Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:48:53 (8337)

2001-05-19 14:48:53# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að þetta er bara annað árið mitt á þingi og ég er því ekki svo kunnugur vinnubrögðunum. En ég var í miðri ræðu um hádegisbilið þegar gert var matarhlé og vissi þá að til stóð að atkvæðagreiðsla og utandagskrárumræða ætti að vera að hádegisverðarhléi loknu og var búinn að búa mig undir það og gera ráð fyrir því. En síðan verð ég að viðurkenna að framhaldið kom mér alveg í opna skjöldu, ég hélt ég ætti að fá að halda áfram með ræðu mína. Ég sit líka í samgn. og þá allt í einu er komið með mál úr samgn. og farið að mæla fyrir því, sem ég hef verið með fyrirvara á og þurfti líka að taka til máls um það. Ég, sem var þar undirbúinn undir að halda áfram með ræðu mína, þurfti því að fara að hlaupa og ná í önnur gögn. Það var ekki einu sinni svo vel, ég var þá kominn á mælendaskrá til að ræða það en síðan var það mál aftur tekið út af dagskrá.

Herra forseti. Lái mér hver sem vill, en ég skil ekki svona vinnubrögð og mundi aldrei sjálfur vilja standa að því að vera með slík vinnubrögð eins og hér viðgangast. Þetta er engum til ... (HBl: Þetta var ekki siður á Hólum.) Þetta var ekki siður á Hólum, nei. (HBl: Menn þurfa að hafa tölvuheila til þess að geta fylgst með.) Ég er alveg reiðubúinn að fara aftur með hæstv. forseta Alþingis sem var ágætis landbrh. á sínum tíma og ganga með honum um Hólastað og koma honum aftur til betri vegar, þannig að hann geti leitt okkur í sátt og samlyndi í gegnum þinghaldið, a.m.k. þau lok sem hér eru fram undan.

(Forseti (GuðjG): Enn biðja menn um orðið til að ræða fundarstjórn forseta. Hér hefur nú verið kvartað yfir að mörg mál séu á dagskrá í dag og forseti bendir á að ef við ætlum að ræða fundarstjórn forseta lengi dags, þá verður minni tími fyrir öll dagskrármálin.)