Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:50:04 (2080)

2000-11-21 21:50:04# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:50]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið snúið að veita andsvar við ræðu sem endar með þeim hætti sem hv. þm. endaði sitt mál. Mér fannst hann ekki aðeins búinn að fara einn hring heldur kannski miklu fremur tvo. Hann lauk máli sínu á því að stinga upp á millileið sem ég heyrði ekki betur en væri nákvæmlega sú leið sem lögð er til í frv., þ.e. að fjármagn kæmi frá ríkinu og að ábyrgðin og valdið yrði flutt til sveitarfélaganna. Ég get ekki séð að verið sé að gera annað.

Ég ætlaði að spyrja þingmanninn: Hver er skoðun hans á málinu? Ég vil bara að hann staðfesti að hann er í raun sáttur við það sem hér er lagt til að gera. Mér fannst gæta ákveðins misskilnings í máli hans. Ég skil menn eins og Garðar Sverrisson ágætlega og áhyggjur þeirra af umbjóðendum sínum, hins vegar fannst mér óþægilegt að hlusta á hv. þm. tala eins og að þegar þjónustan væri komin til sveitarfélaganna þá ættu menn ekki lengur rétt samkvæmt landslögum. Hann sagði það beinlínis.

Hér er verið að setja lög sem tryggja fólki ákveðinn rétt samkvæmt landslögum. Miðað við þá reynslu sem orðið hefur af því að flytja þau verkefni, nærþjónustu sem snýr að fjölskyldunni til sveitarfélaganna --- þá ætla ég að byrja á því að taka leikskólana og síðan grunnskólana --- hefur þjónustan orðið mun betri. Hún hefur orðið mun betri en hún var meðan skammtað var og stýrt að sunnan. Það er einfaldlega vegna þess að þó að nálægðin geti verið erfið þá er hún þó þannig, rétt eins og hjá fjölskyldunni, að menn vilja eins mikið jafnræði á milli þegnanna og hægt er. Því nær sem meðbræður okkar standa okkur og því meira sem við vitum um þá þeim mun viljugri erum við til að gera hlutina þannig að allir geti haft sóma af.