Ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:12:22 (1060)

2000-11-01 14:12:22# 126. lþ. 18.91 fundur 80#B ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Á síðasta fundi Alþingis, fyrir örfáum mínútum, bar það til tíðinda að einn forustumanna þingsins, formaður þingflokks Sjálfstfl., kvartaði yfir því að stórpólitísk mál sem hafa verið í umræðu manna á meðal hér á landi á síðustu dögum og vikum væru tekin til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Hún ræddi þar sérstaklega um tvö mál. Annars vegar þá staðreynd að framhaldsskólum mun að óbreyttu lokað innan örfárra daga þar sem framhaldsskólakennarar hafa boðað til verkfalls. Á hinn bóginn tilgreindi hún umræðu sem hér fór fram og atkvæðagreiðslu um beiðni um skýrslu vegna ítrekaðra hækkana á iðgjöldum bifreiðatrygginga og tryggingafélaga almennt.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort hann deili skoðunum hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur í þessu samhengi. Ég er þessu algerlega andvígur og teldi Alþingi vera að bregðast skyldu sinni með því að taka þessi mál ekki á dagskrá.