Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:13:56 (788)

2000-10-19 13:13:56# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:13]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var nú einmitt að benda á þetta dæmi, þennan skipstjóra sem fór að ná sér í 4 tonn af ýsu en þurfti að henda 20 tonnum af þorski um leið. Hann fór augljóslega á veiðislóð þar sem mjög erfitt var að ná ýsu --- hann valdi sér þorskslóð. Það er hægt að fylgjast með hve mikið menn eiga eftir af kvóta og menn vita hvar skipin eru og því er hægt að gera athugasemd við viðkomandi í tíma og láta hann vita að ekki sé hægt að ná þeim afla sem hann hefði yfir að ráða á þessari fiskislóð, miðað við veiðar annarra skipa í kring. En benti einfaldlega á að þetta er akkúrat dæmi um hve nauðsynlegt er að styrkja svona reglur.

[13:15]

Vissulega er alltaf erfitt að sanna að menn séu að henda fiski því að það þarf einhver að vera vitni, einhver þarf að kæra og það þarf að vera hægt að sanna það. Það hefur verið reynt, m.a. hafa verið teknar myndir með myndbandstökuvél þar sem menn sjá fiskinn koma út fyrir borðstokkinn. Reynt var að kæra en það gekk ekki. Dómsvöld taka ekki mark á því. Það er náttúrlega vandamálið við að hafa stjórn á þessu að sönnunarbyrðin er svo erfið. Þess vegna eru eftirlitsmenn kannski eina úrræðið sem menn geta haft og notað þannig að þetta virki.