Áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:36:36 (834)

2000-10-19 15:36:36# 126. lþ. 14.12 fundur 103. mál: #A áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun# þál., Flm. MS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Flm. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið þessa umræðu. En ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir jákvæð viðbrögð við þeirri tillögu sem hér var mælt fyrir og þykir mér vænt um að heyra að Frjálslyndi flokkurinn muni styðja hana.

Það er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem ég fór yfir í framsögu minni. Hv. þm. Guðjón Kristjánsson fór yfir nokkur atriði sem þessu tengjast og ég get svo sem tekið undir flest af því. Hann nefndi sjávarútvegsmálin og hefur kallað það eyðibyggðastefnu. Ég vil ekki alveg taka undir þá nafngift. En auðvitað er því ekki að neita að þróunin í sjávarútvegi á mörgum síðustu árum --- það má færa rök fyrir því að hún hafi ýtt undir byggðaþróunina að einhverju leyti þó svo að ég sé ekki alveg tilbúinn að samþykkja að kvótakerfið sem slíkt hafi valdið því. Það hefur verið mikil þróun í sjávarútvegi og við getum ekki útilokað að þróunin hefði að einhverju leyti getað orðið önnur ef við hefðum búið við öðruvísi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er ekki hægt að fullyrða um það.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir fyrir jákvæð viðbrögð við þessu máli af hálfu hv. þm.