Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 12:38:58 (8303)

2001-05-19 12:38:58# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. er til 3. umr. Ég hef áður vikið að því að málið sé afar illa undirbúið. Þetta er slíkt stórmál sem snertir svo mjög almannaheill hvarvetna á landinu að það hefði átt að fá betri undirbúning, bæði meðferð af hálfu ríkisstjórnarinnar áður en hún lagði það fram og síðan í þinginu. Ég hef gagnrýnt það og hef talið að það væri í rauninni fjarri því að málið væri tilbúið til afgreiðslu.

Eins og komið hefur fram í síðari hluta umræðnanna um þetta mál er þetta ekkert síður efnahagslegs, viðskiptalegs og peningalegs eðlis. Það er hin hliðin á málinu. Við höfum fjallað um þjónustuhlutverkið, við höfum fjallað um tæknilegar forsendur og við höfum fjallað um það hversu mikilvægt það er að þjónustan nái til allra landsmanna. En hin efnahagslega, viðskiptalega og pólitíska hlið er sú sem rekur þetta mál áfram.

Í þeim umsögnum sem samgn. fékk á sínum nauma tíma í meðferð málsins hefur komið ítarlega fram að það er fjarri því að fullkomin samkeppni sé á þessum markaði sem geti gefið örugga þjónustu um allt land. Einnig hefur komið fram að það er í mjög veigamiklum atriðum mikil mismunun í aðgengi á þjónustu eftir búsetu og líka hvað verð varðar. Ekki einu sinni í dag er staðan með þeim hætti sem að hefur verið stefnt og talin nauðsynleg til að samkeppnisstaðan væri jöfn hvar sem væri á landinu sem er markmið þannig að ekki eru þær forsendur fyrir hendi til að selja fyrirtækið eins og hér er gert ráð fyrir.

Nei, herra forseti. Ástæðurnar eru fyrst og fremst pólitískar. Ég held að menn eigi að viðurkenna það enda hefur það komið fram æ skýrar í umræðunni að þetta eru fyrst og fremst pólitískar ástæður. Þetta byggir á stefnu þessarar ríkisstjórnar að einkavæða skuli allt sem hægt er, sérstaklega það sem lýtur að almannaþjónustu. Menn eru að einkavæða hluta í heilbrigðisþjónustunni, í öldrunarþjónustunni. Þar tala menn orðið um öldrunariðnaðinn sem þurfi að skila meiri arði í þjóðarbúið og hafa fundið ýmsar leiðir til þess sem hafa þó gefist afar illa eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur rækilega bent á, t.d. um Sóltúnsheimilið sem var fyrst ein af stærstu tilraunum ríkisstjórnarinnar til að fara að einkavæða það sem þeir kölluðu öldrunariðnaðinn til að fá þar aukinn arð. Það er verið að fara í menntakerfið þrátt fyrir það að flokkur eins og Framsfl. segi að þetta sé alls ekki á stefnuskrá sinni, þá er samt alveg sjálfsagt að einkavæða þar með þeim hætti eins og núna er fyrirhugað í Hafnarfirði. Að því er ég best veit er mikil óeining þar núna og ótti um að þar verði mikil mismunun á ferðinni milli skóla, milli barna í þessari nýju tegund menntunar. Þetta er því pólitísk stefna sem byggir ekki á umhyggju fyrir almenningi og almannaþjónustunni og því að þar skuli allir vera jafnir. Nei, eins og fram kemur og hefur verið bent á í nál. meiri hluta samgn. er sérstök ástæða eftir að hafa farið í gegnum og verið með þennan mikla doðrant frá einkavæðingarnefnd, sem á að lýsa því að allt sé orðið tilbúið til einkavæðingar, að þrátt fyrir þann skamma tíma sem samgn. hafði málið til meðferðar komst hún þó að raun um að því fór fjarri að staðan væri sú að málið væri tilbúið, að þessi almannaþjónusta væri tilbúin til að fara á torg markaðarins, á torg mammons, þar sem menn hugsuðu einungis um að fá arð af fé sínu. Það yfirklór er gert í nál. að fara þess á leit við samgrn. að í samstarfi við samgn. verði á þessu ári unnin úttekt og og aðgerðaáætlun til að bæta þar úr brýnasta vanda, brýnustu og mestu mismununinni sem í gangi er.

[12:45]

Það er þó virðingarvert að meiri hluti hv. samgn. skuli viðurkenna og sýna í litlu í nefndaráliti sínu að þarna sé hætta á ferð, eftir að hafa fjallað mánuðum saman um þetta frv. ríkisstjórnarinnar, þetta frv. til laga um sölu á hlutafé í Landssíma Íslands, eftir að hafa tíundað allar þær skýrslur og tilvitnanir sem gætu verið málinu til framdráttar.

