Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:42:34 (1622)

2000-11-13 16:42:34# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hæstv. félmrh. er gamansamur, en viðfangsefnið sem hér um ræðir gefur varla tilefni til mikillar hótfyndni. Mér finnst það eiginlega neðan við virðingu hæstv. félmrh., ég hef þó það álit enn á hæstv. félmrh., að ræða eingöngu um þessa hluti í formi útúrsnúninga og hótfyndni. Er hæstv. ráðherra virkilega svo firrtur veruleikanum eins og hann blasir við sveitarfélögunum vítt og breitt um landið að honum finnist þetta vera tilefni til hótfyndni? Mönnum var ekki hlátur í hug almennt í sveitarfélögunum á Norðurl. e. þegar þeir voru að ræða þessi mál við þingmenn sína, það var ekki svo.

Skattahækkun af þessu tagi, sem ríkisstjórnin ætlar þá sveitarfélögunum að standa fyrir af því að ríkisstjórnin sjálf vill geta montað sig af því að hún hafi lækkað skatta eða sé a.m.k. ekki að hækka þá, er náttúrlega ekki auðvelt viðfangsefni fyrir einn eða neinn, sama í sjálfu sér hvernig aðstæður eru, og síst er hún það í þeim sveitarfélögum sem fólksflótti er og menn vildu helst gera eitthvað annað fyrir íbúa sína en hækka á þeim skattana, auk þess sem það er þannig að útsvarshækkun er viðkvæmt atriði innbyrðis milli sveitarfélaganna af því að um heimildarákvæði er að ræða og þau eru að nokkru leyti að keppa í þeim efnum.