Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 15:35:51 (2017)

2000-11-21 15:35:51# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Öfugt við síðasta ræðumann á ég þess ekki kost lengur að starfa að málinu í hv. efh.- og viðskn. Ég afplánaði þar löngum en nú eru breyttir tímar og þar kemur maður í manns stað. Hv. þm. Ögmundur Jónasson situr þar fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð. Ég treysti því að þeir ágætu þingmenn sem þar eru í vasklega skipaðri nefnd muni fara rækilega yfir þetta mál, enda held ég að einhverjir mánuðir til eða frá skipti ekki sköpum, hvort þetta nær afgreiðslu fyrr eða aðeins síðar. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að hér takist vel til.

Ef þetta á að vera meginaðgerðin af hálfu stjórnvalda til að endurskapa meira traust á viðskiptasiðferðinu á þessum markaði en menn hafa haft upp á síðkastið þá verður það að vera trúverðug aðgerð. Þær aðgerðir sem farið verður í mega ekki leysast upp og fljóta út um víðan völl. Þessi markaður á í ákveðnum erfiðleikum. Það er alveg ljóst. Það hefur dregið úr trúnaðartrausti almennings á honum. Það fylgir lægð í verðbréfaviðskiptum og á hlutabréfamarkaði og allt ber að sama brunni. Eigi þetta að standa sæmilega traustum fótum þarf að takast vel til með ráðstafanir til að endurskapa trúnaðartraust á þessu sviði.

Mér sýnist ýmislegt benda til þess, og tek þar undir með hv. síðasta ræðumanni, að þegar maður skoðar sýnishorn og dæmi sem dregin eru upp í fskj. með frv. hafi á köflum verið á kreiki hugmyndir um að ganga lengra og taka fastar á málum en síðan er gert í sjálfum frumvarpstextanum. Það er eins og textinn hafi verið svolítið útvatnaður þegar að því kom að færa hann inn í lagagreinarnar. Ég nefndi dæmi um skilgreiningu á innherjum og sýnishorn af starfsreglum fyrirtækis sem birt er aftast í plagginu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi önnur dæmi. Mér virðist hvort tveggja benda í sömu átt, að afurðin hafi heldur útvatnast þegar farið var að setja þetta inn í sjálfan lagatextann.

Í öðru lagi vil ég nefna það, herra forseti, að mér sýnist að Fjármálaeftirlitið muni fá ærið að starfa eigi það að bæta á sig þeim viðbótarverkefnum, því aukna eftirliti sem frv. fylgir.

Að síðustu vil ég aftur koma að þessu með fjármálastofnanirnar, herra forseti, og spurningunni um hvort hér séu með trúverðugum hætti dregin upp landamæri þess sem mönnum leyfist á þeim bæjum, varðandi það að þjóna tveimur herrum, þ.e. sjálfum sér og viðskiptavinunum. Það er að mínu mati, herra forseti, langvandasamasti þátturinn, ef opið er fyrir það á annað borð að aðilar eins og verðbréfafyrirtæki, fjárfestingarsjóðir og bankar bjóði hvort tveggja, annars vegar ávöxtun á fé eða bankaþjónustu og hins vegar séu þeir gerendur á þessum markaði sjálfir, kaupendur og seljendur fyrir eigin reikning í ágóðaskyni. Þetta er hin mikla mótsögn, herra forseti, hinn mikli vandi sem felst í að þjóna tveimur herrum. Það væri fróðlegt að fara yfir það og kannski gerir hv. þingnefnd það með því að skoða m.a. dæmi frá nágrannalöndunum. Er búið um þennan þátt líkt og þar?

Tíðkast með sama hætti og hér hefur gerst að menn séu í þessum hlutverkum jöfnum höndum? Er það þannig, t.d. hvað varðar stöðu viðskiptabanka sem þjónustuaaðila viðskiptavina sinna, að þeir séu sjálfir í ódeildarskiptri starfsemi með sama mannskap, kaupendur og seljendur á bréfum á markaði fyrir eigin reikning, jafnvel inni á samkeppnissviðum þar sem þeir allt í einu dúkka upp sem eigendur að einu fyrirtæki en eru svo aðalviðskiptabanki samkeppnisaðila á sama sviði viðskipta o.s.frv.? Er þetta svona erlendis? Spyr sá sem ekki veit. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr með það hvort það sé í raun alsiða að menn séu þar í mörgum hlutverkum samtímis, þjóni kannski meira en tveimur herrum, jafnvel þremur ef ekki fleirum.

