja sér kvikmynd í fullri lengd með hraðvirkri ADSL-tengingu en ekki nema fjórar sekúndur með ljósleiðaratengi.

Herra forseti. Það tekur ekki nema fjórar sekúndur að ná sér í kvikmynd í fullri lengd og með fullum gæðum í gegnum ljósleiðaratengi. En Framsóknarflokkurinn er samur við sig. Hann ætlar íbúum Norðausturlands, svo ég taki dæmi, þar sem ekki er samkeppni í grunnneti, að ná í sína mynd á átta klukkustundum. Það er þetta, herra forseti, sem við erum að tala um. Það getur vel verið að komin sé samkeppni núna í Keflavík, í heimabæ hv. þm., en þetta er það sem mjög margir eiga að búa við.

Herra forseti. Framsóknarflokkurinn er samur við sig í þessu eins og öðru í byggðamálum. Hann ætlar þessum íbúum landsbyggðarinnar að notast áfram við reiðgötur meðan íbúar höfuðborgarsvæðisins fá malbikaðar stofnbrautir.