Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:00:10 (277)

2000-10-10 15:00:10# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit satt best að segja ekki hvað skoðanaskipti við hv. þm. á þessum nótum hafa mikið upp á sig. Að sjálfsögðu má fara yfir það hvort hægt sé að orða hluti af þessu tagi skýrar og betur ef einhver vilji er til að vinna sameiginlega að slíku. Ég les það ekki út úr ræðuhöldum hæstv. utanrrh. hér áðan og þaðan af síður hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að þetta snúist bara um að skýra aðeins betur með nákvæmara orðalagi hvert verið er að fara. Ég held að það liggi pólitískt nokkuð skýrt fyrir. Ef hv. þm. hefði nokkurn áhuga á því að taka orðskýringar mínar hér sem 1. flm. þessa máls gildar en væri ekki í endalausum útúrsnúningum og orðhengilshætti, þá held ég að það tæki okkur ekki langa stund að útkljá nákvæmlega hvert er verið að fara þarna. Hafi hv. þm. uppástungur um heppilegra orðalag, þá er ég að sjálfsögðu opinn fyrir þeim, sérstaklega ef þær væru settar fram á þeim nótum að ég skynjaði þar vilja til jákvæðrar og uppbyggilegrar umfjöllunar um málið. Það geri ég hins vegar ekki út frá þessum ræðuhöldum.

Ég hefði líka talið mjög gaman og gagnlegt ef, í staðinn fyrir þetta innlegg hér af hálfu Samfylkingarinnar í málið, eitthvað hefði komið fram um afstöðu Samfylkingarinnar í aðalatriðum í þessum efnum. Ef við hefðum fengið hérna inn í umræðuna leiðsögn um það. Telur Samfylkingin að það væri til bóta að reyna að skýra stöðu Íslands, eins og tillagan gengur út á, með vinnu af þessu tagi til næstu ára? Telur Samfylkingin núverandi óvissuaðstæður í þessum efnum góðar? Ef svo er, hvers vegna þá? Er það vegna þess að Samfylkingin geti ekki sagt hug sinn allan t.d. í Evrópumálunum og verði að pakka honum inn í endalausan silkipappír orðalags af því tagi að það verði að skoða þetta og athuga hitt? Við erum að tala um að reyna að vinna okkur frá slíku ástandi með því að móta útlínur fyrir þróun þessara mála næstu árin með því að Ísland haldi sjálfstæðri stöðu sinni, en rækti góð samskipti í allar áttir.