Sjókvíaeldi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:12:08 (2169)

2000-11-22 15:12:08# 126. lþ. 30.8 fundur 227. mál: #A sjókvíaeldi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Á síðasta ári var framleiðsla Íslendinga á eldisfiski tæp 4 þús. tonn og er þá allt talið, lax, regnbogasilungur, lúða o.fl., og á þessu ári er gert ráð fyrir að framleiðslan verði nær 6 þús. tonna með mestri aukningu í laxinum eða upp í rúm 4 þús. tonn. Gengið er út frá áframhaldandi tæknilegum útfærslum í strandeldi og góðum árangri með skiptieldi á laxi sem muni standa undir 18 þús. tonna framleiðslu af laxi árið 2010.

Við Íslendingar höfum verið að horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar hafa verið að gera, en framleiðsla þeirra er nú orðin tíu sinnum meiri en okkar. Flestir virðast sammála um að vaxandi eftirspurn eftir fiski sé það mikil að sú aukning sem vitað er um muni einungis verða til þess að mæta þeirri eftirspurn.

En nokkrar deilur hafa þegar orðið um útgáfu leyfa til kvíaeldisstöðva hér við land þar sem menn óttast bæði mengun frá slíkum stöðvum og íblöndun við villta stofna. Slík gagnrýni og deilur eru reyndar þekktar frá öðrum löndum, en það er þó athyglisvert, herra forseti, að Norðmenn t.d. virðast ekki hugsa mikið um umhverfismál þegar þeir deila út leyfum sínum heldur er þeim fyrst og fremst deilt út með tilliti til byggðasjónarmiða. Virðist sem svo að þar sé við hvert leyfi færi á framleiðslu á tilteknu magni af laxi.

En þrátt fyrir þær deilur sem við sjáum þegar vegna vaxandi fiskeldis við Ísland munu ýmsir aðilar vilja spreyta sig á fiskeldi nú þegar framfarir á ýmsum sviðum hafa gert það arðbærara og því má reikna með að nokkur spurn verði eftir leyfum til eldis. Ég hef skilið það svo að einhver leyfi muni ráðherra gefa út um áramótin, alla vega eru einhverjir aðilar sem bíða eftir slíku. Og af því að reynslan kennir okkur að betra er að hafa skýrar reglur og að fullt jafnræði sé með þeim sem vilja nýta möguleikana í íslenskri náttúru, þá hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. landbrh.:

,,1. Hvaða reglur telur ráðherra að ætti að viðhafa við úthlutun leyfa til sjókvíaeldis?`` --- Á t.d. að bjóða leyfin út, leyfi til að vera með sjókvíar á tilteknum stöðum, og binda þau leyfi einhverjum tilteknum skilyrðum eins og gert er þegar menn fá að nýta auðlindir á landi? Má framselja þessi leyfi að mati ráðherrans? Og ýmislegt fleira gæti komið þar inn.

,,2. Hvaða gjald hefur verið greitt fyrir leyfi til sjókvíaeldis?`` Það er auðvitað nokkur kostnaður samfara slíkum leyfisveitingum og undirbúningi þeirra. Nær gjald fyrir leyfi yfir þann kostnað og eru slík gjöld þá mishá eða hugsuð mishá? Er hér bara um kostnaðargreiðslur að ræða eða hvað?

,,3. Hvaða gjald telur ráðherra að ætti að greiða fyrir slíkt leyfi?

4. Lítur ráðherra svo á að í leyfi til sjókvíaeldis felist leyfi til að nýta sameiginlega auðlind?``

Ég ítreka, það er verið að nýta möguleika íslenskrar náttúru.