Orð forseta um Samkeppnisstofnun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:00:29 (8255)

2001-05-19 10:00:29# 126. lþ. 129.92 fundur 570#B orð forseta um Samkeppnisstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sá ágæti hv. þm. sem gegnir nú stöðu hæstv. forseta er bæði hnyttinn og gamansamur og vissulega hefur hann gert margt til þess að létta okkur lífið í þingsölum þegar stundum hafa verið langar setur. Hins vegar eru takmörk fyrir því hversu langt við getum gengið í gamansemi okkar og stundum ber við að menn fara út fyrir mörk þau sem virðing Alþingis setur.

Við verðum að gæta þess í ummælum okkar, herra forseti, að við meiðum engan, hvorki menn né stofnanir. Ein af þeim stofnunum sem hefur oft verið til umræðu í þinginu er Samkeppnisstofnun. Það er ákaflega mikilvæg stofnun sem gætir þess að leikreglur á markaði séu virtar, gætir þess að hagsmunir neytenda séu ekki skaðaðir af stórfyrirtækjum. Mér finnst þess vegna, herra forseti, að miklu máli skipti að þessari stofnun eins og öðrum sé sýnd fyllsta virðing af hálfu þingsins.

Í gær barst sú stofnun til tals með þingheimi og hæstv. forseti sagði eftirfarandi orð þegar menn töluðu um virðingu þingsins, með leyfi forseta:

,,Forseti veit ekki hvort hann getur tekið undir það að um virðingu þingsins sé að tefla þegar við erum að tala um skýrslu frá Samkeppnisstofnun.``

Herra forseti. Ég tel að með þessum hætti hafi hæstv. forseti vikið með niðrandi hætti að þessari stofnun. Ég vil ekki að hann geri það sem oddviti minn í þessum sölum og þess vegna fer ég fram á, herra forseti, að þessi ummæli verði dregin til baka.