Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:00:32 (656)

2000-10-17 16:00:32# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Vissulega eru þetta erfið mál og viðkvæm og þyngri en tárum taki. Ég efast ekki um góðan tilgang hv. flutningsmanna þessa frv. en sé hins vegar ekki annað en að niðurstaðan virki öfugt við ætlun þeirra. Með samþykkt frv. væri tekið upp það fyrirkomulag sem áður var með tvöfaldri skýrslutöku framkvæmdarvalds og dómsvalds. Ég skal skýra það betur.

Það hlýtur að vera mat dómarans hver er trúverðugur. Það er erfitt að meta eftir lögregluskýrslu sem tekin er áður, jafnvel alllöngu áður. Ég bendi líka á að þetta getur stangast á við mannréttindasáttmála Evrópu um milliliðalausa sönnunarfærslu þar sem vitnin þurfa auðvitað að tala fyrir og við dómara. Fyrirkomulagið mundi og stangast á við 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.``

Herra forseti. Ég efast um að segulbandsupptökur gildi í því. Dómari þarf sjálfur að tala við málsaðila og hann er sjálfstæður í sínum ákvörðunum. Yrði, samkvæmt ætlun flutningsmanna þessa frv., horfið til fyrra fyrirkomulags þannig að lögreglan tæki skýrsluna er heldur ekki hægt að binda það í lög, lögreglan ræður sjálf hvar hún tekur skýrslur. Tilraunir til þess að nota Barnahúsið stöðvast alltaf á því að menn eru sjálfstæðir í störfum sínum. Barnahúsið er ágætt, það er prýðilegt og ég vona að dómarar og lögregla noti það sem oftast. En við getum ekki skyldað dómendur til að nota það og heldur ekki lögregluna.

Ég get því ekki séð annað en að frv. feli það fyrst og fremst í sér að hverfa til fyrra fyrirkomulags um tvöfalda skýrslutöku. Að því leyti er það ekki til bóta fyrir blessuð börnin sem eiga afar erfitt og þarf ekkert að útskýra það eða lýsa því. Þannig að frv. er frekar flutt fyrir fasteign en lifandi fólk, frekar fyrir Barnahúsið en börnin. Ég endurtek að það er ábyggilega ekki ætlun flutningsmanna en niðurstaðan hlýtur að vera sú.

Herra forseti. Dómstólaráð gaf út leiðbeinandi reglur. Flutningsmenn ætlast annars vegar til þess að löggjafinn hafi óeðlileg afskipti af dómsvaldinu, þ.e. nánast að skikka þessi mál, rannsókn þeirra og dómsmeðferð inn í Barnahúsið. Það væri ekki gott því að aðalreglan er sú að dómari skal halda dómþing í dómsal. Hann má víkja frá því við sérstakar aðstæður en --- það athugist --- eftir eigin ákvörðun. Hann er sjálfstæður í störfum sínum og ekki eðlilegt að löggjafinn og heldur ekki framkvæmdarvaldið skikki hann til þess. Því er eðlilegt að reyna á þessar leiðbeinandi reglur dómstólaráðs og sjá hvort Barnahúsið verður ekki áfram notað þannig að það sanni gildi sitt fremur en að við samþykkjum það sem hér er lagt til. Ég lýsi mig mótfallinn því. Löggjafinn væri að blanda sér í aðra grein hins þrískipta valds, dómsvaldið.