Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:47:33 (737)

2000-10-18 14:47:33# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur: ,,Ríkisstjórnin vill auka veg menntunar og rannsókna sem eru forsenda fyrir nýsköpun í atvinnulífinu.``

Enn fremur stendur þar:

,,Að treysta undirstöður byggðar í landinu í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um það efni.``

Í þál. um byggðamál stendur:

,,Unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni.

Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám.

Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins.``

Herra forseti. Í mars 1999 voru samþykkt ný lög um búnaðarfræðslu þar sem verksvið menntastofnana landbúnaðarins var gert mun víðtækara og metnaðarfyllra en áður, til að standa ,,í fremstu röð á nýrri öld``. Hvanneyrarskólinn var formlega gerður að háskóla og Hólaskóli og Garðyrkjuskólinn fengu aukið verksvið sem sérhæfðar rannsóknar- og menntastofnanir. Gerðir hafa verið árangursstjórnunarsamningar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Hólaskóla þar sem aðilar stefna að því að fylgja eftir áformum um eflingu þessara stofnana á metnaðarfullan hátt. Við þessar stofnanir landbúnaðarins starfa hópar, tugir sérhæfðra starfsmanna. Starfsmenn með hæstu menntunargráður. Starfsemi þeirra lýtur ekki einungis að kennslu og endurmenntun heldur víðtæku rannsóknar- og þróunarstarfi. Þar er ekki einungis unnið á innlendum vettvangi heldur eru þessar stofnanir allar í víðtæku alþjóðlegu samstarfi í menntun og rannsóknum. Allar eru þessar stofnanir með höfuðstöðvar sínar á landsbyggðinni og ekki einungis með fjölþættum verkum heldur einnig með því sterka vísindasamfélagi sem er á þessum stöðum hafa þar víðtæk áhrif ekki aðeins út í nærumhverfi sitt heldur margfeldisáhrif út um allt dreifbýli á Íslandi.

Árangursríkar aðgerðir í byggðamálum lúta ekki hvað síst að því að efla þá starfsemi sem fyrir er. Ekki síst þá sem getur miðlað styrk, þekkingu og ráðgjöf út í samfélagið. Fjárveitingar til Landbúnaðarskólans á Hvanneyri, Hólaskóla og Garðyrkjuskólans eru skornar beint niður miðað við fyrri ár. Svo er einnig með Landgræðsluna. Skógrækt ríkisins er með uppsafnaðan halla frá fyrri árum sem fjárveitingar í ár munu ekki brúa.

Í anda stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, ályktunar Alþingis í byggðamálum, metnaðarfullra laga og árangursstjórnunarsamninga hefur maður búist við að sjá þessu fylgt eftir í verki með auknum fjárveitingum og flutningi verkefna til þessara stofnana en því miður eru fjárframlög þeirra skert. Því spyr ég hæstv. landbrh.:

1. Er niðurskurður fjárveitinga til menntastofnana landbúnaðarins á Hvanneyri, Hólum og Reykjum og til Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti og Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum til marks um stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar?

2. Hvernig samræmist það áherslum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og markmiðum nýrra búnaðarlaga að skerða fjármagn til þessara stofnana landbúnaðarins sem allar starfa á landsbyggðinni --- og sem eru stærstu háskóla- og vísindasamfélög sem starfa utan stórþéttbýlanna í Reykjavík og á Akureyri?