Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:52:58 (2002)

2000-11-21 13:52:58# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hef mikinn áhuga á að bæta lífskjörin en ég heyri að hv. þm. Pétur Blöndal hefur allt aðrar skoðanir á því en ég. Hann spyr mig út í hvor ég mundi styðja flutningsjöfnun ef sementsmóttökustöðin væri á Austurlandi. Ég væri fyrsti maður til þess að samþykkja og styðja þá flutningsjöfnun til að flytja sement hingað á höfuðborgarsvæðið til að byggja hús. Að sjálfsögðu á það að vera.

Hann talar um niðurgreiðslur. Það er athyglisvert að hlusta á það að hv. þm. er á móti því að þungaskattur sé lægri til strætisvagnareksturs. Hann telur það sennilega skekkja samkeppnisstöðu einkabílsins. Það er afar athyglisvert að það skuli koma hér fram að hv. 10. þm. Reykv. sé andvígur niðurgreiðslu á strætisvagnagjöldum hér í Reykjavík.

Hann talar líka um mjólkurverð, að það skuli vera það sama um landið. Ég gat ekki heyrt betur en að hann andmælti því líka. Er hv. þm. andvígur því? Telur hann sig fá verri þjónustu frá Mogganum vegna þess að það kostar hann það sama að kaupa Moggann hér í Reykjavík og mig á Siglufirði? Með öðrum orðum Morgunblaðið, blað allra landsmanna, er á sama verði um allt land. (Gripið fram í: Það er ekki flutningsjöfnunarkostnaður við það.) Jú, það er nefnilega flutningsjöfnunarkostnaður á því. Morgunblaðið setur það þannig upp að hafa sama verð fyrir allt landið, nákvæmlega eins og er með mjólkina og útvarpið. Af hverju er Stöð 2 með sama gjald um allt land?

Þetta eru bara nútímaleg vinnubrögð til að jafna mun milli landsbyggða. Fólk úti á landi á ekki að þurfa að gjalda fyrir það dýrum dómum að ýmsar stofnanir eru frekar staðsettar í Reykjavík en úti á landi. Það er grundvallaratriðið.