Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:24:27 (756)

2000-10-18 15:24:27# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrst varðandi fyrirspurn hv. síðasta ræðumanns um hámarksstærðina þá kemur einmitt fram í svari mínu sem ég hef frá Hafrannsóknastofnun að þessi svokallaða hámarksstærð er ekki endilega algjörlega hárétt og ábendingar eru um að hnúfubaksstofninn sé kominn jafnvel fram yfir það sem menn a.m.k. áður töldu vera hámarksstærðina og að ekkert linni vexti í þeim stofni. Það getur sjálfsagt verið eitthvað breytilegt hver hámarksstærðin er.

Það er vissulega rétt eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að þessar upplýsingar eru mjög mikilvægt innlegg í umræðuna um hvalveiðar og auðvitað þegar við vonandi komum að ákvarðanatöku um hvenær þær eiga að hefjast.

Ákvörðun um hvenær hvalveiðar eiga að hefjast hefur ekki enn þá verið tekin. Hins vegar er verið að vinna eftir ályktun Alþingis um að kynna afstöðu Alþingis Íslendinga til málsins og verið að undirbúa á margvíslegan hátt að ákvörðun verði tekin. Kynningunni miðar vel áfram á þann hátt að það hefur verið hægt að tala við marga aðila, stjórnmálamenn, embættismenn og fjölmiðlamenn. En það er hins vegar ekki hægt að segja að undirtektir við málstað okkar séu nokkuð betri en áður var.

Síðan er verið að vinna að sérstakri kynningu í Bandaríkjunum. Ég geri mér vonir um að hún verði okkur til framdráttar. Eins og sakir standa, á meðan kosningabaráttan þar stendur yfir, er ekki mjög þægilegt að vera með slíka starfsemi í Bandaríkjunum og þar af leiðandi er hlé á þeim undirbúningi. En þráðurinn verður síðan tekinn upp aftur þegar við vitum hver staðan verður í Washington næstu árin.