Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:24:11 (393)

2000-10-11 15:24:11# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vildi vera viðstaddur umræðu um þessa ágætu þáltill. sem ég tel prýðilega. Ég vil þó segja það við þessa umræðu segja að á mörgum sviðum sker Ísland sig úr. Eitt sem blasir við íslenskum neytendum og sem kannski hefur gefið okkur færi á erlendum mörkuðum eru afbragðs vörur framleiddar við bestu skilyrði. Margar okkar vörur jaðra auðvitað á mörgum sviðum við að vera vistvænar eða lífrænar, lambakjötið t.d. sem mér skilst að Bandaríkjamenn vilji kaupa og þessi takmarkaði markaður fólks sem leitar eftir hreinum og öruggum vörum metur þessar vörur í d ag eins og lífrænt ræktaðar. Íslenski neytandinn býr við þær einstöku aðstæður að eiga völ á þessum vörum sem íslenskur landbúnaður framleiðir hér á norðurslóðum. Þetta er auðvitað nokkuð dýr matvælaframleiðsla og kannski er ein ástæðan sú, samanber það sem hv. þm. minntist á varðandi bóndann sem fær þrefalt hærra verð fyrir sínar lífrænu kartöflur, að markaðurinn er kannski svolítið tregur þegar hann getur fengið mjög góðar, nánast alveg öruggar og vel ræktaðar kartöflur á lægra verði.

Hins vegar er það alveg rétt sem fram hefur komið í umræðunni að kannski af þessum ástæðum er neytendamarkaðurinn hér hvorki mjög vanur þessari umræðu né upptekinn af henni því bæði hvað bændur varðar og neytendur þá er áhuginn ekki mikill, því t.d. samkvæmt búnaðarlögum eru veittar 5 millj. í styrk til bænda, en aðeins var sótt um 3,7 á síðasta ári.

Ég vil taka undir að við þurfum að vera með í þessari þróun. Íslendingar geta komið þarna sterkir inn í baráttunni fyrir hreinum matvælum, þess vegna lífrænum. Þó verðum við að minnast þess að við búum á norðurslóð því krafan er sú að nota ekki tilbúinn áburð. Við erum að vísu að framleiða hér geysilega góðan tilbúinn áburð sem ætti auðvitað að viðurkenna að einhverju marki til notkunar.

Ég fagna þeirri byltingu sem er að fara yfir heiminn í þessu efni. Ég tel hana mjög mikilvæga. Sá hópur fólks sem gerir kröfur um lífræna ræktun hefur áhrif á umgengni við náttúruna, á meðferð á dýrum um alla veröld, berst gegn verksmiðjubúskap og hinni blindu og grimmu markaðshyggju sem víða einkennir landbúnað.

Sem betur fer búum við Íslendingar smátt og fagurt og þess vegna stöndum við nokkuð vel að verki. Ég tek undir þessa þáltill. og vil auðvitað sjá að bæði verði þessi viðhorf kynnt í landbúnaðarskólanum og að bændur landsins átti sig á því að þetta er ný bylgja sem er að ganga yfir sem er íslenskum bændum og öllum heiminum mjög mikilvæg. Þess vegna vil ég sem landbrh. styðja svona hugsun og fylgjast náið með henni.