Umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:10:22 (721)

2000-10-18 14:10:22# 126. lþ. 13.2 fundur 39. mál: #A umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Svör ráðherra sýna máttleysi og stefnuleysi og það er hörmulegt til þess að vita að ekki skuli koma fram frá hæstv. ráðherra þættir sem gætu bætt stöðu í umferðarmálum, hugmyndir eins og um bætta ökukennslu, bætta vegi í þéttbýli, færa upp bílprófsaldur og ýmsar aðgerðir sem er hægt að hugsa sér í stefnumótun sem þyrfti að vera.

Hæstv. ráðherra hefur valdið vonbrigðum í sínu starfi. Það er einungis tvennt sem stendur upp úr sem hún hefur afrekað á sínum ferli. Annað er hið rándýra salerni sem hún innréttaði í ráðuneytinu og hitt eru blaðamannafundir um lítil efni með borðalögðum lögreglumönnum sem þar standa heiðursvörð. Það er dauðans alvara sem hér er verið að ræða um, þ.e. mikla aukningu á banaslysum í umferðinni, og það er til vansa, hæstv. forseti, að ráðherrann sem fer með málaflokkinn skuli ekki leggja fram skýrari hugmyndir um umbætur í þessum efnum.