Svo vikið sé að hinni pólitísku hlið sem drífur þetta mál áfram þá ber helst að nefna stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur einnig sett sér almenn markmið með einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum. Þau koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. frá 23. apríl 1995, með leyfi forseta:

,,Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum eru forsenda framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis.``

Þessi ríkisstjórn hefur einmitt haft einkavæðingu að leiðarljósi. Það var eitt meginmarkmið í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvernig ætli henni hafi reitt af, t.d. við að ná jafnvægi og efnahagslegum stöðugleika?

Herra forseti. Það er mjög hógvært sem sagt er í Morgunblaðinu í dag, að ýmis hættumerki séu í íslensku fjármálakerfi. Síðan eru rakin mörg hættumerki. Það hefur hægt og bítandi síast inn í huga og vitund þeirra sem málum stjórna hér á landi að menn séu á rangri leið.

Hefur náðst árangur í lækkun vaxta? Þeir sem halda því fram hefðu átt að heyra umræðuna um vexti og verðbætur í gær á hinu háa Alþingi. Þar var einmitt verið að ræða um það hrikalega ástand sem er í þjóðfélaginu vegna hárra vaxta. Vextir eru að sliga heimilin, vextir eru að sliga atvinnurekstur en samt eru vextir eina ráðið sem menn hafa í stjórnun peningamála. Við sjáum hversu mikill stöðugleiki er í peningamálunum þegar ganga þarf fram með þeim hætti að vaxtastefna ríkisstjórnar er í sjálfu sér að ríða efnahag heimila og margra fyrirtækja að fullu. Stefna ríkisstjórnarinnar í einkavæðingu á undanförnum árum hefur þvert á móti skilað óstöðugleika sem reynt er að halda niðri með háum vöxtum. Þetta eru einungis einkenni sjúks efnahagsástands og efnahagsstefnu.

Við skulum líta á fleiri atriði sem sett eru sem markmið og hefur reyndar verið farið í áður í umræðunni. Það er mikilvægt að fara í gegnum meginforsendurnar fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Í raun væri fyllilega ástæða til að þeir ráðgjafar ríkisstjórnarinnar, sem hafa gefið henni þessi ráð og lagt henni í hendur þær fullyrðingar sem tíundaðar eru sem markmið með einkavæðingu og hvernig hún skuli helst framkvæmd, skýrðu og færðu rök fyrir máli sínu. Það ætti að krefjast þess.

Þeir segja t.d. að eitt af markmiðum einkavæðingar sé að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu. Markaðsöflin eru alla jafna trygg fyrir skynsamlegri nýtingu framleiðsluþáttanna en ekki ríkisafskipti. Þetta þarf að skýra miklu betur, herra forseti.

Lítum á fréttina í Morgunblaðinu í dag sem ég var að vitna til, herra forseti. Óhóflegur viðskiptahalli og útlánaaukning ógna stöðugleika fjármálakerfisins, segir þar. Loksins kemur þetta með stórri fyrirsögn á prenti. Loksins. Ég vil leyfa mér að vitna í upphaf þessarar greinar, með leyfi forseta:

,,Óhóflegur viðskiptahalli og útlánaaukning undanfarinna missira, sem stuðlað hefur að umtalsverðri gengislækkun á síðustu mánuðum, ógnar nú stöðugleika fjármálakerfisins, að því er fram kemur í nýjasta hefti Peningamála sem Seðlabankinn gefur út.``

Er þetta stöðugleikinn sem einkavæðingin átti að færa okkur og ég var að vitna til áðan? Markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. frá árinu 1995 er efnahagslegur stöðugleiki. Hún er búin að sitja æðilengi og stefndi að því að ná efnahagslegum stöðugleika og jafnvægi í ríkisfjármálum. Er það efnahagslegur stöðugleiki sem þarna er verið að lýsa? Er það árangur þessarar ríkisstjórnar? Nei, herra forseti, það er einmitt þveröfugt. Meginmarkmið hennar hefur verið einkavæðing og aftur einkavæðing. Með því að einblína á einkavæðingu og sölu á ríkisfyrirtækjum hefur verið látið hjá líða að styrkja og efla grunnatvinnuþætti þjóðarinnar. Orkan hefur farið í að ná samkomulagi um og finna út með hvaða hætti mætti selja eignir ríkisins á verði sem gæti verið þóknanlegt almennum fjármagnsmarkaði, fjármagnsmarkaði sem núna er í þessum hremmingum.

