Framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:31:31 (2370)

2000-11-29 13:31:31# 126. lþ. 34.1 fundur 295. mál: #A framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrirspurn þessi er tilkomin vegna þess að á síðasta þingi var samhljóða samþykkt þál. um að vísa til ríkisstjórnarinnar tillögu um fjárveitingu til varðveislu báta og skipa. Forsaga málsins var sú að við fimm þingmenn fluttum frv. um að Þróunarsjóði sjávarútvegsins væri falið það hlutverk að styrkja varðveislu gamalla báta og skipa þar sem minja- eða byggðasöfn og sjóminjasöfn hefðu tekið skip til varðveislu frá árinu 1990 en eins og menn þekkja úr sögunni tók Þróunarsjóður við hlutverki úreldingarsjóðsins sem stóð fyrir því á árunum frá 1990 að styrkja útgerðarmenn til úreldingar fiskiskipa. Því miður var stundum gengið þar svolítið harkalega til verks og skip hugsanlega eyðilögð sem hefðu haft varðveislugildi.

Tillagan gekk einfaldlega út á að Þróunarsjóðurinn tæki að sér það hlutverk til viðbótar því sem hann hafði haft áður að varðveita skip sem hefðu sögulegt gildi og til þess væru markaðir ákveðnir tekjustofnar. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að í Þróunarsjóðinn hafa komið inn fjármunir sem áður var búið að afskrifa. Ég hef ekki upplýsingar fyrir síðasta ár en þrjú árin þar á undan nam þessi bakreikningur af fé sem áður hafði verið afskrifað í Þróunarsjóðnum tæpum 700 millj. kr., 695 millj. ef ég man rétt. Mest var þetta fé sem hafði áður verið í svokallaðri atvinnutryggingardeild og menn höfðu talið afskrifað en hafði síðan verið greitt upp, m.a. við sameiningar fyrirtækja í sjávarútvegi.

Þessi tillaga var samþykkt og því spyr ég:

Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa frá 9. maí í vor þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skuli að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu?

Í nefndarálitinu frá sjútvn. voru tilmæli um það að málinu yrði lokið á þessu ári. Ég beini fyrirspurninni til hæstv. forsrh.