Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 17:02:36 (2225)

2000-11-27 17:02:36# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og varaformaður fjárln. vék að gæti þessi steinsteypufjárfesting í Japan í sjálfu sér verið arðsöm eins og hann var að lýsa og lofa. En sú ákvörðun gat alveg eins legið fyrir við fjárlagagerðina fyrir síðasta ár sem voru afgreidd í desember og hefði þá verið nær að hún kæmi til framkvæmda þar. Ég er einmitt að árétta að fjáraukalög eigi að bera fram oftar á ári til þess að samþykktin sé fyrir fram en ekki eftir á. Af þeim orðaskiptum sem hafa orðið við hv. formann og hv. varaformann fjárln., þá er ég enn sannfærðari um nauðsyn þess að brýnt sé að þær verklagsreglur eða lagabreytingar verði gerðar að fjáraukalög verði lögð fram líka að vori miðað við þær skuldbindingar og þær væntingar sem þá geta verið komnar.

Alþingi samþykkir fullt af lögum og það getur ekki uppfyllt allt í gegnum fjárlögin. Við fjárlaganefndarmenn vitum að ef allar lagaskyldur væru uppfylltar varðandi þátttöku ríkisins í fjármögnun og rekstri, þá værum við að tala um enn hærri upphæðir, herra forseti.