Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:21:16 (792)

2000-10-19 13:21:16# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:21]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Við þekkjum það og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson örugglega manna best hér inni að brottkast hefur tíðkast alla tíð. Feður okkar, a.m.k. faðir minn sem var sjómaður, sóttu miðin til Grænlands eða til Bjarnareyjar eða annað á togurum á árum áður og miklum sögum fór af brottkasti á þeim veiðum. Verið var að veiða í salt og siglt með aflann og þá þurfti að veiða ákveðna tegund, þ.e. þorsk, og helst af ákveðinni stærð. Ef eitthvað annað kom með var því öllu hent og ég man eftir að á togurunum var hent öllum aukaafla sem kallaður var þá sem var nánast þessi skrapfiskur, nema karfinn var hirtur.

Ég er ekki viss um að við séum að afmóralísera sjómenn þó svo að eitthvert brottkast hafi orðið því umræðan um brottkastið hefur verið mjög mikil og á þann hátt að brottkast væri óæskilegt, verið sé að eyða verðmætum o.s.frv. Þessi verðmætahugsjón kom ekki inn í umræðuna fyrr en kvótakerfið varð til. Áður var aldrei talað um verðmæti, það var fyrst og fremst talað um magn. Að þessu leyti hefur umræðan batnað og ég held að skilningur sjómanna á því hvað sé rétt og rangt í þessu efni sé mjög skýr.

Varðandi þau kerfi, sóknar- og aflamarkskerfi, sem notuð voru í Kanada, þá hrundi aflamarkskerfið í sjálfu sér hjá þeim vegna þess að þeir fóru ekkert að ráðum fiskifræðinga. Gert var út á lúðuveiðina með sífellt meiri sókn þannig að það var alltaf auðveldara og auðveldara að ná þeim hámarksafla sem leyfður var og þess vegna fór þetta niður í einn dag.