Sjókvíaeldi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:22:25 (2173)

2000-11-22 15:22:25# 126. lþ. 30.8 fundur 227. mál: #A sjókvíaeldi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. verður að fyrirgefa þótt maður úttali sig ekki um innstu hugsanir á þessu stigi, þegar málið er enn á vinnslustigi. Pólitískar ákvarðanir verða til með ákveðnum hætti. Í kringum þær þarf mikla fagvinnu sem unnin er víða í þjóðfélaginu.

Ég veit að mörgum liggur mikið á en ég tek undir það sem komið hefur fram í þessari umræðu, að þarna þurfum við af mörgum ástæðum að gera betur en aðrir. Við eigum mikla möguleika. Við höfum náð miklum árangri. Því hefur stundum verið haldið fram að við ætlum að fara að flytja inn fisktegundir til að setja í kvíaeldi. Við eigum mjög dýrmætan stofn, norskan lax, sem varð til á fiskeldisævintýraárunum. Það er mjög dýrmæt útflutningsvara og gæti gefið mikla möguleika í fiskeldi.

Ég er sannfærður um að við þurfum að hugsa um þessi mál í fullri alvöru. Við eigum að standa okkur vel í strandeldi og skiptieldi sem mér sýnist að sé áhættulítið. Við þurfum að vanda okkur við kvíaeldið og horfa þar langt fram á veginn þegar við tökum afstöðu, setja strangar reglur ef af verður, en gleyma því aldrei að dýrmætasta auðlindin sem við eigum er náttúran sjálf. Það eru þessar einstöku veiðiár sem eru hver með sinn sérstaka lax. Þetta er flókið samspil. Ég er að reyna að vinna úr því núna í ráðuneytinu með nefndinni sem ég skipaði. Ég vil því ekki stíga fastar á stokkinn eða svara strangar en þetta í dag. Minn hugur er opinn fyrir þeim rökum sem komið hafa fram en ég reyni að vanda mig og þakka fyrir að þingmenn sýna þessu máli áhuga og vilja vinna að því faglega.

Ég þakka hv. þm. fyrir fsp. hennar.