Herra forseti. Mér finnst þetta snúast dálítið um spurningu sem ég hef hugsað talsvert um upp á síðkastið að gefnu tilefni: Hvernig líta íslenskar fjármálastofnanir á sig í þessu samhengi í dag? Hvernig skilgreina t.d. Landsbanki Íslands og Íslandsbanki-FBA hf. sjálfa sig? Hvað er hann í grunninn? Er Landsbankinn í grunninn viðskiptabanki með starfsemi sem lýtur að því að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu eða hefur hann tekið um það meðvitaða ákvörðun, jafnvel með stuðningi eiganda síns --- ríkisins, að hann sé jöfnum höndum verðbréfafyrirtæki sem kaupir og selur fyrirtæki og græðir á því og að þetta séu jafngöfug og jafngild markmið?

Herra forseti. Hvað með þjónustuhlutverk þessara fyrirtækja? Hvað hefur t.d. orðið um þjónustuhlutverk Íslandsbanka-FBA hf. við sjávarútveginn í landinu og við iðnaðinn í landinu? Má ég minna á að það er spurt að gefnu tilefni, vegna þess að helftin af eigin fé þessa fyrirtækis eru Fiskveiðasjóður, Iðnþróunarsjóður og Iðnlánasjóður. Er það samt sem áður þannig að þessi ágæti banki okkar, herra forseti, hafi engum skyldum að gegna og líti ekki á sig að neinu leyti sem þjónustufyrirtæki atvinnulífsins, þeirra fyrrum stóru viðskiptavina sem hann tók í arf með því að í honum sameinuðust þessir stóru fjárfestingarlánasjóðir? Ég hef ástæðu til að ætla að í höndum nýrra stjórnenda og á nýjum tímum hafi orðið býsna mikil hugarfarsbreyting í þessu efni og hún sé umhugsunarefni fyrir okkur. Það væri fróðlegt ef hæstv. viðskrh. gæfi Alþingi skýrslu um það hvernig viðskrh. metur stöðu atvinnulífsins í dag, t.d. á landsbyggðinni, hvað varðar aðgang að bankaþjónustu og eðlilegri fjármögnun rekstrar síns.

Ég hef ófá dæmi í höndunum, herra forseti, frá umliðnum mánuðum þar sem þessar stærstu fjármálastofnanir landsins segja, þegar svo ber undir og þegar þeim sýnist: Við höfum ekki áhuga. Okkur kemur þetta ekki við. Þó í hlut eigi iðnfyrirtæki eða sjávarútvegsfyrirtæki sem áður áttu greiðan aðgang að fjárfestingarlánasjóðum þá er staðan þannig í dag að nú yppa menn öxlum ef svo ber undir og segja: Við höfum ekki áhuga á þessu, þetta kemur okkur ekki við. Sérstaklega á það við ef viðkomandi fyrirtæki eru með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins og eiga á brattann að sækja með veð eða vegna tortryggni í garð þess rekstrar vegna erfiðleika í atvinnulífi á landsbyggðinni, svo dæmi sé tekið.

Ég hef heyrt fjölmargar umkvartanir af þessum toga frá fyrirtækjum í mismunandi starfsgreinum, reyndar líka af höfuðborgarsvæðinu en þó sérstaklega af landsbyggðinni, þar sem kvartað er undan áhugaleysi þessara stóru stofnana á að veita viðkomandi fyrirtækjum eðlilega þjónustu, eðlilega bankafyrirgreiðslu. Á sama tíma opna menn varla fjölmiðla eða horfa á fréttir að kvöldi dags að ekki séu fluttar fréttir af stórkostlegum tilfæringum viðkomandi fjármálastofnana í að kaupa eða selja fyrirtæki til að reyna að græða á gengismun og öðru slíku. Er þetta endilega þróun sem við teljum okkur til góðs?

Ég tel ástæðu til að fara ofan í saumana á þessu, bæði vegna almennra hagsmuna með tilliti til atvinnumála, vegna framtíðarþróunarmöguleika í atvinnulífi okkar um allt land, en líka út frá viðskiptasiðferðilega hluta málsins og því hvernig þessar stofnanir líta nú orðið á sjálfar sig. Til hvers eru þær reknar og í þágu hverra? Ræður orðið ekkert annað en gróðinn í núinu og sem mestur hagnaður í svipinn, auðvitað með hinum fínu árangurstengingum sem skila sér oft ágætlega í vasa stjórnendanna, eða hafa þessar stofnanir einhverju hlutverki að gegna með langtímahagsmuni að leiðarljósi, fyrir sjálfar sig en líka fyrir atvinnulífið og efnahagslífið í landinu? Ég held að það væri fróðlegt að bera saman hugsunarhátt þýskra banka og þýskra fjármálastofnana að þessu leyti við hinn nýja hugsunarhátt í íslenska fjármálaheiminum sem mér virðist vaða uppi. Ég held að það væri ekkert verra í tengslum við þetta mál, herra forseti, hvort sem það gerist í áframhaldandi umræðu um málið eða í hv. nefnd, að farið yrði svolítið ofan í saumana á þessum hlutum.