Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:24:10 (628)

2000-10-17 14:24:10# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti satt að segja von á þessu andsvari frá hv. þm. og gerði ráð fyrir því að hann kæmi hér með slíka ræðu. Auðvitað má skipa stjórnir með ýmsum hætti. Við þekkjum það að stjórnir eru ráðgefandi. Stjórnir eru annaðhvort skipaðar án tilnefninga af ráðherrum eða öðrum aðilum eða eftir tilnefningum þar sem kallaðir eru til skrafs og ráðagerða fulltrúar starfsmanna, fulltrúar hagsmunaaðila eða sérfróðir aðilar í málum. Það er stjórn af því tagi sem ég var að nefna áðan til sögunnar, og oft hefur forstjóri viðkomandi stofnunar, ég tala nú ekki um ráðuneyti þegar það á í hlut, gott af því að láta ferska vinda blása um æðstu stjórnir þeirrar stofnunar en bein lína milli ráðherravalds og einstaks forstjóra þurfi ekki vera þar óslitin.

Hitt er síðan það sem hv. þm. vakti sérstaklega athygli á að hann hefur verið með þá skoðun sína að Alþingi eigi hvergi að komi nærri því að kjósa til stjórna, nefnda og ráða og hefur einnig endurtekið það hér margsinnis að það þýði að viðkomandi ráðherra verði þar ábyrgðarlaus. Ég held að þetta sé alger útúrsnúningur í málflutningi hans.

Við skulum ekki gleyma því að ráðherrar eru líka hér samkvæmt ábyrgð Alþingis og valdir af þingmeirihlutanum og starfa undir forsjá og eftirliti Alþingis, þannig að það breytist ekki neitt. Þessu eftirlitshlutverki er skipt meðvitað þegar Alþingi er að kjósa sér sína trúnaðarmenn í stjórnir, nefndir og ráð og hver hefur reynslan verið? Hún er yfirleitt ólygnust, herra forseti, með þeirri nýbreytni mála sem hefur verið með þeim hætti sem ég lýsti áðan og er sérstaklega samkvæmt velþóknun hv. þm. Péturs Blöndals. Veikleiki Alþingis gagnvart viðkomandi stofnunum, upplýsingum þaðan og stjórnun allri hefur stórlega aukist og það er öfugþróun.