Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:21:14 (859)

2000-10-19 17:21:14# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist eftir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals og verð að leggja hér orð í belg um þá ágætu till. til þál. sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram ákaflega merkilega till. til þál. þar sem gert er ráð fyrir að sett verði niður nefnd til að móta stefnu um hvernig eigi að gera menntun samkeppnishæfa á Íslandi. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga kemur fram er auðvitað sú að þá stefnu skortir hjá hæstv. menntmrh. Það er einfaldlega þannig að á svo ákaflega mörgum sviðum menntamála í dag höfum við ekki sýnilega stefnu. Nú er skýringin komin fram á því af hverju hæstv. menntmrh. hefur ekki haft tíma til að móta þá stefnu. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðu sinni áðan er hann svo önnum kafinn við að ryðja burt ef ekki vinstri sinnuðu fólki þá vinstri sinnuðum hugsunum.

Herra forseti. Hvenær hafa þær óæskilegu hugsanir rutt sér til rúms í menntakerfinu? Væntanlega á síðustu 15 árum. Hver er það, herra forseti, sem hefur farið með stjórn menntamála í 13 ár á síðustu 16 árum? Það er flokkur hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er því alveg ljóst að þær óæskilegu hugsanir sem hv. þm. Pétur Blöndal segir að hafi heft framgöngu íslenska menntakerfisins hafa verið gróðursettar undir forsjá þess flokks sem hv. þm. styður. Ég vísa þessu því algerlega til föðurhúsanna. Það er með engu móti hægt að afsaka stefnuleysi Sjálfstfl. í menntamálum með því að það sé í raun Samfylkingin eða vinstri menn sem ráði menntamálunum vegna þess að þeir séu búnir að gróðursetja sig hér og hvar úti um menntakerfið.

Herra forseti. Það skortir stefnu. Það kom augljóslega fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er t.d. engin stefna um fjarkennslu. Það er engin stefna um hvernig á að reyna að skjóta styrkum stoðum undir þær greinar sem við köllum nýja hagkerfið í dag. Það er með engu móti hægt að finna neina stefnu hjá hæstv. menntmrh. um hvernig á að nota upplýsingatæknina einmitt til þess að gróðursetja vaxtarsprota nýja hagkerfisins.

Ég bendi á það, herra forseti, af því að hv. þm. kom hérna og hafði kjark til að tala um fjarkennslu, að svo vill til að það er í fyrsta skipti núna á þessu ári sem fjarkennsla er orðin fastur liður á fjárlögum og tengist Verkmenntaskólanum á Akureyri sem var eins konar frumkvöðlasetur í þessu efni. Svo kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og talar hér af nokkrum belgingi, fannst mér, um stefnu flokks síns í fjarkennslumálum. Sú stefna er ekki til, herra forseti, og það er nauðsynlegt að það komi fram.

Hv. þm. talaði líka um nauðsyn þess, og það var eitt af því góða sem flokkur hans væri að gera, að ryðja brautina fyrir einkavæðingu í skólakerfinu. Það er gott að hv. þm. hefur kjark til að segja þetta vegna þess að félagar hans í Sjálfstfl. hafa ekki kjarkinn til þess. Hins vegar blasir það við að þetta er eitt af því sem hæstv. menntmrh. er að gera núna.

Hv. þm. Jón Bjarnason gat um ákveðna tilraun sem verið er að gera í Grundarfirði. Við sáum hina dauðu hönd hæstv. menntmrh. í því efni. Hvernig var það, herra forseti? Þar var að frumkvæði heimamanna sett á stofn ákaflega merkileg tilraun um lítinn framhaldsskóla, tiltölulega ódýran, á landsbyggðinni sem byggði á fjarkennslu. Þetta skipti miklu máli fyrir fjölskyldur barnanna vegna þess að þetta þýddi það að ef hægt væri að halda úti framhaldsskóla af þessu tagi, þá gætu börnin verið heima í héraði í fjögur ár til viðbótar og þau væru þess vegna orðin fleyg þegar þau færu úr hreiðrinu og foreldrarnir þyrftu ekki að fljúga með þeim burt frá staðnum. Þetta skiptir ákaflega miklu máli.

Hvað gerði Sjálfstfl.? Sjálfstfl. skellti á þetta unga fólk, 16 ára, jafnháum skólagjöldum og fullfrískt fullorðið fólk í Reykjavík þarf að borga til þess að nema við fyrsta flokks einkarekinn háskóla. Þetta er glaðningurinn sem felst í stefnu hæstv. menntmrh. og Sjálfstfl.

