Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:01:49 (262)

2000-10-10 14:01:49# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að töluvert mikið átak hefur verið gert í því að byggja upp flugvelli víða um landið. En það sem verið er að hefja máls á hér er að kannski væri skynsamlegt að nota þessa flugvelli fyrir flugvélar til lendinga en ekki sem æfingavelli fyrir fótbolta eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.)

Það er líka mikilvægt atriði að það útboð sem er í gangi núna takist vel vegna þess að ljóst er að það hefur veruleg áhrif á hvernig innanlandsflugið mun þróast á næstu missirum. Út úr því þarf að koma að við þurfum á minni flugfélögum að halda í samkeppni við stóra bróður, Flugfélag Íslands, og til þess að þjóna hinum minni stöðum, ekki með níu sæta vélum eins og var fyrir 20 árum, heldur kannski 19 sæta vélum. Ég vek athygli á því að inn í þetta blandast að sjálfsögðu sjúkraflugið.

Hins vegar er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að flugmiðaskatturinn svokallaði sem á að gefa ríkissjóði tæpar 60 millj. á næsta ári er íþyngjandi fyrir flugrekendur á Íslandi og þessi flugmiðaskattur leggst miklu þyngra á litlu flugfélögin og litlu flugvélarnar. Hlutfallslega leggst hann miklu þyngra á þær og það er það sem flugfélögin eru að kvarta yfir í dag og það getur einmitt gert það að verkum að ef til vill verða miklu færri aðilar sem bjóða í flugið nú en annars hefði verið. Það er óhæfa sem hér er að gerast að hæstv. ríkisstjórn skuli seilast ofan í vasa þeirra sem nota flug og þurfa að nota flug og ná þangað í 60 millj. í ríkissjóð.

Herra forseti. Ég ítreka í lokin spurningu mína til hæstv. samgrh. um það hvort verið sé að vinna að einhverri heildstæðri samgönguáætlun fyrir landsbyggðina, bæði hvað varðar innanlandsflug og áætlunarferðir milli staða í tengslum við innanlandsflug.

Að lokum vil ég þakka hæstv. samgrh. fyrir og þeim öðrum þingmönnum sem hafa tekið til máls um þennan mikilvæga þátt.