Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:19:01 (791)

2000-10-19 13:19:01# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:19]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Kristjáns Pálssonar vil ég segja svo það valdi ekki misskilningi þegar hann vitnar í þetta lúðuveiðidæmi í Kanada, þá var það sóknarkerfi. Það vildi hins vegar svo til að í því sóknarkerfi voru menn alltaf fljótari og fljótari að ná aflanum, kerfið sem slíkt var ekki að minnka fiskstofnana eða rýra þá. Lúðuveiðin var alveg þokkaleg. Það var hins vegar alveg öfugt sem gerðist í Kanada í aflamarkskerfinu sem þeir tóku upp því að aflamarkskerfið við austurströnd Kanada varð til þess að þorskstofninn þar gjörsamlega hrundi. Þar hafði aflamarkið einmitt safnast á hendur mjög fárra fyrirtækja, stórra fyrirtækja, og þar varð afleiðingin sú að fiskveiðarnar gjörsamlega hrundu, að vísu voru fleiri atriði sem komu inn í það eins og skilyrði sjávar sem er auðvitað oft og tíðum stór þáttur í því hvernig fiskstofnum reiðir af.

Ég tek alveg undir það sem komið hefur fram hjá ræðumanni og ræðumönnum á hv. Alþingi að sjómenn vilja fara að lögum. Ég held að það sé ekki spurning að þeir vilji fara að lögum. Við höfum hins vegar alveg klárlega verið á undanförnum árum að ala upp sjómenn sem aldrei hafa kynnst fiskveiðum öðruvísi en taka þátt í brottkasti, því miður. Ég hef hitt unga menn og spurt þá hvort þeir hafi tekið mikinn þátt í brottkasti seinni árin. Þá hefur svarið verið: Þú átt við að við séum að velja úr aflanum. Það er það sem þeir kalla brottkast í dag. Þeir velja úr aflanum og finnst það orðið sjálfsagt.