Herra forseti. Eitt af því sem Sjálfstfl. hefur t.d. ekki getað mótað stefnu um er hvort stytta eigi framhaldsskólaferilinn. Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur lýst stefnu Samfylkingarinnar um þetta efni. Við teljum að það eigi að gera. Við teljum að gefa eigi ungum Íslendingum það forskot sem í því felst. Ég gæti reyndar farið lengra, herra forseti, og sagt: Það á líka að stytta grunnskólann um eitt ár og það er auðvelt. Þar með er ákaflega létt verk að gera það að verkum að ungt fólk sem lýkur háskólanámi hér sé jafngamalt ungu útlendu fólki sem er að ljúka háskólanámi. Þetta gerir það að verkum að Ísland verður samkeppnishæfara og það er það sem þetta snýst um.

Hver er stefna hæstv. menntmrh. í því? Jú, hann hefur einhverjar dreggjar af stefnu sem forveri hans, Ólafur Garðar Einarsson, skildi eftir í ráðuneytinu, en hæstv. menntmrh. hefur ekki getað gert upp við sig hvort stytta eigi framhaldsskólann né heldur um hve mikið vegna þess að deilur eru um það meðal framhaldsskólakennara og ekki er enn ljóst hvorum megin meiri hlutinn liggur. Hann er því bara með puttana á lofti og ætlar að bíða eftir því hvaðan vindurinn blæs og síðan ætlar hann að móta stefnuna.

Herra forseti. Það er ekki á þann hátt sem menn móta stefnu í jafnmerkilegu máli og íslenska menntakerfinu.

Athyglisverðar upplýsingar hafa komið fram um framleiðni í íslenska atvinnulífinu og í samanburði við framleiðni erlendis. Það kemur t.d. fram á heimasíðu Fjárfestingarbankans í síðustu viku að framleiðni í Bandaríkjunum hefur vaxið á hverju ári síðasta áratug um 2,2%. Á Íslandi hefur framleiðni vaxið að meðaltali um 1,4%. Hvað segir Ari Edwald, sem er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um framleiðniþróunina síðustu árin? Hann segir að hún hafi ekkert aukist. Það er jafnvel mögulegt, segja talsmenn atvinnulífsins, að framleiðni hafi minnkað á síðustu árum. Þetta er afrakstur stefnunnar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er að hrósa sér af.

Herra forseti. Það eru talsmenn fjármálalífsins og atvinnulífsins sem draga þá ályktun af þessari stöðu í samanburði við aðrar þjóðir að okkur hafi ekki tekist að festa rætur nýja hagkerfisins í jarðvegi íslensks atvinnulífs. Af hverju er það, herra forseti? Það er vegna þess að við höfum ekki náð tökum á þessari tækni. Af hverju höfum við ekki gert það? Vegna þess að menntakerfið er ekki nógu gott, herra forseti. Hvað er það sem nýja hagkerfið þarf að byggjast á? Það er auðvitað víðtæk og útbreidd æðri menntun og það eru rannsóknir. Hvernig hafa rannsóknir þróast undir forustu flokks hv. þm. Péturs H. Blöndals? Förum bara í það frv. sem við eigum eftir að eyða mestum tíma í að ræða hér um á næstu vikum, þ.e. fjárlagafrv. Hvað kemur þar fram, herra forseti? Þar kemur fram að framlög til rannsókna hafa lækkað samkvæmt fjárlögum. Árið 1998 voru framlög til rannsókna á Íslandi um 6,9 milljarðar. Ári síðar, þ.e. í fyrra, voru þau 7,6 milljarðar. Hvað eiga þau að vera á næsta ári, herra forseti? Samkvæmt fjárlagafrv. og tillögu ríkisstjórnarinnar og samkvæmt tillögu hæstv. menntmrh. 6,7 milljarðar, minna en í fyrra, minna en í hittiðfyrra. Er þetta leið og stefna Sjálfstfl. til þess að gróðursetja nýja hagkerfið á Íslandi?

Herra forseti. Tökum einfalt dæmi af vísindunum eins og liðinn sem heitir Almenn þróun vísinda. Hann var á fjárlögum þessa árs sem við erum á núna, ársins 2000, 2,64 milljarðar. Hann er 2,599 milljarðar fyrir næsta ár samkvæmt fjárlögum. Og þegar fjárlagafrv. er skoðað, herra forseti, kemur í ljós að milli 1999 og 2001 minnka framlög til rannsókna á sviði fiskveiða, landbúnaðar, skógræktar, iðnaðar og orkumála. Þau aukast á einu sviði, á sviði heilsuverndar.

Herra forseti. Og svo hafa fulltrúar Sjálfstfl. kjark til þess að koma hingað og tala um að þeir séu í fararbroddi við að gróðursetja nýja hagkerfið. Heyr á endemi.