Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:39:34 (1852)

2000-11-16 12:39:34# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem ég og félagar mínir hafa gert á hinu háa Alþingi. Við erum með frv. til breytinga á hlutafélagalögum um einmitt þetta viðfangsefni, þess efnis að í hlutafélögum sem ríkið á meira en helming í sé ákvæði um að skylt sé að veita upplýsingar til Alþingis samkvæmt ákvæðum þingskapa. Á þessu viðfangsefni hefur því verið tekið og ég vænti þess þá að hæstv. forseti styðji þetta frv. þegar það kemur til afgreiðslu væntanlega síðar á þessu þingi.

Þetta er hins vegar gömul plata og lúin að minni hyggju þegar stjórnarliðar, og nú ætla ég að ræða það undir þeim formerkjum, og hv. þm. Halldór Blöndal í gegnum árin, á síðasta kjörtímabili töluðu einatt um að það mundi hríðfella verðmæti hlutabréfa í fyrirtækjum ef þingmenn væru að spyrja um hitt og þetta og það þyrfti að segja öll þessi stóru leyndarmál. Reyndar gekk hv. þm. lengra og talaði um að það væru ekki aðeins meðeigendur og réttur þeirra sem þyrfti að huga að heldur væri líka hætta á því að réttur starfsmanna væri fyrir borð borinn. Þingmaðurinn gaf sér það, þessa frjálshyggjuhugsjón, að það væri gefið mál að um leið og fyrirtæki ríkisins væri breytt í hlutafélag mundi vænkast hagur starfsmanna. Ég er hræddur um að sumir þeirra sem hefur verið sagt upp af þeim sökum hafi allt aðra sögu að segja þannig að ég noti þessar öfgar í því samhengi.

En kjarni málsins er sá að við erum hér m.a. að ræða um fyrirtæki í 100% eigu ríkissjóðs, fyrirtæki sem hv. þm. þekkir býsna vel, Póstinn, sem hefur um 98% hlutdeild í markaði hér á landi. Hvar er sú stóra hætta á ferðinni þar að þingmenn að fái svör við spurningum sínum? Spyr sá er ekki veit.