Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:17:13 (8320)

2001-05-19 14:17:13# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna það að þegar samkeppnislögin voru sett á sínum tíma var það að samkomulagi eftir meðferð frumvarpsins í efh.- og viðskn. að gerð yrði skýrsla um eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Fyrsta skýrslan sem stofnunin gerði kom út árið 1994 eins og hér er dregið fram. Á sínum tíma gagnrýndi ég þá skýrslu fyrir að þar væri sleppt allri umfjöllun um umsvif ríkisins í atvinnulífinu. Þess vegna finnst mér sú skýrsla sem hér liggur fyrir miklu betri þar sem mjög vel er dregið fram og kemur reyndar í ljós að ríkið hefur afar mikið að gera í atvinnulífinu. Þess vegna tel ég að það styðji mjög þau einkavæðingarfrumvörp sem hér liggja fyrir að verið sé að draga úr umsvifum ríkisins í atvinnulífinu. Það kemur líka fram að þessum umsvifum ríkisins fylgir mikil hætta, þ.e. að þeir sem eru að setja leikreglurnar á markaðnum séu jafnframt að gæta hagsmuna fyrir einn af leikendunum, þ.e. ríkisfyrirtækin, og að þetta skapi tortryggni í samskiptum einkaaðila og aðila í eigu ríkisins. Ég tel því að þessi skýrsla sé mjög gagnlegt innlegg í umræðuna.

Annað sem kemur þarna fram er vöxtur lífeyrissjóðanna sem var mjög athyglisverður. Það er ekkert nýtt sem kemur um viðskiptablokkirnar. Það er nýtt sem kemur fram um eignarhaldsfélögin erlendis og ég held að sé atriði sem sé mjög umhugsunarvert fyrir okkur þingmenn að velta fyrir okkur. En síðan hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson mikinn áhuga á 40% fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem er jafnt um allt þjóðfélagið, hvort sem er í forustusveit í atvinnulífinu eða annars staðar. Ég þekki marga ágæta samfylkingarmenn og marga ágæta framsóknarmenn og jafnvel vinstri græna sem eru í forustu í atvinnulífinu. Ég tel nauðsynlegt að forustumenn í atvinnulífi séu í mörgum flokkum vegna þess að það hefur afar góð áhrif á þá flokka.