Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:47:15 (8008)

2001-05-17 17:47:15# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað grenjandi fyndið þegar menn hafa allt í einu þessa ofsalegu trú á samkeppnislöggjöfinni og fjarskiptaeftirlitinu, að það eigi bara að tryggja að allt verði í 100% lagi. Bíddu, er þetta ekki sama Samkeppnisstofnun og á að sjá um matvörumarkaðinn? Er það ekki? Davíð er nú ekki ánægður með það hvernig gengur að halda aftur af því að menn noti sér þar markaðsráðandi aðstöðu sína. Það er samkeppnisstofnun á Nýja-Sjálandi, þar er fjarskiptaeftirlit og mjög ströng löggjöf. Í kíví-hlutabréfinu er jafnframt skilyrði um sama verð um allt land. Þetta var einkavætt með það í stofnsamþykkt fyrirtækisins í þessu sérstaka hlutabréfi að þjónustuna skyldi bjóða á sama verði um allt land. En svo er ekki, mismuninn fóðrar fyrirtækið sem afslætti, sérstaka viðskiptasamninga og það ver sig með herskara lögfræðinga. Þó að menn reyni að kæra til Samkeppnisstofnunar eða fjarskiptaeftirlits eða fari fyrir dómstóla með framferði þess þá bara fer það sínu fram. Það er í aðstöðu til þess og hirðir til sín á ári hverju óheyrilegan gróða í krafti þessarar aðstöðu og flytur til Bandaríkjanna.

Þetta er staðreynd. Er ekki líklegra að reynslan af raunverulegu dæmi sem við höfum fyrir okkur þar sem nákvæmlega sama fyrirkomulag hefur verið í gangi í mörg ár, segi okkur meira heldur en blind trú á að þetta verði allt í lagi af því að menn hafi lög, Samkeppnisstofnun og fjarskiptaeftirlit? (Samgrh.: Hvað með Norðurlöndin?)

Hvernig hefur þetta gengið á ýmsum öðrum sviðum? Ætli það sé ekki hægt að finna ýmis dæmin um að menn séu uggandi um sinn hag á Norðurlöndunum, auk þess sem þessi þróun er nú ekki mjög langt gengin þar eins og við vitum? Þó að menn fari rólega í sakirnar á meðan þeir eru að koma sér fyrir í skjóli nýeinkavæddra fyrirtækja. Reynslan frá Nýja-Sjálandi er að því leyti miklu marktækari að hún tekur til langs tímabils. Þar hefur virkilega reynt á það um árabil hvernig þetta gefst. Það hefur gefist illa, herra forseti, og menn ættu að vera menn til þess að læra af reynslunni.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hv. þm. á að þegar ráðherrar eru nefndir þá segjum við hæstvirtir.)

Rétt, ég biðst forláts.