Í markmiðum ríkisstjórnarinnar er talað um að það sé svo gott að auka sparnað og látið að því liggja að fjöldi fólks bíði núna eftir því að fá að kaupa hlutabréf í Landssímanum. Það má vel vera, herra forseti, að einhver geri það en ætli það sé líklegt að þeir, sem fjallað er um í kjölfar upplýsinga úr síðasta hefti Peningamála sem Seðlabankinn gefur út, kaupi bréfin? Er líklegt að hlutabréfin verði keypt á heimilum sem Morgunblaðið minnist á undir millifyrirsögninni Hlutdeild skammtímalána einstaklinga hafa farið vaxandi, með leyfi forseta:

,,Íslensk heimili eru orðin einhver þau skuldsettustu í heimi og hafa skuldir þeirra sem hlutfall af ráðstöfunartekjum aukist jafnt og þétt frá í byrjun 9. áratugarins.``

Það er ekki ég sem held þessu fram, herra forseti. Þetta er tilvitnun í umfjöllun Morgunblaðsins um upplýsingar sem koma fram í ritinu Peningamál, sem Seðlabankinn gefur út. Þetta er dómurinn yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. allt frá árinu 1995, eða hvenær það var sem hún kom til valda. Þetta er dómurinn yfir stjórninni við bestu ytri skilyrði sem við höfum búið við. En vandi þeirra hefur verið þetta eina auga sem þeir hafa í enninu sem aðeins sér þann kost að selja ríkisfyrirtæki, selja og selja og einkavæða almannaþjónustu í stað þess að byggja upp og hlúa að blómlegu atvinnulífi.

Ég vitna þá aftur í áðurnefnda grein í Morgunblaðinu frá því í morgun:

,,Á síðasta ári jukust skuldir heimilanna enn frekar og fóru úr 146% af ráðstöfunartekjum í 163%. Þetta hlutfall er nú orðið hærra en það varð t.d. hæst í Noregi áður en fjármálakreppa skall þar á snemma á síðasta áratug.``

Er líklegt að það fólk, sem býr við þessa háu vexti og er með þessa skuldastöðu, bíði í biðröð eftir að kaupa hlutabréf á eðlilegu raunverði? (JÁ: Nei, það verður að lækka það.) Já, það er alveg hárrétt, herra forseti, sem hv. þm. Jóhann Ársælsson segir. Það er ekki hægt að selja hlutabréf í Landssímanum á raunverði. Það kom skilmerkilega fram hjá þeim fáu sérfræðingum á sviði peningamála sem komu fyrir samgn. Þeir sögðu að það skiptir öllu máli að hlutabréfin yrðu ekki verðlögð of hátt. Þau yrðu að verðleggjast lágt. Og meira en það, þau yrði að bjóða til sölu --- ég hef skrifað þetta hjá mér, herra forseti og þessar tölur voru nefndar --- á 15--25% undir áætluðu raunverði ættu þau gætu verið hugsanlegur kostur fyrir einstaklinga að kaupa þannig að þeir gætu séð hagnaðarvon í því. Sú var staðan og þetta er staðan í dag. Það að ráðast í sölu nú, út frá stöðunni í peningamálum, er fjarstæðukennt og við ættum miklu frekar að ræða um það hvernig búa megi íslensku atvinnulífi stöðugra, öruggara og framsæknara umhverfi en gert er með þessari einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Eina markmið hennar er að selja almannaþjónustu með þeim árangri að loksins nú, kannski af því að Seðlabankinn hefur fengið þetta sjálfstæði sem talað hefur verið um, segir að ástandið sé mjög alvarlegt.

Ég vil áfram vitna til þess sem fram kemur í greininni, sem er dómur yfir þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur fylgt í efnahagsmálum.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar á þessari truflun en það er ráðgert að gera hlé á fundinum, matarhlé í hálftíma, og spyr hv. þm. hvort það henti nú eða á næstu mínútum að hann geri hlé á ræðu sinni.)

Herra forseti. Þá lýk ég þessari tilvitnun sem ég var byrjaður á og svo gerum við hlé.

Í grein Morgunblaðsinis um þessa einkunn sem Seðlabankinn er nú að gefa ríkisstjórninni og varnaðarorð hans til hennar segir jafnframt, með leyfi forseta:

,,Á sama tíma hefur geta fjármálakerfisins til þess að standa af sér erfiðar aðstæður minnkað, sem fram kemur í verri afkomu og lækkandi eiginfjárhlutfalli. Þá kemur fram að það sé eðli fjármálakreppna að þær geti dunið yfir án þess að gera boð á undan sér, líkt og gerst hefur í nágrannalöndunum og víða um heim.``

Herra forseti. Það er ekki ég sem er að tala um yfirvofandi fjármálakreppu. Ég vil taka það skýrt fram. Ég er að vitna í umfjöllun um varnaðarorð Seðlabanka Íslands sem virðist hafa öðlast aukið sjálfstæði til að tala tæpitungulaust um stöðuna í efnahagsmálum. Ég hef verið að lýsa þeirri stöðu og mun lýsa henni betur síðar í ræðu minni. Seðlabankinn fellir þungan dóm yfir ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sem hefur haft það að meginmarkmiði sínu að selja ríkisfyrirtæki og einkavæða almannaþjónustu. Þetta hefur verið meginþátturinn í efnahagsstefnu hennar. Ríkisstjórnin hefur búið við einna bestu ytri aðstæður sem um getur en samt er staðan eins og við höfum lýst. Halda menn síðan að fólk sem svo illa er sett bíði í biðröðum eftir því að kaupa hlutabréf í Landssíma Íslands?