Málefni smábáta og starfsáætlun þingsins

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:18:39 (8089)

2001-05-18 10:18:39# 126. lþ. 128.91 fundur 563#B málefni smábáta og starfsáætlun þingsins# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:18]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vísa til spurningar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem hann beindi til forseta hvort honum fyndist eðlilegt að ríkisstjórnin sæti á fundum daginn sem þinglok áttu að vera og þingfundir standa. Við erum með 61 mál á dagskrá og mér sýndist, herra forseti, að það sé aðeins stærð blaðsins sem takmarkar það að ekki séu enn fleiri mál á dagskrá, er þá ekki eðlilegt til þess að þinghald geti gengið eðlilega síðustu dagana að ríkisstjórnin haldi fundi sína utan boðaðra þingfunda og taki þátt í umræðum og svari fyrirspurnum jafnharðan og greiði þann veg eðlilega fyrir störfum þingsins?

Ég spyr hæstv. forseta hvort þetta sé ekki eðlilegt og hvort hann muni beita sér fyrir því að sú tilhögun verði hér og henni fylgt eftir.