Framleiðsla og sala áburðar

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:00:13 (2163)

2000-11-22 15:00:13# 126. lþ. 30.7 fundur 218. mál: #A framleiðsla og sala áburðar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 232 hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. um framleiðslu og sölu áburðar. Tilefni þessarar fyrirspurnar er að mjög hefur verið rætt um það efni eða þann þungmálm sem kadmíum heitir og er í áburði og hefur nokkuð borið á að vægi hans sé meira í innfluttum áburði en í þeim sem framleiddur er hérlendis. Umræðan um vistvæna framleiðslu landbúnaðarafurða, sölu og söluherferð lambakjöts innan lands sem erlendis og þær björtu vonir sölumennskunnar sem annars hafa blossað upp í nafni vistvænnar framleiðslu hafa leitt þessa spurningu fram hjá mér til hæstv. landbrh. sem er svohljóðandi:

1. Hve mikill áburður var framleiddur innan lands árin 1998, 1999 og 2000?

2. Hve mikið af framleiðslunni var selt á hverju ári?

3. Hve mikið af áburði var flutt inn til landsins sömu ár?

4. Hverjir fluttu áburðinn inn?

5. Hver var verðmismunur innlends og innflutts áburðar?